07.12.1982
Sameinað þing: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

269. mál, verðmyndunarkerfi landbúnaðarins og endurskoðun útflutningsbótakerfisins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr um formlega viðræðunefnd og segir að fulltrúar bænda hafi beðið eftir slíkri skipan. Auðvitað munu bændasamtökin tilnefna sína fulltrúa í formlegar viðræðunefndir ef eftir því er leitað. Það hefur aðeins staðið á því að ég hef ekki enn talið ástæðu til þess að slík viðræðunefnd væri skipuð. Ég mun hins vegar taka það til athugunar, ef mér sýnist ástæða til, að skipa slíka viðræðunefnd og þá bæði samkv. tilnefningu bændasamtakanna og af hálfu rn. Ég ætla ekki að gefa ákveðnari svör en hér hafa komið fram um fyrirætlanir mínar að þessu sinni. Það hefur verið sagt að haldinn hafi verið einn óformlegur viðræðufundur. Það er rétt, það hefur verið haldinn einn allfjölmennur óformlegur viðræðufundur. Á hinn bóginn hef ég rætt þessi mál við forustumenn bændasamtakanna nokkrum sinnum þó ekki hafi alltaf verið margir á fundi.

Varðandi það fjármagn sem ætlað var til þess að styðja að fækkun sauðfjár, þá er það rétt skilið, að því verður varið í samræmi við þá samninga sem gerðir hafa verið. Slátrað var samkv. samningum líklega í kringum 12 þús. fjár. En þessu fé verður ekki varið samkv. neinum geðþóttaákvörðunum, heldur nákvæmlega í samræmi við þá samninga sem gerðir hafa verið. Ég vænti að hv. 1. landsk. þm. hafi átt við það.

Hins vegar var alltaf vitað að það var mjög óljóst hvað samningar tækjust um förgun á mörgu sauðfé samkv. þessu kerfi. Það gátu orðið 50 þús., það gátu orðið 5 þús., það vissi enginn. Og m.a. þess vegna var þegar ákveðið á þessu ári að gefa fyrirheit um aðeins 10 millj. kr. Síðan er gert ráð fyrir í fjárlagafrv. öðrum 10 millj. En það var ekki vitað hvort þörf væri á þessu fé eða hvort þetta fé dygði. Ef samið hefði verið um förgun á 50 þús. fjár hefði þetta fé ekki dugað. Þetta var ekki hægt að sjá fyrir og það voru heldur engar beinar fyrirætlanir um það sem fram kom hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, að einhverjum 50 þús. fjár yrði slátrað aftur næsta haust eða fé fækkað sem því næmi.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson ræddi hér um niðurgreiðslur og útflutningsbætur. Hann ruglaði þessu hvoru tveggja saman í einn sjóð. Það er hins vegar af ólíku tilefni sem þessar fjárgreiðslur fara fram úr ríkissjóði. Niðurgreiðslur eru, eins og allir vita, notaðar hér innanlands til þess að hafa áhrif á vöruverð, halda niðri vöruverði og þar með vísitölu og hafa áhrif á verðlags- og verðbólguþróun. Útflutningsbætur eru tryggingarfé fyrir landbúnaðinn, til þess að tryggja að vissu marki fullt verð fyrir þær landbúnaðarafurðir sem fluttar eru til útlanda. Ég ber engan kinnroða fyrir hönd landbúnaðarins vegna þessara fjárgreiðslna. Það er tiltölulega lítið gjald þjóðarinnar til landbúnaðarins að greiða þessa 10% útflutningsbótatryggingu til þeirra þjóðnytjastarfa sem bændur halda uppi, þar á meðal til þess að halda uppi byggð um allt Ísland.