07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hv. málshefjandi, hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, vék óbeint að mér í ræðu sinni áðan. Af því tilefni vil gera örstutta aths.

Hann skýrði frá því, að prófessor við lagadeild Háskólans hefði í morgun, að mér skildist, komið á fund fjh.- og viðskn. Ed. og þar haldið fram gagnstæðum skilningi við það sem ég sagði í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum. Hann hélt því fram að prófessor Sigurður Líndal hefði sagt að ef brbl. væru felld eða féllu niður af öðrum sökum mundi þurfa að greiða þann verðbótafrádrátt sem átt hefur sér stað frá 1. des. (MÁM: Frá þeim tíma sem lögin verða felld, ef yrðu.) Já, ætli það sé ekki verðbótafrádrátturinn sem átti sér stað 1. des. Það er varla um annað að ræða. (Gripið fram í: Frá þeim tíma sem lögin féllu.)

Ég hafði hins vegar látið hafa eftir mér í Morgunblaðinu að þau réttaráhrif laganna sem fram væru komin högguðust ekki af því hvert yrði frambúðargildi þessara brbl. Ég vil aðeins í þessu sambandi benda á, að þessa skoðun, sem ég lét í ljós þarna, má finna í bók sem ég skrifaði fyrir að ég held 22 árum eða jafnvel fyrr. Ég hygg að sömu skoðun sé að finna í ritum um stjórnlagafræði sem eru fyrir hendi frá fyrirrennurum mínum við Háskólann. Ég hygg að sömu skoðun sé að finna í fræðiritum á Norðurlöndum, sem hafa verið rituð um þessi efni. Ég veit ekki betur en þetta hafi alltaf verið kennt við Háskólann, nema það hafi orðið einhver skyndibreyting á því nýlega. Ég held að það sé að öðru jöfnu meira leggjandi upp úr því sem menn skrifa um svona atriði áður en sérstakt tilefni hefur komið til sem deilur standa um.

Ég veit að prófessor Sigurður Líndal er ágætur fræðimaður í lögum og jafnvel ekkert síðri fræðimaður á öðrum sviðum. En þegar leitað er álits prófessora, eða svo var það í minni tíð við Háskólann, er yfirleitt leitað til þeirra prófessora sem kenna þá grein sem það deiluatriði varðar sem deilt er um eða menn vilja fræðast um. Þess vegna þykir mér dálítið undarlegt að það skuti ekki hafa verið fremur leitað til annars ágætis fræðimanns við lagadeild Háskólans, prófessorsins í stjórnlagafræði, Gunnars G. Schram, þegar leitað er upplýsinga um þetta efni.

En hv. þm. Matthías Mathiesen er sjálfur lögfræðingur og hann veit þar af leiðandi að það kemur einstaka sinnum fyrir að lögfræðingar eru ekki á sama máli. Þegar svo er er þrautalendingin að leita til dómstóla, ef á þarf að halda, þegar þar að kemur, og fá úr því skorið. Þess vegna hefur það ekki mikið til síns máls að hafa langt mál um þetta atriði hér. Það er öruggt, að ef slíkri kenningu er haldið fram sem þeirri, er hann sagði frá, verður leitað til dómstóla á sínum tíma, ef svo ólíklega færi að brbl. yrðu felld, og þá yrði skorið úr þessu af réttum aðilum. Við dómara tjóar ekki að deila, eins og við vitum báðir.

En hvað sem því líður finnst mér nú, þegar ég heyri þessa í mínum eyrum nýstárlegu kenningu, vera aukið tilefni fyrir þá hv. þm. sem kynnu að hafa hugsað sér að greiða atkv. á móti þessum brbl. að taka þá afstöðu sína til rækilegrar endurskoðunar því að öllum má ljóst vera hvílíkan glundroða og óþolandi réttaróvissu mundi leiða af því ef allt þyrfti að rekja upp á ný sem framkvæmt er eftir brbl. Ég vænti þess að hver og einn hugsi sig um tvisvar áður en hann tekur slíka áhættu.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta atriði. Það kemur á daginn ef á reynir, eins og ég sagði, hvað er hið rétta í þessu efni. En ég vildi aðeins láta þetta koma fram og þá sérstaklega að ég hef sagt það, sem haft er eftir mér í því ágæta blaði Morgunblaðinu, fyrir langa löngu í ritverki um það efni.