08.12.1982
Efri deild: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

132. mál, umferðarlög

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ekki löngu máli við að bæta ræðu hv. þm. Eiðs Guðnasonar, 1. flm. þessa frv. Vil aðeins greina frá því, því að ég á sæti í samgöngumálanefnd Norðurlandaráðs, að nú á þessu hausti bar þá spurningu í þriðja sinn eftir að ég tók sæti í þessari samgöngumálanefnd upp á fundi með ráðherrum, hvernig á því stæði að Íslendingar væru settir hjá í þessu efni í Danmörku og Svíþjóð. Nú fyrst á nefndarfundinum í haust fengust skýr svör af hálfu Svía um ástæðuna. Hún var einfaldlega sú, að oft hefur verið eftir því rekið við Íslendinga að þeir ætluðu sænskum þegnum þann rétt sem þeir óska af grannþjóðum sínum á Norðurlöndum varðandi ökuskírteini, en því ávallt árum saman verið við borið, að íslensk umferðarlög væru í endurskoðun og senn mundi koma fram heildarfrv. þar sem þessu atriði væri einnig kippt í liðinn.

Þetta hefur dregist sem sagt árum saman, að Alþingi fengi heildarfrv. varðandi umferðarmálin til umfjöllunar. Það er skoðun mín sem og hv. þm. Eiðs Guðnasonar, að okkur sé kostnaðarlítið að breyta þessu eina ákvæði núna, þannig að við þurfum ekki að fara þarna lengur bónleiðir til búðar og æskja réttinda af grönnum okkar, sem við erum þá ekki reiðubúnir jafnframt samtímis til þess að láta þeim í té.

Ég vil ennfremur bæta við þeirri ósk minni, að afgreiðslu málsins verði flýtt hér í Ed. á þann veg, að við getum átt nokkra von í því að næst þegar haldinn verði fundur í samgöngumálanefnd Norðurlandaráðs þurfum við hv. þm. Eiður Guðnason og ég ekki að standa á þingi Norðurlandaráðs nú í vetur sem óverðugir vonbiðlar þessa máls.