25.10.1982
Sameinað þing: 6. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í kvöld höfum við hlýtt á stefnuræðu, sem flutt er fyrir hönd ríkisstj. sem situr í stjórnskipulegri sjálfheldu, eins og forsrh. hefur sjálfur komist að orði — ríkisstj. sem er rúin trausti og trúnaði og verður að una við þá staðreynd að á Alþingi er uppi jafnteflisstaða sem veldur því að stjórnin kemur ekki málum fram án atbeina stjórnarandstöðu. Við höfum hlýtt á stefnuræðu oddvita ríkisstj. sem ætti að vera búin að segja af sér og boða til kosninga. En hvaða stefnu boðaði forsrh. í þeirri ræðu sem við í kvöld höfum heyrt? Það vefst sjálfsagt fyrir ýmsum að svara því — og þó. Stefnan virðist sú ein að sitja áfram. Það eitt skyggir nú á allt annað.

Mér heyrðist formaður Framsfl., Steingrímur Hermannsson, vera að tala um niðurtalningu hér áðan. Hvaða niðurtalningu? Varla niðurtalningu verðbólgunnar, sem framsóknarmenn töluðu svo mikið um fyrir síðustu kosningar og framan af valdatíð þessarar ríkisstj. Það hefur lítið verið talað um niðurtalningu verðbólgunnar í seinni tíð. Hins vegar hefur borið öllu meira á niðurtalningu lífskjara launþega og sömuleiðis hefur rekstrargrundvöllur atvinnuveganna verið talinn niður fyrir núllið. Það er nú eina niðurtalning þeirra framsóknarmanna sem fram hefur komið í þessu þjóðfélagi.

Fyrir einu ári fóru fram á Alþingi sams konar umr. og eiga sér stað nú í kvöld. Þá málaði forsrh. glansmynd af ástandi efnahagsmála og stöðu þjóðarbús. Við Alþfl.menn bentum þá rækilega á að þessi glansmynd væri falsmynd sem gæfi alranga mynd af stöðu þjóðarbús og atvinnuvega. Nú hefur glansmyndagerð Gunnars Thoroddsens hætt störfum. Ríkisstj. hefur gefist upp í baráttunni við verðbólguna — verðbólguna sem á þessu ári, samkv. stjórnarsáttmála, átti að vera á bilinu 7-10%, óðaverðbólguna sem nú er kannske nær því að vera 80% og stefnir hærra.

Í ræðunni, sem við hlýddum á hér í kvöld, var dregin upp dökk mynd. Raunar var þar lítið sagt í löngu máli, en mergur þess máls sem þar var flutt var þessi: Okkur hefur mistekist, en það er ekki okkur að kenna. — Hvernig á annað að vera en þeirri ríkisstj. mistakist sem sér engin úrræði önnur en að skerða laun? Víst getur launaskerðing verið nauðsyn, ill nauðsyn, ekki skal dregið úr því. En fórnir af hálfu launafólks verða að skila árangri. Þær hafa engum árangri skilað í tíð þessarar ríkisstj. Kaupið hefur verið skert og skammgóður vermir hefur það reynst. Það er engri ríkisstj. sætt sem verður að grípa til kaupskerðingar á fárra mánaða fresti. Það er hægt að fara fram á að launafólk færi fórnir ef þær fórnir verða til þess að árangur næst. En það er ekki hægt að krefjast þess, að launafólk færi fórnir aftur og aftur sem engum árangri skila. Við þurfum kerfisbreytingu í Íslensku þjóðfélagi, ekki kauplækkun á kauplækkun ofan.

Ég hjó eftir því áðan, er hæstv. forsrh. ræddi um landbúnaðarmálin, að hann greindi frá því að nú skyldi gera sérstaka athugun á fjárhagsstöðu bænda. Ekki skal úr því dregið að nauðsyn kunni að vera að athuga sérstaklega fjárhagsstöðu bændastéttarinnar. Íslenskir bændur leggja vissulega fram mikilvægan skerf til þjóðarbúsins. Erfitt er þó að sjá hvaða nauður rekur til þess að gera sérstaka könnun á fjárhagsstöðu bænda einmitt nú umfram aðrar stéttir í þessu þjóðfélagi. Vonandi leiðir þessi könnun þó í ljós að hagur íslenskra bænda stendur með blóma þrátt fyrir söluerfiðleika á erlendum mörkuðum. Þeir erfiðleikar stafa kannske fyrst og fremst af steinrunnu sölukerfi sem hneppt er í einokunarviðjar Sambandsins.

Við heyrum líka um það talað um þessar mundir að gera þurfi sérstaka úttekt á rekstrarstöðu ýmissa atvinnugreina og breyta lausaskuldum í föst lán. En í þessu sambandi held ég að eitt hafi gleymst — eitt sem er afar mikilvægt. Það er rekstrargrundvöllur alþýðuheimilanna á Íslandi. Núverandi ríkisstj. hefur gleymt að huga að rekstrargrundvelli heimilanna og það talar enginn um að gera sérstaka úttekt á fjárhagsstöðu íslenskra láglaunaheimila. Rekstrargrundvöllur alþýðuheimilanna á Íslandi er löngu brostinn í óðaverðbólgu og efnahagslegri óstjórn, en það sjá hæstv. ráðherrar ekki. Þeir hafa öðrum hnöppum að hneppa.

Hvernig væri nú að gera sérstaka athugun á fjárhagsstöðu láglaunaheimila á Íslandi? Við skulum kanna hvernig einstæð móðir eða einstæður faðir með tvö börn, sem búa í leiguhúsnæði, fara að því að láta 7–8 þús. kr. mánaðarlaun duga sér og börnum sínum til lífsviðurværis. Við skulum líka kanna hvernig ung hjón, sem eru að byggja og vinna myrkranna á milli, komast af, hvernig þeim vegnar undir efnahagsstefnu Gunnars Thoroddsens og húsnæðismálastetnu Alþb. Við skulum líka láta kanna kjör lífeyrisþega og öryrkja. Þetta er vissulega ástæða til að athuga. Því höfum við þm. Alþfl. ákveðið að beita okkur fyrir því hér á Alþingi að slík könnun á fjárhagsstöðu íslenskra alþýðuheimila og lágtekjufólks verði látin fara fram. Það ætti m.a. að kanna hvernig myntbreytingin margumtalaða og smávöruokrið, sem henni fylgdi, hefur leikið íslenski láglaunafólk.

Góðir hlustendur. Ekki skal úr því dregið að vandi steðjar nú að í íslenskum efnahagsmálum, meiri vandi en oft áður. Þann vanda má að nokkru rekja til atvika og atburða sem við höfum engu um ráðið. En vandinn á ekki síður rætur að rekja til efnahagslegrar óstjórnar og rangrar stjórnarstefnu. Þann vanda getum við því aðeins lagfært að við tökum upp nýja háttu. En hvernig má það verða? Í fyrsta lagi er það svo að við höfum um langan tíma fylgt alrangri fjárfestingarstefnu. A.m.k. 17 togarar að verðmæti um það bil 850 millj. kr. hafa bæst við allt of stóran fiskiskipaflota fyrir tilstilli Steingríms Hermannssonar sjútvrh. Líklegt er að tapið af þessum viðbótartogaraflota ráðh. muni nema öðrum 850 millj. kr. á næstu þremur árum eða svo.

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að á næsta ári þurfum við, þú og ég, að borga 220 millj. kr. aðeins í vexti og afborganir af Kröflu. Fjárfestingarmistökin í Kröflu eru eitt mesta fjármálahneyksli sem Íslandssagan kann frá að greina. Fyrir það fé sem fer í Kröfluhítina eina á næsta ári mætti sjálfsagt byggja eins og 250 íbúðir. Og hvar skyldu þeir vera, herrarnir, sem bera ábyrgð á þessu endemi? Jú, einn Kröflunefndarmaður er fjmrh., annar Kröflunefndarmaður er menntmrh. og æðsti yfirmaður allra Kröflumála er forsrh. En hvers vegna að tala um Kröflu núna? Vegna þess að á næsta ári kosta afrek þessara heiðursmanna okkur gífurlegar upphæðir í hækkuðum sköttum, eins og Magnús H. Magnússon rakti ítarlega hér áðan.

Ég sagði fyrr að glansmyndagerð Gunnars Thoroddsens hefði nú hætt störfum. Nú er brýnna en nokkru sinni fyrr að taka upp breytta stjórnarhætti. Nú skulum við láta nýja og ferska vinda blása um sali stjórnarráðsins, þar sem nú leggur um ganga dauninn af Iscargo og togarakaupum þeirra framsóknarmanna. Við verðum að taka upp nýja fjárfestingarstefnu. Við verðum að hætta blekkingarleik vísitölusvindlsins sem þessi ríkisstj. hefur iðkað af meiri list en nokkur önnur. Við verðum að stórauka og efla aðstoð við þá sem eru að eignast húsnæði. Við verðum að draga úr hættulegri skuldasöfnun erlendis. Við verðum að gera kerfisbreytingu í íslensku efnahagslífi — kerfisbreytingu í stað sífelldra kauplækkana. Hversu miklu betur stæðum við ekki í dag, hversu miklu betri gætu lífskjör þjóðarinnar ekki verið ef ekki væru hin himinhrópandi dæmi allt í kringum okkur um ranga fjárfestingu: Krafla 220 millj., viðbótin við fiskiskipastól sem þegar var of stór 850 millj., á fjórða hundrað millj. í meðlag með íslenskum landbúnaðarafurðum á erlendum mörkuðum. Það mætti margt gera fyrir þessa fjármuni. Það sem nú skiptir mestu í íslenskum stjórnmálum og íslensku efnahagslífi er að taka upp nýja stefnu í fjárfestingarmálum. Um það höfum við Alþfl.-menn flutt tillögur. Að því vill Alþfl. vinna og að því mun Alþfl. vinna.

Við Íslendingar eigum mikinn auð, þjóðarauð, sem eru orkulindir landsins. Þessi þjóðarauður getur á ókomnum tímum fært okkur ómældan arð ef við aðeins berum gæfu til að halda rétt á okkar málum. Þess vegna eigum við nú bjarta framtíð. En forsenda þess að sú framtíð verði ekki alltaf framtíð, heldur verði nútíð, er auðvitað sú að við kunnum fótum okkar forráð, förum að greiða upp erlendu eyðsluskuldirnar í stað þess að láta börn okkar axla þær byrðar, að við tökum aðeins erlend lán til hagkvæmra framkvæmda, ekki til þess að falsa vísitöluna eins og þessi stjórn hefur gert, og síðast en ekki síst, að við nýtum okkur þá orkusjóði sem land okkar geymir. Við höfum of lengi hjakkað í sama hjólfari. Nú þurfum við að marka nýja stefnu, fara nýjar brautir. Þar hefur Alþfl. markað stefnu — stefnu sem færir okkur nær þeirri framtíð sem við sjálf og afkomendur okkar ætlum að njóta. — Góðar stundir.