16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

274. mál, kostnaður vegna athugunar á starfsemi Íslenska álfélagsins

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það kom fram í ræðu hæstv. ráðh. hér áðan að það hefði áður gerst að frá tekjum Hafnarfjarðarbæjar og annarra aðila væri dreginn kostnaður við endurskoðun á reikningum Íslenska álfélagsins, kostnaður af endurskoðun fyrirtækisins Coopers & Lybrand. Forskriftin fyrir því að fara út í þessa endurskoðun var sú, að þetta leiddi til hærri tekna fyrir Hafnarfjarðarbæ. Sú endurskoðun sem hér um ræðir leiddi í sjálfu sér ekki til hærri tekna fyrir Hafnarfjarðarbæ. Hún leiddi til nýrra samninga við Íslenska álfélagið og Alusuisse um hærra raforkuverð. Það var það sem kom út úr þessari endurskoðun, svo að forsendurnar fyrir frádrættinum voru heldur hæpnar þá líka.

Hins vegar var gerður samningur milli iðnrh. og Hafnarfjarðarbæjar um endurskoðun á tekjustofnum Hafnarfjarðar og gert ráð fyrir því, að löggjöf yrði flutt um það efni. Það hefur ekki enn verið efnt 7 eða 8 árum seinna. Hver er staða sveitarfélaga eða annarra, sem semja við ríkið, ef þeir samningar eru ekki haldnir? Ef ekki er sett sú löggjöf sem á að setja í því sambandi. Og það sem meira er, þegar ekki er staðið við að framfylgja þeim ákvæðum sem um var samið, t.d. varðandi endurskoðun á þeirri upphæð sem kæmi til greiðslu til sveitarfélagsins. Hvers konar ráðslag er það að ríkið leyfir sér að haga sér með þessum hætti?

Í fyrsta lagi voru engar forsendur fyrir frádrættinum 1975 af því tagi sem iðnrh. bendir á. Í annan stað var ekki efnt það loforð sem gefið var um að festa þetta í lög og framkvæma endurskoðun á upphæðinni með tilteknum hætti.

En að lokum, herra forseti. Alveg það sama gildir um þá athugun sem hér er í gangi. Það er ekkert vitað um það, hvort hún muni leiða til hærri tekna fyrir Hafnarfjarðarbæ. Þess vegna eru ekki heldur fram komnar neinar forsendur fyrir þessum frádrætti, hvorki að því er varðar þetta sveitarfélag né aðra þá sem eiga að fá hlut af framleiðslugjaldinu. Auk þess er hér um athugun að ræða, alveg sérstaklega í þessu tilviki núna, sem er mjög víðtæk. Og ég skil ekki hvar þetta getur endað. Getur iðnrh. bara fundið upp á því að athuga hvað sem er og senda hverjum sem er úti í bæ reikninginn?