24.11.1983
Sameinað þing: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

100. mál, stefna í flugmálum

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vissi alveg hvernig ræðu hv. þm. Skúli Alexandersson mundi flytja hér. Hann hefur ekkert breyst frá því að þetta mál var til umr. síðast. Ég ætla ekki að fara að della við hann. Ég nenni því ekki.

Ég tel að þetta mál sé af þeim toga spunnið að það sé fullkomlega ástæðulaust að vera að blanda inn í það viðkvæmum tilfinningalegum varnarmálum. (Gripið fram í.) Þau eru svo mikil tilfinningamál fyrir hv. þm. að hann áttar sig ekki á því að þessi till. er unnin sem ein heild og 7. liður hennar er hluti af því sem á undan kemur og sem eftir fer. Mér þótti því alveg út í hött að slíta 7. lið úr samhengi, enda hefði það breytt till. með tilliti til grg. sem fylgir á eftir. Ég vona að hv. þm. skilji þetta.

Ég get sagt það við hv. þm., ef það léttir lund hans að einhverju leyti, að ég væri fullkomlega dús við að nota það fjármagn sem á að fara í flugstöðina á Keflavíkurflugvelli til að bæta vegasamgöngur hér á landi. (Gripið fram í.) Nei, nei, við vorum að tala um vegi í till. áðan. Ég hefði ekkert á móti því, nákvæmlega ekki neitt. Aldrei hef ég lýst annarri skoðun, aldrei nokkurn tíma. Ég vona að hv. þm. misskilji það ekki að ég tel vegaframkvæmdir og vegagerð hér á landi undirstöðu þess að við getum lifað hér þokkalegu lífi. Þetta vissi t.d. Hitler sálugi í Þýskalandi mjög vel og þetta vissu Rómverjar — og því skyldum við ekki átta okkur á þessu? Mér finnst það alveg furðulegt. Það þarf varla að taka þetta fram.

En ég vil benda á það í sambandi við orð hv. síðasta ræðumanns, að á fundi Flugráðs, þar sem fjallað var um þessa till., voru flugráðsmenn allir samþykkir því áliti sem Flugráð sendi frá sér um þessa till., en tveir flugráðsmenn, þeir hv. þm. Skúli Alexandersson og Guðmundur Guðmundsson, óskuðu eftir að sitja hjá við afgreiðslu þessa máls. Ég veit ekki alveg af hverju hv. þm. Skúli Alexandersson hefur tekið þessa afstöðu til málsins. Og mér finnst einhverra hluta vegna hans málflutningur, bæði fyrr og nú, ekki styðjast við neina röksemdafærslu. Þetta er meira einhvers konar tilfinningamál, sem líklega á rætur að rekja í einhverjum deilum sem hafa átt sér stað innan Flugráðs. Ég hef lesið hans ræður þar sem hann hefur fjallað um þessa þáltill. og ég hef ekki fengið nokkurn einasta botn í það, af hverju hann hefur á móti því að hér verði mótuð stefna í flugmálum. Það er vitnað hér sérstaklega í það, að unnin var upp mjög merkileg till. í sambandi við öryggismál í fluginu, sem reynt hefur verið að fara eftir en erfitt hefur verið að framfylgja vegna peningaleysis. Það er nánast það eina vitræna, verð ég að segja, sem gert hefur verið til þess að tryggja öruggar og traustar flugsamgöngur í þessu landi.

Ég verð líka að segja það, að mér þótti alltaf afskaplega dapurlegt, þegar ég ræddi við vin minn Agnar Kofoed-Hansen heitinn flugmálastjóra, þegar hann var að segja mér frá því hvernig hann varð að fara til Bandaríkjanna hvað eftir annað með betlistaf í hendi til að sníkja tæki í flugturninn á Reykjavíkurflugvelli, til að sníkja flugleiðsögutæki sem voru lífsnauðsynleg. En svo má ekki setja og móta stefnu í flugmálum almennt. Andstæðurnar og þversagnirnar í málflutningi hv. þm. skil ég ekki, vegna þess að mér finnst það vera hluti af sjálfstæði þjóðarinnar að við getum haldið sjálf uppi nauðsynlegu flugi í fyrsta lagi til og frá landinu og í öðru lagi innanlands. Eyland án góðra flugsamgangna á erfitt.

Ég verð að segja það hæstv. núv. forsrh. til hróss, að þegar umr. um þetta mál fór fram á síðasta þingi hafði hann manndóm í sér til þess, þrátt fyrir miklar deilur sem ég var búinn að eiga við hann og hann við mig um ákveðna þætti íslenskra flugmála, að viðurkenna það sem jákvætt var í þessari till. Þetta geta menn lesið. Það er mjög einfalt.

Ég endurtek að það er mjög tímabært að móta stefnu í flugmálum. Við skulum átta okkur á því, og nú skal ég ekki lengja þessa umr., herra forseti, að t.d. flugfloti sá sem notaður er til að halda uppi samgöngum innanlands á Íslandi er að verða svo gámall og er að verða í eðli sínu svo úreltur að það er ekki lengur forsvaranlegt að mínu mati. Margar af þeim flugvélum, eða a.m.k. tvær, eru orðnar það gamlar að mín skoðun er sú, að þær ætti ekki lengur að nota til farþegaflutninga. Ég verð að segja það, að þegar ekki er hægt að endurnýja á eðlilegan hátt þann flugflota sem notaður er í innanlandsflugi og við treystum á og hefur haldið uppi þeim samgöngum sem nauðsynlegar hafa verið, þegar ófærð hefur m.a. tafið yfirleitt alla umferð í landinu, er illt í efni. Og menn mega ekki, hv. þm. Skúli Alexandersson, leyfa sér að taka neikvæða afstöðu til þáltill. af þessu tagi vegna þess að inni í henni er eitt tiltekið atriði sem þm. er á móti. Það er óheimilt — sérstaklega vegna þess að viðkomandi hv. þm. hefur setið í Flugráði og þekkir vandamál flugsins. Hann veit líka að mikill meiri hluti Flugráðs er hlynntur þessari till.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri.