25.11.1983
Neðri deild: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

23. mál, afnám laga um álag á ferðagjaldeyri

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Við meðferð þessa máls í hv. Ed. kom það fram að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna, hv. þm. Ragnar Arnalds, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Magnús H. Magnússon lýstu andstöðu við niðurfellingu þessa gjalds á ferðamannagjaldeyri með rökum sem eru greind í nál., þskj. 113. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Undirritaðir nm. telja að ótímabært hafi verið að afnema gjald á ferðalög til útlanda eins og ástatt er í fjármálum ríkisins og efnahagsmálum þjóðarinnar. Full heimild var til álagningar þessa gjalds, a.m.k. til ársloka og ekkert rak á eftir því að gjaldið væri fellt niður á miðju ári þvert ofan í áætlun gildandi fjárlaga. Í fjárlögum var áætlað að innheimta gjaldsins á árinu 1983 næmi um 75 millj. kr. Miðað við breyttar gengisforsendur má telja víst að upphæðin hefði numið rúmlega 100 millj. kr. á þessu ári. Þegar gjaldið var fellt niður í júlímánuði s.l. nam innheimta þess um 58 millj. kr. og má því ætla að tekjutap ríkissjóðs vegna niðurfellingar þessa gjalds á árinu 1983 nemi 40–50 millj. kr. Við teljum að fyrr hefði átt að afnema ýmsa skatta sem leggjast með miklum þunga á láglaunafólk en að afnema gjald á ferðalög til útlanda. Auk þess skortir ríkissjóð fjármuni til að halda uppi ýmiss konar bráðnauðsynlegri þjónustu með eðlilegum hætti.“

Ég vil gera þau sjónarmið sem fram koma í nál. minni hl. í Ed. að mínum og mun gera nánari grein fyrir afstöðu minni þegar málið kemur til 2. umr.