29.11.1983
Sameinað þing: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

391. mál, innheimta og ráðstöfun kjarnfóðursgjalds

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til landbrh. sem fram kemur á þskj. 71 um innheimtu og ráðstöfun kjarnfóðurgjalds.

Spurningin er í þrem liðum:

„1. Hver hefur verið álagsprósenta hverju sinni við innheimtu kjarnfóðurgjalds og hver er heildarinnheimtan, reiknuð til núgildandi verðlags?

2. Hvernig hefur þessum fjármunum verið varið í einstökum atriðum?

3. Er ekki orðið tímabært í ljósi fyrirhugaðrar styrkveitingar upp á rúmar 5 millj. til væntanlegrar dreifingarstöðvar eggja að taka umboðið af þeim sjálfstæða skattheimtu- og úthlutunaraðila sem Framleiðsluráð landbúnaðarins er nú?“

23. júní 1980 setti þáv. landbrh. brbl. um kjarnfóðurskatt, sem heimiluðu allt að 200% skatt á allt kjarnfóður. Framleiðsluráði landbúnaðarins var falin öll nánari framkvæmd skattheimtunnar, svo og allt vald til að ákveða endurgreiðslu á skattinum. Meginforsendur fyrir setningu þessara Brbl. voru m.a. niðurgreiðslur erlendis á fóðurvörum og ástand framleiðslu- og markaðsmála landbúnaðarins. Erlendar niðurgreiðslur á fóðurvörum voru útflutningsuppbætur sem Efnahagsbandalagið greiddi útflytjendum í bandalaginu þegar heimsmarkaðsverð fór niður fyrir ákveðið viðmiðunarverð. Með skattinum átti einnig að taka upp verðmiðlun milli búvara, og það sem skrýtnast er, þannig var honum ætlað að fjármagna útflutningsuppbætur íslenskra landbúnaðarafurða.

Einnig kom fram að kjarnfóðurskattinum var ætlað að setja hömlur á offramleiðslu mjólkur, en ódýru erlendu kjarnfóðri var kennt um hana. Þessi skattur kom að því leyti misjafnlega niður á mönnum að sumir gátu frekar verið án kjarnfóðurs en aðrir. Fugla- og svínabændur eru háðari kjarnfóðurgjöf en framleiðendur í flestum öðrum búgreinum. Talið er að fóðurkostnaður, sem að mestu leyti er kjarnfóður, nemi um 60% rekstrarkostnaðar fugla- og svínaræktarbúa.

Með tilkomu þessa skatts var Framleiðsluráð landbúnaðarins orðið óbeinn aðili að verðlagningu afurða alifugla- og svínaræktarbænda. Þau neikvæðu áhrif sem þessi afskipti hafa haft, þ.e. hækkun vöruverðs á afurðum fugla- og svínabænda, hafa leitt af sér að eggjabændur, þ.e. hluti þeirra, sér nú þá leið besta að sigla undir verndarvæng Framleiðsluráðs og tryggja sér þannig þolanlegt afurðaverð. Framleiðsluráð hefur lýst sig reiðubúið til að taka þátt í þessum leik, enda er því frjáls verðlagning landbúnaðarafurða ákveðinn þyrnir í augum. Þessum hugmyndum hefur verið mótmælt mjög harðlega víðs vegar um land allt, enda á Framleiðsluráð landbúnaðarins algerlega eftir að sanna tilvistarrétt sinn. Aðalhlutverk Framleiðsluráðs landbúnaðarins er að stjórna framleiðslu landbúnaðarafurða, en framkvæmdin hefur aðallega verið fólgin í því að takmarka framleiðslu án þess að verð til neytenda breytist nokkurn skapaðan hlut. Neytendur hafa ekkert að segja heldur koma menn sér upp afar flóknum kerfum sem fullyrt er að séu einhvers konar stýrikerfi á framleiðslu nokkur þúsund bænda. Reynslan af þessu stýritæki hefur sýnt að það er algerlega óhæft og kemur auk þess afar misjafnlega niður á búgreinum. Eðlilegast væri að fella þessa starfsemi niður og láta verð framleiðslunnar stjórna henni. Þá njóta neytendur lægra verðs á tímum offramleiðslu, sem tryggir að þeir framleiðendur sem framleiða með hagkvæmum hætti standa eftir en hinir detta út.

Enginn er að mæla á móti því að menn bindist samtökum og skipuleggi sína starfsemi. Hér er einungis verið að benda á nauðsyn þess að verðmyndun sé frjáls. Skipulag eða stjórnun í hefðbundnum búgreinum hingað til hefur ekki verið björgulegri en það, að þar er um stöðuga offramleiðslu að ræða meira og minna. Ég þarf víst ekki að taka fram að ég er mótfalinn kjarnfóðurskatti. Er það reyndar ekki tilkomið vegna þess að Framleiðsluráð landbúnaðarins hafi áhuga á því að koma eggjaframleiðslu undir sinn verndarvæng heldur aðallega vegna þess að ég tel þessa skattlagningu í andstöðu við stjórnarskrána, þar sem segir að engan skatt megi leggja á né breyta né af taka nema með lögum, og enn fremur að ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum aða fjáraukalögum. Að fela einhverju fyrirtæki úti í bæ skattheimtu og fjárveitingar er að mínu mati óþolandi ráðstöfun sem ber að fella niður hið bráðasta.