19.10.1983
Efri deild: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa um þetta mál mörg orð. Ég hygg að réttara sé að taka það mál í víðara samhengi þegar verðlagsmálin koma hér á dagskrá og hæstv. forsrh. verður hér einnig til andsvara ásamt hæstv. fjmrh. En óneitanlega vakna nokkrar spurningar í tengslum við þetta mál sem gott væri að fá svör við.

Við heyrðum það um daginn í umr. utan dagskrár á Alþingi að hæstv. fjmrh. taldi að hin mildandi hönd ríkisstj. hefði verið með eindæmum þegar þetta hefði verið gert. Hefði það verið ólíkt vinnubrögðum annarra ríkisstjórna, sem hefðu í raun og veru eingöngu refsað fólki og tyftað, en í þessu tilfelli væri hin mildandi hönd allsráðandi. Eitthvað á þessa leið mæltist hæstv. fjmrh. og klökknaði við . Ég spyr þá, vegna þess að ég veit að hæstv. fjmrh. hefur haft sérstakar áhyggjur af og borið umhyggju fyrir ákveðnum þjóðfélagshóp, sem eru lífeyrisþegarnir, öryrkjarnir okkar og aldraða fólkið, hvort honum þyki, með hliðsjón af þeirri grein þessara laga sem þar að lýtur, 2. gr. hin mildandi hönd ríkisstj. hafi fært þessu fólki nægilega mikið á móti því sem af því var tekið. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að hæstv. fjmrh. er mjög ljúft að svara því hvort honum hafi ekki þótt eðlilegt að sá allt of lági grunnur, sem þessar greiðslur eru byggðar á, fengi að vera nokkurn veginn óskertur fyrir refsingunni sem ríkisstj. lagði á launþega þessa lands og hvort honum þyki hin smávægilega mildun í vor fullnægjandi fyrir það fólk sem af engu öðru hefur sitt lifibrauð. Öryrkjunum, sem segja manni óhikað að aldrei hafi verið eins þröngt í búi hjá þeim og nú, aldrei hafi þeir átt eins erfitt með að láta enda ná saman, þeir nái í raun og veru engan veginn saman. Þessu veit ég að hæstv. fjmrh. er mjög annt um að svara, af því að ég veit — og mæli þar ekki af neinni hræsni, að hann hefur haft miklar áhyggjur af kjörum þessara þjóðfélagshópa, m.a. í tíð síðustu ríkisstj. Það heyrði ég þá oft. En ef við berum saman kjör þeirra þá og kjör þeirra nú, þá fullyrði ég að þar er vægast sagt ólíku saman að jafna.

3. gr. var nú kannske helsta skrautfjöðrin, sem maður reiknaði með að yrði hæstv. ríkisstj. til framdráttar, þ.e. um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar. Vissulega ber að meta það að tekin var myndarleg fjárhæð og varið í þessu skyni. En sú fjárhæð kom hins vegar ekki nema að takmörkuðu leyti til góða fyrir heimili þessa lands. Það voru nefnilega aðrar ráðstafanir gerðar jafnhliða í sumar, þar sem hið opinbera gekk á undan með hinu góða fordæmi þess að hækka ekki opinbera þjónustu eða vöru með því að hækka svo stórkostlega raforkuverðið í landinu, hækka til Landsvirkjunar svo ríflega, að allar þessar niðurgreiðslur hurfu og vel það.

Ég hef það fyrir satt og hef það beint frá Rafmagnsveitum ríkisins, að þrátt fyrir niðurgreiðslurnar hafi orkukostnaður hækkað í júní til ágúst 1983 um 17.4%. Það er hér, skjalfest á blaði. Þetta þýðir í raun og veru það, að hækkun á raforkukostnaði meðalstórrar fjölskyldu í 400 rúmmetra íbúð, sem var vel einangruð í þokkabót, hefur orðið í kringum 4200 kr. á ári vegna hækkana gjaldskrár frá stjórnarskiptum og þrátt fyrir þessa niðurgreiðslu. Hér er um stærsta vanda þeirra að ræða sem búa á köldu svæðunum, og menn eru orðnir býsna langeygir eftir því að sjá einhvern áfanga í þessa átt, sem skilar sér inn til heimilanna en ekki bara í Landsvirkjunarhítina.

Þó að margt fleira mætti ræða í þessu sambandi skal ég ekki lengja þessar umr., þetta mál á eftir að verða hér aftur á dagskrá beint og óbeint í tengslum við annað frv., eins og ég sagði áðan, en fróðlegt væri að vita um þær ráðagerðir sem hæstv. ríkisstj. er með varðandi 4. gr. frv., hvaða útgjöld það eru í stærstu dráttum sem lækkuð verða í þeirri heimild sem þar er ákveðið um. Um þetta vildi ég gjarnan fá einhverjar upplýsingar. Ég þykist að vísu vita að það sé engan veginn hægt að gera það tæmandi, en helstu útlínurnar í því væri a.m.k. gott að fá að vita um við þessa umr.