19.10.1983
Efri deild: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Þar sem ég á sæti í þeirri nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar sé ég ekki ástæðu til að tala mjög langt mál í þessari hv. deild við 1. umr. málsins, en örfáum atriðum vildi ég þó vekja athygli á.

Í fyrsta lagi er það, að þær svokölluðu mildandi ráðstafanir, sem hér er gert ráð fyrir, náðu og ná að mati og dómi okkar Alþfl.-manna allt of skammt. Það er eitt af þeim atriðum sem við gerðum að ágreiningi í sambandi við þær stjórnarmyndunarviðræður sem áttu sér stað á s.l. vori. Það vita raunar allir að tekjuskatturinn í núverandi mynd er ekkert annað en launamannaskattur og það er löngu tímabært að samþykkja þær tillögur, sem við höfum flutt hér á Alþingi oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að ég hygg, að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum.

Annað er það um þessar svokölluðu mildandi ráðstafanir, sem kom raunar ágætlega fram í máli síðasta ræðumanns, hv. 2. þm. Austurl., að þær eru allar auðvitað löngu uppétnar í þeim hækkunum sem dunið hafa yfir frá því að þessi stjórn tók við völdum.

Ég skal bara nefna eitt dæmi varðandi orkukostnaðinn, sem hér hefur borið á góma og fjallað er um í þessu frv. Ég kom á heimili vestur á landi fyrir fáeinum dögum, þar sem húsráðendur sýndu mér orkureikninga. Þetta var ákaflega venjulegt einbýlishús, um 130 fermetrar að stærð, hitað með raforku. Orkureikningur þessarar fjölskyldu verður á þessu ári í kringum 47 þús. kr. Það lætur nærri að það séu hátt í þriggja mánaða laun húsbóndans. Hér er svo komið, — og gefst nú betra tækifæri til að ræða það undir öðrum dagskrárlið í Sþ., þar sem fsp. hefur verið borin fram um raforkuverðið, — og það sér auðvitað hver maður, að við svo búið er ekki hægt að una. Menn verða að gera sér það ljóst. að þessi mismunur og þetta háa orkuverð mun hafa í för með sér búseturöskun í landinu sem verður okkur langtum dýrari og margfalt dýrari en skynsamleg jöfnun orkukostnaðar.

Kjör og staða láglaunahópanna, sem þetta frv. átti sérstaklega að milda, hafa verið mikið til umræðu þessa daga á hinu háa Alþingi þótt ekki sé langt liðið þings. Fyrir fáeinum dögum ræddi ég við starfsmann á vinnustað hjá Reykjavíkurborg í lágum launaflokki. Hann vinnur 50 stundir á viku og þau laun sem hann fær til sinnar ráðstöfunar, þegar búið er að draga af honum tekjuskattinn, launamannaskattinn, og fleiri útgjöld, eru á bilinu 12–13 þús. kr. Nú væri fróðlegt ef hæstv. fjmrh. gæti í stórum dráttum lýst fyrir okkur hér, hvernig hann hugsar sér að þriggja manna fjölskylda eigi að skipta 12 þús. kr. þannig að dugi til framfæris í 30 daga. Ég held að það sé ekki hægt. Þess vegna sýnir það með öðru hvernig með ráðstöfunum þessarar hæstv. ríkisstj. hefur verið vegið að fólki sem lægst hefur launin. Og nú er ekki annað að sjá á fjárlagafrv. ríkisstj. en að enn eigi að ganga hart fram og kannske harðar en áður í skattheimtu að því er varðar bæði tekjuskatt og eignarskatt.

Við Alþfl.-menn lögðum fram aðrar tillögur um aðra tilhögun mála varðandi tekjuskattinn og skattafslátt, að þetta gæti orðið útborganlegt í þeim tilvikum þar sem um mjög lágar tekjur er að ræða. Sú till. verður endurflutt við síðari umr. þessa máls og látið á það reyna hvort þessi hæstv. ríkisstj. vill raunverulega gera eitthvað til stuðnings þeim sem lægst hafa launin í þessu þjóðfélagi.

Ég mun ekki, virðulegi forseti, hafa um þetta fleiri orð að sinni, því að eins og ég sagði í upphafi máls míns gefst tækifæri til að fjalla ítarlegar um þetta þegar fjh.og viðskn. þessarar hv. deildar fær þetta mál til meðferðar.