29.11.1983
Sameinað þing: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir að vekja máls á þeim mikla vanda sem útvegurinn stendur frammi fyrir og þeirri umr. sem nú fer fram utan þings, og hæstv. sjútvrh. fyrir ræðu hans. Kannske færðist heldur mikill hiti í leikinn, en ég held að það geri ekkert til. Það er óþarft, en það gerir ekkert til þó að hvessi einstaka sinnum svolítið í þessum sölum. Þetta hefur verið heldur dauflegt þing og við höfum ágætt af því að hrista svolítið af okkur rykið.

Nú ætla ég mér ekki þá dul að ég hafi mjög mikið til umr. um þessi miklu vandamál að leggja, en þó kannske eitthvað. Það eru margar hugmyndir sem fram koma um að skammta veiðar, að leggja flota, gera þetta og gera hitt. Skrapdagana þekkjum við og allt það tal. En ég held að það saki ekkert þó varpað sé fram tveimur hugmyndum sem ég hef verið að gæla við og spjallað um við nokkra sjómenn og menn sem vit hafa á útgerðarmátum. Hvorugt er það kannske sérstaklega frumlegt, en þó hef ég ekki heyrt það beint nefnt hér í þingsölunum og ekki í þessari almennu umr. að kannske væri hyggilegast fyrir okkur Íslendinga að vera ekki að sækja sjóinn mjög fast á erfiðasta tíma ársins, þ.e. í desember- og janúarmánuðum. Við vitum að þá er útgerð dýrust, þá er veiðarfæratjón mest, olíunotkun mest og afli oftast hvað rýrastur, en það sem alvarlegast er þó: þá er hættan mest.

Þegar við þurfum að takmarka bolfiskveiðar með skömmtun á veiðileyfum með einhverjum hætti, með því að minnka flotann, segja sumir, með því að hafa skrapdaga eða einhvers konar bann við veiðum á þessari fisktegund eða hinni, þá held ég að við eigum að gera það á þeim árstíma þegar veiðarnar eru óhagstæðastar og hættulegastar.

Auðvitað væri það bagalegt fyrir fólk að missa vinnu í frystihúsum t.d. frá 10. des. og út janúarmánuð, en enginn vandi er að koma því þannig fyrir að fólk hefð tekjur sínar líka á þessum mánuðum og tæki frí sín að einhverju leyti á þeim tíma. Jafnvel mætti hugsa sér að greiða fyrir fjölskyldufólki og fólki sem minni hefur fjárráð svo að það gæti brugðið sér suður í heitari lönd með góðri skipulagningu, jafnódýrt og það getur verið einmitt á þessum árstíma.

Ég vona að mér fyrirgefist að varpa þessari hugmynd fram, af því ég held að hún sé ekki sú allra vitlausasta af því sem maður hefur heyrt. Og ég held að hv. þm., þegar þeir hugsa þetta mál, og ég tala nú ekki um sjómennina og jafnvel verkafólkið í landi, gætu vel hugsað sér að koma þessu skipulagi á og svo auðvitað að reyna að jafna vinnuna yfir hinn árstímann sem mest í staðinn fyrir að aflahrotur eru stundum með þeim hætti að fólk vinnur sér til óbóta, en síðan eru erfiðleikar á milli.

Af því að auðvald barst hér í tal get ég játað að ég vildi mjög gjarnan að eitthvert auðvald væri til í sjávarútveginum. Því miður á sjávarútvegurinn engan auð lengur. Það var auður í sjávarútvegi. Þó að ég hafi meira barist fyrir því sem ég vil kalla auðstjórn almennings eða almenningshlutafélögum og dreifðum auði og dreifðri þátttöku í atvinnurekstri, þá hef ég alltaf dáðst að athafnamönnum sem einir hafa brotist áfram, eða kannske nokkrir í hóp, til þess að byggja upp íslenskt atvinnulíf. Á því byggist velmegun okkar nú að það var svolítill auður til í íslenskum atvinnuvegum, sem er því miður ekki fyrir hendi nú. En Ísland verður aldrei, vona ég, auðvaldsríki í þeim skilningi að aðeins einn eða örfáir menn eigi alla þjóðareign og stjórni öllum atvinnuvegum. Auður þjóðfélagsins er auðvitað allt of mikið kominn á hendur ríkisins, sem á alla bankastarfsemi, alla sjóði, á öll miðin, alla orkuna o.s.frv. Fólkið þarf að fá einhverja hlutdeild í þessum gífurlega þjóðarauði, eignarhlutdeild og yfirráðarétt. Og þá kemur það nokkuð af sjálfu sér að það kemur eðlileg stjórn á atvinnuvegina, því að t.d. í sjávarútveginum er það svo út um allt land að það er verkafólkið sem á atvinnufyrirtækin, þar eru það almenningshlutafélögin sem starfa og byggja upp atvinnulífið og á því byggist það að verið hefur blómlegt um að litast úti um land og framfarir miklar á undangengnum áratugum.

Þetta var kannske ekki aðalatriðið sem ég vildi vekja máls á hér, heldur hitt, að mér finnst við ekki nýta auðlegð okkar með þeim hætti sem unnt er. Það er auðvitað margrætt að það gerum við ekki. En það eru þrjú atriði sem ég vildi sérstaklega geta um í þessu efni:

Í fyrsta lagi eigum við að mínu mati rétt á a.m.k. öllum þeim lífverum sem eru á hafsbotninum á Reykjaneshrygg út í 350 mílur, en ekki 200. Og eftir anda Hafréttarsáttmálans eigum við vaxandi hlutdeild í aflanum líka á hafsvæðinu yfir botninum og með fullkomlega eðlilegum gagnályktunum frá reglum sem í Hafréttarsáttmála gilda annars vegar um úthafið utan 350 mílna og hins vegar hafsbotnsréttindin er hægt að gera sér vonir um það og nærri því treysta því, að þær þjóðir sem hafsbotninn eignast eignist öll fiskveiðiréttindi líka yfir þessu 350 mílna hafsvæði. Þetta svæði höfum við nánast ekkert nýtt okkur. Hins vegar hafa Rússar þar sópað upp karfa, skilst mér, og stundað jafnvel fleiri og meiri veiðar en þær.

Við eigum skip sem við getum illa notað og ekki með hagkvæmum hætti. Við eigum kannske litla peninga til að gera þau út á tilraunaveiðar. En hvað gera menn þegar þeir sjá fram á að þeir eiga erfitt með að halda þeim lífskjörum sem þeir hafa búið sér, jafnvel að þurfa að horfa upp á samdrátt og atvinnuleysi? Þeir reyna að leggja að sér um sinn og leggja inn á nýjar brautir. Við eigum hiklaust að byrja útgerð á þessum miðum á Reykjaneshryggnum. Það hafa þegar af hálfu utanrrn. verið gerðar ráðstafanir í samráði við utanrmn. til að láta marka af þetta hafsvæði eftir alþjóðalögum og að því er unnið að við helgum okkur það. Það er enginn vafi á að þetta svæði eigum við. En það er ekki nægilegt að við helgum okkur það eingöngu með lagabókstaf. Við þurfum að helga okkur það í raun. Það erum við sem eigum að stunda þarna veiðar og smám saman að hrekja aðra af þessum miðum okkar, af þessari eign okkar.

Það er annað svæði sem ég tel ótvírætt að við eigum mest réttindi yfir, kannske gætum við helgað okkur það allt saman. Það svæði er sokkið land álíka stórt og Ísland sjálft, öll Rockall- hásléttan, þar sem sævardýpi er niður í jafnvel 300 metra og mjög auðvelt á að vera með nútímatækni að stunda botnvörpuveiðar og uppsjávarveiðar. Við eigum allar lífverurnar á botninum, það er enginn vafi á því þegar við höfum helgað okkur þessi réttindi, og við munum smám saman eignast hafsvæðið fyrir ofan.

Nú vita menn ekki í dag hvaða fisktegundir, krabbadýr, skelfiskur o.s.frv., þarna kunna að vera. En á því er enginn vafi að þarna eru lífverur og þær verða nýttar alveg eins og við nýtum nú humar, sem kallaður var „krabbaskrattinn“ hér fyrir bara þrem áratugum og engum datt í hug að leggja sér til munns. Þarna er auðvitað mikil auðlind.

Það þriðja er það, að við eigum að mínu mati samkvæmt samningum við Norðmenn helmingsréttindi, ég endurtek: helmings réttindi, til allra fiskveiða á Jan Mayen-svæðinu. Við höfum nýtt okkur réttindin til loðnuveiðanna og þar eigum við meira en helmingsréttindi vegna þess að við megum ákveða hámarksafla loðnunnar, eins og menn vita, og gerum það. En að því er varðar allar aðrar fisktegundir eigum við helmingsréttindi á móti Norðmönnum. Þær veiðar eigum við að stunda og við eigum að gæta þess mjög vel að Norðmenn geri enga samninga við eina eða neina um neinar fiskveiðar á þessu svæði nema með okkar samþykki og við eigum þar fulla hlutdeild á móti þeim.

Þarna eru nokkur atriði sem ég held að við ættum öll að hugleiða. Við þurfum ekkert að rífast um þetta. Við erum öll sammála um að við eigum að gæta okkar réttinda, en við förum mismunandi hratt. Nú vill svo til að það er hraði sem getur valdið því og mun valda því hverjir þessum réttindum ná. Það er nefnilega að þróast núna þjóðarétturinn á hafinu. Hafrétturinn er að þróast núna og kannske örar en við höfum gert okkur grein fyrir. Við vitum að reglur um fiskveiðar á hafinu og hafsbotninum hafa verið að þróast og kannske miklu, miklu örar en við héldum þegar við vorum í baráttu fyrir 50 mílunum 1973 og 1974 og enginn trúði því að við gætum gengið miklu lengra. En einu eða tveim árum síðar höfðum við 200 mílurnar. Og síðan hefur þetta verið að færast út yfir hafsbotninn allt út í 350 mílurnar.

En sveltur sitjandi kráka, en fljúgandi fær. Það er einu sinni svo, að sá sem byrjar að hagnýta þessi réttindi eignast þau hægt og bítandi ef hann styður athafnir sínar við þann rétt sem er að þróast og þann texta að Hafréttarsáttmálanum sem er svo óglöggur að ekki er hægt að byggja á honum með öðrum hætti en þeim að halda fram sínum ýtrasta rétti, halda honum til haga og nýta hann.

Ég er búinn að tala lengur en ég ætlaði mér. En ég hygg að við eigum öll að hugleiða allt það sem ég hef verið að segja. Sumt er kannske eitthvað hæpnara en annað, en þó hygg ég að þetta séu allt málefni sem ég vona að menn taki alvarlega. Ég teysti því fullkomlega að hæstv. sjútvrh. muni gera það og gera það mjög fljótt, því að við megum engan tíma missa. Og jafnvel þó að það kosti eitthvað í okkar fátækt að senda — ja, fátæk erum við auðvitað ekki, en í okkar peningaleysi núna, skulum við segja, — eitt, tvö skip á Reykjaneshrygg, annað eins á Rockall-hásléttuna og tvö, þrjú skip á Jan Mayen-svæðið til tilraunaveiða, sem bera kannske árangur mjög fljótt, þó það þyrfti að styrkja þetta fjögur, fimm, sex fiskiskip sem við helst getum ekki haft á hinum hefðbundnu miðum, þá væri það svo sannarlega þess virði. Þarna er um að ræða alla framtíð þjóðarinnar. Það er ekki verið að tala um eina kynslóð, það er ekki verið að tala bara um börnin okkar. Það er framtíð íslensku þjóðarinnar sem veltur á því að við höldum rétti okkar til streitu. Um það hljóta allir alþm. Íslendinga að geta sameinast.