05.12.1983
Efri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

11. mál, launamál

Þórður Skúlason:

Virðulegi forseti. Hér er, eins og fram hefur komið, um ákaflega stórt mál að ræða og það er búið að ræða það altítarlega, að vísu misjafnlega málefnalega eins og hér hefur verið getið um. Ég ætla ekki að fara að lengja þessa umr. mikið, en kem hingað upp fyrst og fremst út af allfurðulegri ræðu sem hv. 3. þm. Vesturl. Valdimar Indriðason flutti fyrr í dag.

Ég var ákaflega undrandi þegar ég sat undir ræðu hans, en svo rann allt í einu upp fyrir mér ljós. Það var þannig, að ég var á ferð í bílnum mínum norður í land á föstudaginn var og þá heyrði ég það í útvarpinu, að Rás 2 næði ekki upp á Akranes. Mér flaug það í hug undir þessari ræðu að það væri þannig með fleiri fjölmiðla, að þeir ættu erfiða leið til þeirra Akurnesinga. Mér fannst það koma berlega fram í ræðu hv. 3. þm. Vesturt. að hann væri heldur illa upplýstur. Þess vegna finnst mér ánægjulegt að fá tækifæri til að upplýsa hann lítillega.

Hv. 4. þm. Austurl. gerði það að verulegu máli í sinni varnarræðu fyrr í dag fyrir þessu launamálafrv. að þorskafli yrði verulega miklu minni á þessu ári en ráð hefur verið fyrir gert. Nú erum við að ræða hérna frv. til staðfestingar á brbl. sem sett voru í vor. Er þessi aths. hans heldur vafasöm, vegna þess að ég held að það hafi ekki verið séð fyrir í vor hver þorskaflinn yrði í ár. Hins vegar eru staðreyndir núna, að þorskaflinn er verulega minni en ráð var fyrir gert í upphafi árs. Í þessu sambandi benti ég á að annar afli hefði aukist verulega og það var það sem hv. 3. þm. Vesturl. kom sérlega á óvart. Ég vil aðeins fá að rifja þetta upp.

Ég nefndi t.d. með síldarafla, að hann hefði aukist nokkuð. Að vísu hefur síldaraflinn ekki aukist mikið, en hann hefur þó aukist lítillega. Síðan nefndi ég hörpudisksaflann. Hann hefur líka aukist nokkuð, en kannske ekki svo mjög mikið. Hins vegar hefur orðið gífurleg verðhækkun á hörpudiski og nú síðast í haust um 30% verðhækkun. Hins vegar hefur rækjuafli, sem ég nefndi líka, stóraukist á þessu ári og ekki bara að magni til, heldur hefur hann líka stóraukist að verðmæti. Það hefur stórhækkað það verð sem við fáum fyrir rækjuna. Mér er sagt að þetta aukna verðmæti rækjuaflans slagi hátt upp í að vega á móti helmingi samdráttarins í þorskaflanum.

Síðan benti ég líka á loðnuveiðar, en þær hafa algerlega komið til viðbótar öðrum afla í ár, hafa ekki verið stundaðar hérna undanfarin ár. Það er vissulega nýjung. Til viðbótar má nefna þarna nokkuð sem ég nefndi ekki í ræðu minni fyrr í dag. Þar má t.d. fyrst nefna stórhækkun á verði lýsis og mjöls núna í haust. Þá má geta þess að skreiðarsalan hefur farið í gang aftur eftir verulegt hlé. Í hádeginu í dag var einnig greint frá því í fréttum að búið væri að gera stóran samning við Rússa um sölu á þeim afurðum sem fyrst og fremst hefur gengið erfiðlega að selja. Það var greint frá þessu í hádeginu í dag.

Þessi aukning afla og aflaverðmætis dregur verulega upp í minnkun þorskaflans. Hún kemur ekki alveg á móti, enda hef ég aldrei sagt það, en hjálpar mikið til að auka þjóðartekjurnar. Mér þykir vænt um að hafa fengið tækifæri til að upplýsa hv. 3. þm. Vesturl. um þetta (VI: Ég þakka.)