06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

108. mál, kreditkort

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Sem svar við fsp. hv. 3. þm. Reykn. þá skal tekið fram að fyrir skömmu gaf gjaldeyriseftirlitið í samráði við samstarfsnefnd um gjaldeyrismál út nýjar reglur um notkun greiðslukorta erlendis og öðluðust þessar reglur gildi 1. þ.m. Eins og fram kom hjá hv. þm. eru reglur um greiðslukort byggðar á 18. gr. reglugerðar nr. 519 1979 um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, en að öðru leyti er ekki að finna í lögum eða reglugerðum ákvæði um útgáfu eða notkun greiðslukorta.

Þegar rætt er um lagasetningu varðandi greiðslukort er að mínu viti mikilvægast að settar verði reglur er tryggi að starfsemi þeirra aðila sem reka greiðslukortaþjónustu, sé byggð á öruggum fjárhagslegum grunni. Í því sambandi yrði fyrsta skrefið að setja ákvæði í lög er kveða á um tiltekna upplýsingaskyldu þessara aðila gagnvart bankaeftirliti Seðlabankans eða bankaeftirlitinu svipaða þeirri er hvílir á innlánsstofnunum. Ég geri ráð fyrir að þegar bankamálanefnd sú, sem starfað hefur, skilar áliti sínu og þau lagafrumvörp, sem frá henni koma, verða til meðferðar í viðskrn. þá verði tekin afstaða til þess með hvaða hætti skuli unnið að lagasetningu varðandi kreditkortin.

Það kom fram hér áðan hjá hv. þm. að ekkert væri í lögum sem bannaði að fyrirtæki gætu haft þessa starfsemi með höndum. Það er að vísu svo varðandi innlenda fyrirgreiðslu, en með gjaldeyri mega ekki aðrir versla en tekið er fram í l. um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, svo og lögunum um Seðlabankann. Þau fyrirtæki, sem í dag versla með þessi viðskiptakort, eru eign bankanna sem hafa heimild til gjaldeyrisviðskipta samkvæmt þessum lögum.

Ég get ekki svarað fsp. þm. með öðrum hætti en þeim að vísa til þeirra breyttu reglna, sem settar hafa verið, og gert grein fyrir því að þegar þessi mál, þ.e. ný frumvörp um seðlabanka, viðskiptabanka og sparisjóði verða til meðferðar í viðskrn. áður en til framlagningar kemur hér á Alþingi, þá verði þetta atriði að sjálfsögðu skoðað. Mér er ljóst, að áður hefur verið gerð nokkur athugun á þessu máli í viðskrn. og kemur hún að sjálfsögðu að góðu gagni við síðari athuganir þessa máls.