06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

420. mál, efling kalrannsókna

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. e. hefur gert grein hér fyrir fsp. sinni á þskj. 135 um eflingu kalrannsókna. Rannsóknastofnun landbúnaðarins annast rannsóknastarfsemi landbúnaðarins og þess vegna var fsp. þessi send þangað til upplýsinga.ætla ég að leyfa mér að lesa svarið upp hér, þó að hv. 8. þm. Reykv. væri að gagnrýna áðan að lesnar væru upp skýrslur frá stofnunum. Sá háttur hefur verið á hafður á Alþingi til þess að fyrirspyrjendur fengju sem gleggstar upplýsingar um það sem um er spurt.

Svar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins er svona: Landgræðslu- og landverndaráætlun gerir ráð fyrir því, að 10% af þeirri fjárveitingu sem fer til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins verði varið til kalrannsókna. Samkv. fjárlögum ársins 1983 eru til ráðstöfunar á þessum lið 146 500 kr. Dr. Bjarni E. Guðleifsson hefur verið ráðinn í 1/4 hluta stöðu við stofnunina til þess að annast þessar rannsóknir. Gert er ráð fyrir að þær verði að mestu framkvæmdar á tilraunastöðinni á Möðruvöllum.

Unnið er nú að því að koma upp bráðabirgðaaðstöðu á Möðruvöllum til að prófa svellþol og frostþol grasa. Keypt hafa verið frystitæki og standa vonir til að þessar rannsóknir geti hafist snemma á næsta ári. Til þess að búnaðurinn komi að sem bestum notum vantar enn talsvert af hjálpartækjum, svo sem hitastilla, ljós og lítið gróðurhús. Sömuleiðis þarf að auka hlut sérfræðings við stofnunina úr 1/4 úr stöðu í heila stöðu, enda hefur verið farið fram á slíka heimild s.l. tvö ár.

Fimm verkefni sem snerta kalrannsóknir eru nú á skrá hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins: Í fyrsta lagi þörungar og sveppir á grösum að vetri. Í öðru lagi rannsóknir á lághitabakteríum á grösum. Í þriðja lagi athugun á svellamyndun og kjörum grasa að vetri. Í fjórða lagi áhrif nytja á varnarþol grasa. Og í fimmta lagi frostþol og svellþol stofna og tegunda grasa.

Þremur fyrstu verkefnunum er að mestu lokið. Síðustu gögnum verður safnað í vetur og er að mestu búið að skrifa greinar um þau. Tvö síðast töldu verkefnin eru enn ekki komin í gang, en stefnt er að því að svo geti orðið á árinu 1984.

Auk þeirrar rannsóknastarfsemi sem hér hefur verið rakin og er í umsjá dr. Bjarna Guðleifssonar tengjast ýmis önnur verkefni stofnunarinnar kalrannsóknum beint eða óbeint. Má þar nefna umfangsmiklar rannsóknir á tegundum og stofnum grasa. Þær rannsóknir hafa m.a. leitt í ljós mikið vetrarþol Beringspunts og nokkurra stofna af öðrum tegundum.

Unnið er að kynbótum grasa og beinist sú starfsemi ekki hvað síst að því að fá fram vetrarþolnari stofna. Víðtæk samvinna á sér nú stað við jarðræktarmenn á hinum Norðurlöndunum á þessu sviði.

Eins og fram hefur komið hér að framan hefur verið veitt 146 500 kr. beint til kalrannsókna á þessu ári. Eigi skjótur árangur að nást þyrfti að stórauka framlög á þessu sviði. Þar sem mikil verðmæti eru í húfi má segja að ekki væri ofrausn að hafa einn sérfræðing að störfum allt árið við kalrannsóknir.

Ég vil taka undir það hjá hv. fyrirspyrjanda, að hér eru mikil verðmæti í húfi. Áburður er dýr og þess vegna skiptir miklu máli að það land sem borið er á hafi að öðru leyti skilyrði til að skila uppskeru. Ég vil því taka undir það sem hann sagði um þörf þess að auka fjármagn til rannsókna þessara. Vænti ég þess að á Alþingi verði reynt að koma þar eitthvað til móts við þegar kemur að afgreiðslu fjárlaga.