06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

113. mál, Námsgagnastofnun

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans svo langt sem þau náðu. Það má úr þeim lesa að stofnunin getur ekki, miðað við fjárveitingar sem henni eru ætlaðar samkv. fjárlagafrv., rækt lögboðið hlutverk sitt. Því hlýtur það að vera krafa ekki aðeins þeirra, sem hlut eiga að máli hið næsta, heldur okkar alþm. almennt, að þarna verði gerð leiðrétting í sambandi við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1984. Hæstv. ráðh. boðaði það að innan fárra daga væri að vænta niðurstaðna af starfi nefndar, sem hefði fjallað um málefni Námsgagnastofnunar, og einnig væri að ljúka hagkvæmniathugun. Ekki var ljóst hvort að henni væri unnið á vegum nefndarinnar, vera má að svo sé, og væntanleg sé niðurstaða úr slíkri athugun innan fárra daga.

Nú er mér ekki ljóst hvort hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir að álit þessarar nefndar og hagkvæmniathugunin eigi að skipta máli í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna. En meginatriðið er að leiðrétting fáist á fjárveitingum til stofnunarinnar nú við afgreiðslu fjárlaga til þess að ekki vaxi til næsta árs sá vandi sem þegar liggur fyrir varðandi starfsemi stofnunarinnar og er algerlega óviðunandi.

Þær tölur sem ég nefndi hér um kostnað námsgagna, sem Námsgagnastofnun hefur gert áætlanir um, fyrir hvert barn á grunnskólastigi eru ekki hærri en 1 600– 1 700 kr. þ5 að orðið yrði að fullu við fjárveitingabeiðni stofnunarinnar. Það er ekki há upphæð sem þarna er um að ræða og full ástæða til að taka undir með forstjóra stofnunarinnar í því efni. Ég tel því að hv. alþm. þurfi að sameinast um það að hér fáist leiðrétting á. En það tekst auðvitað ekki nema hæstv. menntmrh. taki þar vel á af hálfu ríkisstj. til að tryggja að tillögur komi um það og stuðningur af hálfu ríkisstj. við afgreiðstu fjárlaga til að hér fáist fram leiðrétting.

Ég fagna þeim undirtektum sem hér hafa komið fram frá þeim hv. þm. sem hér hafa talað varðandi þá nauðsyn að ná fram leiðréttingu, og skilningi á mikilvægu starfi Námsgagnastofnunar og viðurkenningu á að þar sé vel unnið. Ég tel að það eigi að halda áfram á þeirri braut sem þar hefur verið mörkuð. Ég vara við öllum hugmyndum um að flytja námsgagnagerð vegna grunnskólanna yfir í eitthvert annað form, ég tala nú ekki um hugmyndir sem heyrst hafa varðandi útboð eða eitthvað því um líkt, sem ríða nú mjög húsum hjá hæstv. ríkisstj.

Mér fannst koma fram í máli hæstv. ráðh. að skilningur ríkti á starfsemi stofnunarinnar og áhugi hjá hæstv. ráðh. að hlúa að henni. Tel ég að þær undirtektir sem hér hafa komið frá hv. þm. ættu að auðvelda henni róðurinn að því marki. Um það þurfum við að sameinast.