07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1493 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um þingsköp vegna þess að við þm. höfum fengið þau boð frá hæstv. forseta að hér eigi að halda kvöldfund um þetta mál og önnur.

Það var venja hér á árum áður í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu að fyrir fram væri samið um það milli stjórnar og stjórnarandstöðu ef kvöldfund átti að halda. Reynt var að hafa þá vinnureglu að jafnaði að ekki væri nema einn fundur að kvöldi til í hverri viku, og þm. vissu það með allmiklum fyrirvara, a.m.k. tveggja til þriggja daga fyrirvara, svo að þeir gætu haldið þeim kvöldum lausum frá alls konar öðrum skuldbindingum, vinnuskuldbindingum sem hvíla á þm. um fundarsetur og störf á kvöldin utan þingsala.

Hér var haldinn kvöldfundur í gærkvöld, herra forseti, lengi kvölds. Út af fyrir sig er ekkert við því að segja. En nú fáum við þau skilaboð meðan þessi fundur stendur að það eigi aftur að halda fund hér í kvöld. Það er mjög óvenjulegt að gera það með þessum hætti og án þess að rætt hafi verið við þm. og reynt að leita samkomulags milli stjórnar og stjórnarandstöðu um þingstörf. Ég er ekki að gagnrýna núverandi hæstv. forseta neitt í þessum efnum. Ég er einfaldlega að vekja athygli á þessu efnisatriði og spyrja hæstv. forseta hvort ekki sé unnt að taka þessa umr. síðar, áframhald hennar, svo að meiri fyrirvari gefist til að láta þm. vita að þeir eigi von hér á kvöldfundi.

Ég vil enn fremur vekja athygli á því að þm. hæstv. ríkisstj., sem eru allmikill meiri hluti þm. þessarar hæstv. deildar, hafa yfirleitt ekki verið hér í dag. Síðasta klukkutímann eða svo, meginfundartíma þessarar hv. deildar, hefur að jafnaði einn eða tveir af þm. stjórnarliðsins verið hér í salnum. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að vera að halda hér áfram umr. og þingstörfum um eitt veigamesta málið sem við fjöllum um, skatta almennings í landinu, án þess að meginþorri deildarmanna sé viðstaddur og án þess að stjórnarandstaðan hafi tækifæri til þess að ræða við stjórnarliðið um það mál. Stjórnarandstaðan lætur ekki bjóða sér að aðeins einn eða tveir af þm. stjórnarliðsins telji nauðsynlegt að sinna þingstörfum meðan fundir eru haldnir. Lengi dags hefur verið einn, stundum tveir ráðherrar í sæti sínu. Ráðherraröðin hérna megin hefur verið auð í allan dag. Yfirleitt hefur fjmrh. setið hér einn þar til núna að tveir félagar hans hafa, rétt áður en þingflokksfundir eiga að hefjast, látið svo lítið að koma hér í þingsalinn til að tylla sér aðeins í ráðherrastólinn.

Það kann ekki góðri lukku að stýra í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu hér í þinginu ef þetta á að vera hátturinn, að stjórnarliðar telji sig ekki þurfa að sækja hér þingfundi utan að hafa hér einn mann úr Framsfl. og einn eða kannske tvo úr Sjálfstfl. Ég skal að vísu játa að það hafa verið mjög háttsettir menn í Sjálfstfl., formaður flokksins og varaformaður, sem yfirleitt hafa setið hér. Minni spámönnunum hefur greinilega verið gefið frí. Og það hefur verið formaður þingflokks Framsfl. sem hér hefur löngum setið, en öðrum þm. Framsfl. verið gefið frí.

Ég spyr hæstv. forseta: Er það virkilega ætlunin að halda áfram fundum hér í kvöld með þessu háttalagi, að það séu aðeins einn og tveir úr þingflokkum stjórnarliðsins mættir og fjmrh. einn yfirleitt og enginn annar úr þeirri miklu sveit sem skipar ráðherrabekkina? Stjórnarandstaðan lætur ekki bjóða sér þessi vinnubrögð hér í þinginu, að það sé haldið uppi kvöldfundum kvöld eftir kvöld án þess að þm. stjórnarliðsins sæki þá fundi, án þess að ráðherrarnir sæki þá fundi og án þess að um það sé samið við stjórnarandstöðuna fyrir fram hvernig þingstörfunum eigi að vera háttað, og það sé fylgt eðlilegum skipulagsreglum í þeim efnum svo að þm. allir, stjórnarandstaðan og aðrir, geti skipulagt störf sín með eðlilegum hætti. Ef þetta eiga að vera vinnubrögðin hér fram til jóla í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu þá kann það ekki góðri lukku að stýra.

Ég er ekki að gagnrýna hæstv. forseta þessarar deildar. Ég veit að honum gengur gott eitt til að reyna að koma áfram þeim langa lista sem á hans skrá er. Engu að síður er óhjákvæmilegt, vegna þeirra boða sem við höfum fengið hér á síðasta klukkutímanum að hér eigi að halda kvöldfund, að fá svör við því í fyrsta lagi frá hæstv. forseta hvort áfram eigi að fylgja þeirri reglu, sem yfirleitt hefur verið fylgt hér á undanförnum árum, að það sé að jafnaði ekki nema einn kvöldfundur í hverri viku nema um það sé samið fyrir fram, svo að þm. geti skipulagt tíma sinn með þeim hætti.

Í öðru lagi að forustumenn Sjálfstfl., þingflokks hans, og Framsfl. svari því: Hvað eru þm. þessara flokka að gera? Hvernig stendur á því að hér hefur aðeins verið einn eða tveir þm. frá hvorum stjórnarflokki meginhluta þessa fundartíma? Engu að síður er tekin ákvörðun um það að halda hér kvöldfund.

Og í þriðja lagi: Er hæstv. forseti reiðubúinn til þess að gera ráðstafanir til að stjórnarliðið og ráðherrasveitin sæki þá fundi hér í þessari hv. deild ef ætlunin er að halda áfram vinnubrögðum með þessum hætti? Því það eru til ótal aðferðir fyrir stjórnarandstöðuna að láta hart mæta hörðu hér í þinginu ef þetta eiga að vera vinnubrögðin, ef þetta á að vera sú virðing sem stjórnarþm. og ráðherrasveitin sýna þinginu, ef þetta á að vera samskiptahátturinn milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Stjórnarandstaðan á þessu þingi hefur ekki talið efni til að fara að beita slíkum vinnubrögðum. En framkoma og fjarvistir ráðherrasveitarinnar og þingliðs ríkisstj. hér í dag er með þeim hætti að það er alveg óhjákvæmilegt að forseti þessarar hv. deildar og sérstaklega forustumenn og forsvarsmenn þessara flokka svari því alveg skýrt og skorinort hver tilgangurinn er með því að krefjast hér kvöldfundar á sama tíma og yfir 90% af þingmannasveit ríkisstjórnaráðsins eru búin að vera fjarverandi meginhluta fundartímans og meginþorri ráðherrasveitarinnar er einnig búinn að vera fjarverandi meginhluta fundartímans.