07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1530 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Guðrún Agnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Langt er liðið á kvöld og orð mín ná eyrum fárra, en þó vil ég enn ítreka afstöðu Kvennalistans til þessa sérstaka þáttar efnahagsaðgerða ríkisstj.

Yfirlýstur tilgangur ríkisstj. var m.a. að vernda kaupmátt lægstu launa og lífskjara þeirra sem þyngst framfæri hafa, vernda hag þeirra sem við lökust kjör búa. Þó var þegar sýnilegt áður en til efnahagsaðgerðanna var gripið að þessi ásetningur fengi ekki staðist, enda hefur tíminn síðan leitt í ljós að einmitt þeir sem þyngst framfæri hafa eru nú verst settir og allar skerðingar hafa bitnað mest á þeim.

Í þessu frv. um fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum eru forsendurnar of ómarkvissar og ekki í samræmi við tekjur. Þannig er dregið úr áhrifum þessara mildandi aðgerða með því að dreifa þeim of víða og þær rata því ekki helst þangað sem þeirra er mest þörf og duga skammt þar sem þær lenda.

Örfá dæmi: Tekjutrygging lífeyrisþega sem hækkar um 5% umfram laun og mæðra- og feðralaun sem hækka um 100% með einu barni, þ.e. 250–500 kr., eru aðgerðir sem beinlínis eru ætlaðar þeim sem verst eru settir. En er þetta upp í nös á ketti? Nei, báðar þessar aðgerðir eru allt of rýrar til að veita marktækan stuðning og eru miklu fremur í ætt við sýndarlátbragð.

Það er heldur ekki nóg að taka tillit til þeirra sem eiga börn undir 7 ára aldri, framfæri barna þyngist jafnan þegar þau eldast eins og glögglega má sjá af nýlegri könnun einstæðra foreldra. Nei, því miður, þessar mildandi aðgerðir eru of rýrar og of ómarkvissar til að duga. Þarna hefði átt að skammta mun rausnarlegar og ákveðnara þannig að byrðunum yrði mun jafnar skipt og hver bæri sem hann þolir.

Enn fremur hvað varðar persónuafslátt, þá hefði hann getað nýst betur ef ákvæðin hefðu ekki verið þannig að það sem ekki nýtist til greiðstu annarra gjalda rennur til ríkissjóðs. Frá þessu hefði mátt ganga betur.

Ég ætla aðeins að hafa þetta fá orð og hef lokið máli mínu.