07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi heyrt alla ræðu hv. 5. þm. Austurl. en hann gerði að umræðuefni hækkun gjaldskrár Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja, ef ég tók rétt eftir, skömmu eftir að núv. ríkisstj. kom til valda, það er alveg rétt. Ég held að við getum verið sammála um að ekkert fyrirtæki, hvort sem það er Orkustofnun eða annað opinbert fyrirtæki, svo að ég tali nú ekki um einkafyrirtæki, getur lifað það af til lengdar að vera rekið alfarið á erlendu lánsfé, það er gersamlega útilokað. Og þannig er enn þá komið fyrir flestum af þeim orkuframleiðandi fyrirtækjum eða stofnunum sem við eigum að erlend skuldabyrði hefur hrjáð rekstur þeirra því rekstrarlán hafa verið tekin. Í þann farveg beindi síðasta ríkisstj. fyrirtækjunum frekar en leyfa eðlilegar hækkanir frá einum tíma til annars sem hefðu ekki verið íþyngjandi ef slíkar ákvarðanir hefðu verið teknar á réttum tíma. En við þær aðstæður sem eru enn þá við lýði er því miður þörf fyrir hækkun á gjaldskrám. Ég vona að þegar gjaldskrárhækkun verður leyfð og verður frjáls í byrjun næsta árs komi ekki til verulegra hækkana.

En ég skil ekki alveg þá ádeilu sem kemur frá hæstv. fyrrv. iðnrh. á framlag núv. ríkisstj. til húshitunar. Í tíð þessarar ríkisstj., eins og segir í 3. gr., er veitt stóraukin heimild til jöfnunar og lækkunar á hitunarkostnaði íbúðarhúsnæðis og í því skyni er leyfilegt að verja allt að 150 millj. kr. en á fjárl. fyrir 1983, fjárlögum fyrrv. ríkisstj., var um 34 millj. kr. framlag til þessa liðs. Hér er því um verulega hækkun að ræða og í fjárlagafrv. fyrir 1984 er gert ráð fyrir enn frekari hækkun fjárveitinga til að jafna hitunarkostnaðinn eða samtals 230 millj. kr. þannig að ég skil ekki þá ádeilu sem kemur frá hæstv. fyrrv. iðnrh. í þessu efni. En ég verð því miður að segja að reglur hefur núv. fjmrh. enn ekki sett í þessu máli til framkvæmdar þessu ákvæði. Ég vona að ég hafi svarað þeim spurningum sem virðulegur þm. beindi til mín, kannske ekki á þann hátt sem hann hafði vonað eða kannske þó á þann hátt sem maður hefði vonað. Þessi svör gefa honum tilefni til að halda eina af sínum löngu og góðu ræðum. En þessi svör eru gefin af hreinskilni svo að það verður að hafa það þó að við verðum að sitja hér fram eftir nóttu ef hann ákveður að gera þetta að stökkpalli inn í nóttina.

Hvað varðar það sem 3. landsk. þm. gat um og talaði um ráðstafanir sem hér getur vil ég leyfa mér að benda á að þetta frv. kemur mjög mikið til móts við einmitt þá lægst launuðu og því verður ekki á móti mælt að persónuafslátturinn hefur hækkað verulega sem hlýtur að koma til góða þeim lægst launuðu frekar en öðrum.

Barnabætur hafa hækkað verulega, en samtals er þetta 225 millj. kr. hækkun og það er þó nokkur upphæð sem þessu láglaunafólki hlýtur að muna mikið um. Við stjórnarmyndunarviðræðurnar var mikið rætt um það hvort bæri að hafa barnabætur á eldri aldursflokkum eða þeim yngri. Það er ekki hægt að hafa þær á öllum börnum og eftir að um þetta hafði verið spurt hjá þeim sem best þekktu til varð niðurstaðan sú að það væri meiri aðstoð að börn innan 7 ára eða yngri börn eða foreldri, hvort sem það eru einstæð foreldri eða hjón, fengju þessar barnabætur á unga aldri þegar hjónin sjálf yrðu að búa sig undir lífið og þyrftu að standa í fjárfestingu fyrir sig sjálf ásamt þeim kostnaði sem barnið sjálft hefur í för með sér þegar það fyrst kemur í heiminn. Þannig að þetta er bara mat á því hvort þörfin væri meiri fyrir yngstu kynslóðina eða í kringum 12 ára aldur. Þetta varð niðurstaðan.