12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (1393)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram í máli hæstv. fjmrh. að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og lánsfjárlög eru snemma á ferðinni og það ber vissulega að fagna því að menn geta tekið sér nægan tíma eftir því til þess að fjalla um þau mál. Ég bendi á það að hér er um eitt þýðingarmesta mál þessa þings að ræða, ákvarðanir, sem eru engu síðri en fjárlögin sjálf, ákvarðanir um ýmsar helstu framkvæmdir okkar og hvernig að þeim verður staðið og þá kannske ekki síður um það sem ekki verður aðhafst á næsta ári.

Það er að vísu rétt að varðandi útdeilingu þessa fjármagns, sem hér er verið að leita heimilda fyrir, kemur það bæði fram í fjárlögum og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun hvernig sú skipting verður. Hér eru heimildirnar sem að baki liggja og hér eru þær lánsfjárupphæðir sem byggt er á. Ég segi það t.d. að ég sá þetta frv. ekki fyrr en nú í hádeginu. Því mun hafa verið dreift hér á fundi Nd. á föstudag, er mér sagt, en fundir hjá Ed.-mönnum voru þá ekki eins og menn vita. Og ég vil því ekki á þessu stigi tjá mig umfram það sem ég hef lesið mér til rétt núna þessi augnablik sem liðin eru frá því að ég sá frv. Ég sé það að þetta er tekið hér inn með afbrigðum og það virðist liggja býsna mikið á en engu að síður er nú næstum að segja lágmarkið að menn geti lesið þetta svona þokkalega yfir áður en það er tekið á dagskrá hér. Ég er ekki að álasa hæstv. forseta í þessu efni en sannleikurinn er sá með mig að ég er nýbúinn að sjá þetta frv. og ég hygg að svo sé um fleiri hér inni, nema auðvitað stjórnarliða sem hafa haft þetta í þingflokksherbergjum sínum undanfarna daga og á náttborðinu heima hjá sér og hafa getað sinnt þessu mætavel og þekkja þetta allt saman út og inn. Þeir munu trúlega heldur ekki taka mikinn þátt í umfjöllun þessa máls umfram það sem þeirra leiðtogi, hæstv. fjmrh., mælir hér fyrir þessu máli og gefur þær skýringar sem hann verður e.t.v. beðinn um við 1. umr. málsins.

Fljótt á litið sé ég þó — svo að ég minnist á mál sem er býsna hugleikið mér í þessu efni — hvernig fara muni þar sem fyrirhugað er að kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði sé vitanlega ekki hér inni enda eru menn úti um þorp og grundir að reyna að finna erlenda aðila til að sjá um allt heila „klabbið“ svo að notuð séu fleyg orð eins þeirra sem áður trúðu á það að núv. hæstv. iðnrh. kæmi með framkvæmdina nú þegar á þessu hausti á silfurfati síns rómaða örlætis enda voru hans eigin orð fyrir því að það mundi ekki á því standa. En alla þá umr. ætla ég að geyma mér til seinni tíma.

Ég sé það líka að Landsvirkjun muni verða með allt á fullu eða svo til hér á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu skv. þessu enda ekki ráð nema í tíma sé tekið ef álverið og stækkunin á því eiga að hafa hér algeran forgang eins og manni skilst að ætlunin sé. Mér virðist hins vegar fátæklegt um raunveruleg fjármagnsútgjöld til Fljótsdalsvirkjunar enda er hún víðs fjarri straumsvík eins og allir vita.

Heildarmat þessarar stöðu, þ. á m. upphæðir og annað því um líkt, bíður síðari umr. enda verður þá komin til skjalanna vænti ég hv. fyrrv. fjmrh. Ragnar Arnalds sem fær málið einnig til athugunar í nefnd svo að almenn umfjöllun verður hér ekki af minni hálfu.

Varðandi skerðingarákvæðin í 9.–26. gr. frv. þá koma þau að vísu öll til umr. með fjárlögunum og því ekki ástæða til þess að orðtengja mikið um þau hér. En ég staðnæmist við fáa punkta. 16. og 18. gr. hafa oft verið hér til umr. í þessari hv. d. Í þeim segir, með leyfi hæstv. forseta:

Í 16. gr.: „Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laga nr. 30/1921 um erfðafjárskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 50/1972, skulu tekjur Erfðafjársjóðs af erfðafjárskatti eigi fara fram úr 19 400 þús. kr. á árinu 1984. Það sem umfram kann að innheimtast af erfðafjárskatti á árinu 1984 rennur í ríkissjóð.“

Og í 18. gr.: „Þrátt fyrir ákvæði 1. tl. 35. gr. laga nr. 41/1983 um málefni fatlaðra skal framlag ríkissjóðs til Framkvæmdasjóðs fatlaðra eigi fara fram úr 40 000 þús. kr. á árinu 1984.“

Á undanförnum þingum hefur skerðingarákvæðum sama eðlis en miklu smærri í sniðum verið harðlega mótmælt og hafa sjálfstæðismenn farið þar í fylkingarbrjósti af eldlegum áhuga og ótrúlegum á þessum málefnum. Ég hef vel skilið þennan málflutning og í hjarta mínu tekið undir hann, reynt að fá þar fram breytingar meðan ég hafði þar til aðstöðu sem stjórnarþm. en ávannst þó ekki betur en svo að um nokkra skerðingu var að ræða öll árin. En nú er gengið hér svo langt varðandi fjármagn Erfðafjársjóðs sem rennur samkvæmt nýjum lögum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra á næsta ári að það er skert um rúman helming. Áætlaðar tekjur af erfðafjárskatti eru samkv. fjárlagafrv. 40 millj. kr. en fjárlagatalan sem á að renna til þessara mála eru 19.4 millj. Svona stórfellda skerðingu höfum við aldrei séð framan í, svona rösklega hefur aldrei áður verið gengið hér til verks.

Og ég minni á það sem hæstv. fjmrh. er eflaust kunnugt vegna þess að ég hygg að hann hafi verið í þeirri nefnd sem um það mál fjallaði að við afgreiðslu lánsfjárlaga á sínum tíma, þegar þessi skerðingarákvæði voru hvað mest til umr., var frá því gengið líklega á fundi fjh.- og viðskn. Nd. að tilhlutan formanns hennar þá, hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, núv. hæstv. sjútvrh., að ef innheimta ríkissjóðs færi fram úr áætlun á hverju ári skyldi sama prósenta af þeim umframtekjum, sem kæmi inn á árinu, renna endurhæfingarráði til ráðstöfunar, sama prósenta og lánsfjárlög reiknuðu með frá fyrra ári. Og þannig hafa fengist á s.l. árum umtalsverðar upphæðir, nokkrar millj. til viðbótar úr ríkissjóði, til þessara brýnu framkvæmda í þágu fattaðra og ég efast ekki um það að hið sama verður uppi á teningnum nú hjá hæstv. fjmrh. og hæstv. fyrrv. fjmrh. að hann muni taka vel erindi manna hvað það snertir hafi innheimtan t.d. á þessu ári farið langt fram úr því sem reiknað var með í fjárlögum síðasta árs.

Ég segi það alveg eins og er í hreinskilni við hæstv. ráðh. þó að ég eigi kannske ekki að vera að benda á það að ég dreg nokkuð þessa innheimtutölu í efa, þessar 40 millj. á næsta ári. Ef ég fer rétt með — ég segi það eftir minni — minnir mig að það sé nálægt 100% hækkun frá áætlun síðasta árs, nálægt 100% hækkun. Mig minnir að áætlaðar tekjur væru eitthvað 21.28 millj. ef ég man rétt, ársins í ár, þannig að mér þykir...(Gripið fram í: Ársins í ár?) Já, samkv. síðustu fjárlögum og mér þykir það reyndar heldur ótrúleg tala að það muni innheimtast 40 millj. á næsta ári. En það gildir einu. Áætlunin er upp á 40 millj. í tekjur til ríkissjóðs en nú er prósentan, sem á að ganga til Framkvæmdasjóðs fatlaðra, innan við 50% af þessari upphæð, hitt fer í ríkishítina svo að notuð séu orð hv. þm. Sjálfstfl. á liðnum þingum.

Ég tek ekki undir þau orð en ég minni bara á þau vegna þess að við erum búin að heyra þau svo oft hér inni.

Um Framkvæmdasjóð fatlaðra, beint framlag, er það að segja að í fyrra var mjög rætt um það að þar væru skerðingarákvæði í lánsfjárlögum sem þýddu þá líklega eitthvað milli 3–4 millj. í Framkvæmdasjóð öryrkja og þroskaheftra eins og hann hét þá. Vissulega var það slæmt og ég tók undir það og gerði ítrekaðar tilraunir til þess að fá það leiðrétt og það var að vísu nokkuð leiðrétt, en alls ekki nóg, í meðförum þingsins. Það var ámælisvert og ég hlaut að taka þar á mig nokkra sök með öðrum og lýsti því yfir að það hefði átt að fylgja þessu alveg til þess ýtrasta og ekki vera að skera þær 3– 4 millj. af sem þar var gert af því að verkefnin eru ótæmandi.

En nú er ekki um slíkar upphæðir að tefla eins og hæstv. fjmrh. veit. Á grunnupphæð laganna, sem ganga í gildi nú 1. jan. 1984, skortir 15 millj. því að grunnupphæð þeirra laga er upp á 55 millj. Hér er aðeins um 40 millj. að ræða samkv. fjárlögum og ég segi það líka að þarna er um enn meiri upphæð að ræða og enn meiri mismun, ef verðbætur reiknast milli ára, sem ég er alveg viss um að á að gera — ég tel engan vafa á að það eigi að gera. Þá getur talan 55 hæglega farið með ýtrustu túlkun upp í 91 millj. á næsta ári. Ég hlýt hér að treysta á leiðréttingu. Ég veit að hv. fjvn. er með þetta mál í skoðun og ég treysti á það að hún hækki þetta framtag og beini orðum mínum alveg sérstaklega til formanns fjvn., hv. þm. Lárusar Jónssonar, sem ég veit að er þessum mátum velviljaður og vill gjarnan leiðrétta þessa tölu. Ég veit líka um góðan stuðning hæstv. fjmrh. við þessi málefni alla hans þingsögu og raunar miklu lengur svo að ég þykist vita að á þessu muni einhver leiðrétting fást og ég treysti að hún verði sem allra mest þannig að í raun og veru hlýtur sú tala að breytast ef við 3. umr. fjárlaga verður lögð fram brtt. frá fjvn. um hækkaða upphæð til Framkvæmdasjóðs fatlaðra.

Um byggingarsjóðinn og stóru loforðin og litlu efndirnar gefst tækifæri til að tala við umr. um húsnæðisstofnunarfrumvarpið. Í það frv. vantar nefnilega ekki ýmis fyrirheit en þau fyrirheit fölna nú fljótt ef fjármagnið vantar svo gersamlega sem sýnist í dag og þetta frv. boðar vitanlega enga bjartsýni í þeim efnum; síður en svo. En ég endurtek: Öll umr. bíður síns tíma og í fullri einlægni talað við hæstv. ráðh. er útilokað að hann ættist til afgreiðslu þessa máls fyrir jól. Ég sé ekki minnstu efni til þess og vona að hæstv. ráðh. sé mér sammála um það.

Að lokum ein lítil spurning. Að undanförnu eða ekki alls fyrir löngu áttu þeir í nokkrum hnippingum út af tilteknu máli hæstv. samráðherrar Albert Guðmundsson og Sverrir Hermannsson. Þetta mál snertir svokallaða Suðurlínu eða lúkningu hringtengingarinnar í orkukerfinu. Hvað segir hæstv. fjmrh. um það mál? Hæstv. ráðh. Sverrir Hermannsson hefur gefið í Sþ. afdráttarlausa yfirlýsingu um lúkningu á næsta ári og sýnt fram á beint þjóðhagslegt tap upp á 30 millj. ef frestað yrði –fyrir utan það öryggisleysi sem af yrði einnig ef frestað yrði.

Ég spyr því: Vill hæstv. fjmrh. gefa sams konar yfirlýsingu nú? Suðurlínu verður lokið á næsta ári og til þess er tryggt fjármagn. Eða er ekki svo örugglega? Ég vildi gjarnan fá svör af þessu tagi frá hæstv. fjmrh. en bæta svo aðeins við í lokin að þrátt fyrir vissa þrengingu í 30. gr. og 31. gr. fagna ég því að þær greinar eru þarna inni. Ég veit hvaða þýðingu þessi verkefni hafa fyrir ákveðna staði. Ég veit alveg sérstaklega hvað t.d. 31. gr. hefur mikla þýðingu fyrir þann stað sem þar er fjallað um, Seyðisfjörð. Ég verð því að fagna þeim greinum en endurtek það að ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hæstv. ráðh. ætlist til þess að þessi mál svo viðamikil sem þau eru verði afgreidd nú á rúmri viku.