12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Frv. það sem hér er tekið til 1. umr., frv. til l. um lántöku o.fl. vegna byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli, er flutt í samræmi við samkomutag stjórnarflokkanna um myndun ríkisstj., en samkvæmt því var ákveðið að reisa skyldi flugstöð á Keflavíkurflugvelli í samvinnu við Bandaríkjastjórn.

Í tengslum við endurskoðun varnarsamnings við Bandaríkin frá 1951 var m.a. ákveðið að stefnt skyldi að aðskilnaði farþegaflugs frá starfsemi þeirri sem varnarliðið rekur á Keflavíkurflugvelli samkvæmt ákvæðum varnarsamningsins. Alger forsenda slíks aðskilnaðar er bygging flugstöðvar á nýju svæði. Samkomulag náðist milti ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna um samvinnu um byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli og var samningurinn um það undirritaður hinn 5. júlí s.l.

Eins og þm. er kunnugt er gert ráð fyrir að ríkisstj. sjái um byggingu flugstöðvarinnar og að byggingu hennar verði lokið árið 1.987. Heildarkostnaður við bygginguna, þar með taldar svæðislagnir, er áætlaður 42 millj. Bandaríkjadala og munu Bandaríkin greiða 20 millj. dala af þeirri upphæð. Hlutur Íslendinga, 22 millj. dala, er háður samþykki Alþingis, en fyrirvari er um að áfangagreiðslur af hálfu Íslendinga verði ákveðnar í ljósi ríkjandi efnahagsástands á hverjum tíma á meðan á framkvæmdum stendur. Til að ljúka fyrsta gagnlega byggingaráfanga er þó samkomulag um að skipta greiðslum á milli Íslendinga og Bandaríkjamanna, allt að 20 millj. kr., til helminga.

Á fjárlögum fyrir árið 1983 var aflað heimildar til að taka lán að fjárhæð allt að 10 millj. kr. vegna flugstöðvarinnar. Hefur þegar verið tekið bráðabirgðalán að þeirri upphæð til greiðslu framlags Íslendinga vegna þessa áfanga. Jafnframt byggingu flugstöðvarinnar var samíð um að Bandaríkin greiddu að öllu leyti þann kostnað sem leiðir af framkvæmdum við gerð flugbrauta ásamt lögnum, aðkeyrslubrauta og vega.

Samvinna um byggingu flugstöðvarinnar, sem verður íslensk eign, er að öðru leyti á því byggð að flugstöðin verði fyrst og fremst notuð til almenns flugrekstrar, en Bandaríkin hafi heimild til að nota hana á hættu- og ófriðartímum í samræmi við varnarsamninginn. Þegar hafin er almenn starfsemi í flugstöðinni er gert ráð fyrir að varnarliðið taki aftur við núverandi flugstöðvarbyggingu til afnota fyrir almenna starfsemi varnarliðsins.

Flugstöðvarbyggingin, þ.e. farþega-, þjónustu- og skrifstofurými, verður samtals 12 284 fermetrar. Til samanburðar má geta þess að núverandi flugstöðvarbygging er um 7 000 fermetrar.

Um gerð flugstöðvarinnar hefur þegar verið fjallað á Alþingi, bæði í ræðu og riti, og skal hér látið nægja að vísa til skýrslu sem lögð var fyrir Alþingi árið 1981.

Eins og ég sagði áður er gert ráð fyrir að hlutur Íslands vegna kostnaðar við byggingu flugstöðvarinnar verði 22 millj. Bandaríkjadala á móti 20 millj. dala framlagi Bandaríkjanna. Vegna fyrsta áfanga verða greiddar 10 millj. kr., sem þegar hefur verið gerð grein fyrir. Greiðslur vegna seinni áfanga skiptast þannig: Á árinu 1984 munu Bandaríkin greiða 67% af framkvæmdakostnaði, en Ísland mun greiða 33%. Frá ársbyrjun 1985 verður greiðsluhlutfall Bandaríkjanna u.þ.b. 60% af byggingarkostnaði.

Af hálfu ríkisstj. hefur verið gert ráð fyrir að hlutur Íslendinga verði fjármagnaður á byggingartímanum með lántökum erlendis. Árlegar lántökur eru áætlaðar sem hér segir: 295 þús. dala á árinu 1983, 2.9 millj. dala árið 1984, 4.5 millj. dala á árinu 1985, 9.5 millj. dala árið 1986 og 4.7 millj. dala árið 1987.

Lagt er til samkvæmt 1. fl. 1. gr. frv. að veitt verði heimild til að taka lán að fjárhæð allt að 22 millj. dala, en lántökufjárhæð á hverju ári verði ákveðin með hliðsjón af fjárfestingar- og lánsfjáráætlun hvers árs í samræmi við framvindu efnahagsmála og markmið ríkisstj. í þeim efnum til lengri tíma. Lántökufjárhæð verði að öðru leyti ákveðin í lánsfjárlögum fyrir hvert ár.

Til þess að fjármagn til flugstöðvarinnar nýtist sem best til að ljúka á tilskildum tíma við byggingu hennar og frágang þeirra mannvirkja sem henni tengjast hefur ríkisstj. ákveðið að beita sér fyrir niðurfellingu aðflutningsgjalda og söluskatts af byggingarefni, vélum, tækjum og öðrum búnaði sem þarf til framkvæmdanna sem fram undan eru. Er því í öðru lagi lagt til að tekin verði upp nauðsynleg heimildarákvæði um það í lögum.

Með lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, var fjmrn., fjárlaga- og hagsýslustofnun, falin yfirstjórn opinberra framkvæmda, en Innkaupastofnun ríkisins yfirstjórn verklegra framkvæmda. Þrátt fyrir ótvíræða skipan þessara mála samkvæmt þeim lögum hefur vinna við undirbúning og hönnun flugstöðvarinnar verið í höndum utanrrh., sem notið hefur aðstoðar byggingarnefndar sem séð hefur um framkvæmd þessa verks. Nú þegar komið er að hinni verklegu framkvæmd þykir best henta að yfirstjórn byggingarframkvæmda verði áfram í höndum utanrrh. og er því lagt til að ótvíræð heimild verði tekin í lög um það efni.

Ég tel hins vegar rétt, með tilliti til þess að með byggingu flugstöðvarinnar er stefnt að aðskilnaði almenns farþegaflugs frá starfsemi sem varnarliðið rekur á Keflavíkurflugvelli, að núverandi yfirstjórn ýmissa málaflokka sem dregnir hafa verið undan einstökum rn. verði tekin til endurskoðunar. Af hálfu dómsmrh., samgrh., utanrrh. og mín hefur verið skipuð nefnd til að gera tillögur um fyrirkomulag reksturs flugstöðvarinnar og vænti ég þess að afrakstur af starfi nefndarinnar skili sér í því að viðkomandi stjórnvöldum verði á ný falin framkvæmd þeirra stjórnmálaefna sem þau efnislega og stjórnskipulega eiga undir öllum eðlilegum kringumstæðum að fara með.

Ég skal að svo stöddu ekki hafa fleiri orð um frv. þetta og legg til að því verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn. að lokinni þessari umr.