12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1642 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð.

Mér fannst hæstv. fjmrh. ekki gera nægilega vel grein fyrir því hvaða ástæður liggja að baki þeirri ákvörðun að flytja yfirstjórn þessarar framkvæmdar úr fjmrn. til utanrrn. Það kom líka í ljós að fjmrh. viðurkenndi hér að þekkja ekki alveg uppbyggingu og einstaka liði og þar af leiðandi grundvöll kostnaðaráætlunar og þá kostnaðarskiptingu við þessa byggingu. Vegna þess að ég hef einnig átt í vandræðum með að ná þessum upplýsingum fram væri óskandi að það yrði reynt, þannig að við báðir mættum fróðari verða.

Hæstv. fjmrh. telur þessar lántökur nauðsynlegar. Ég vil minna á ákveðinn fyrirvara í þessu frv. Sagt er að fyrirvari sé um að áfangagreiðslur af hálfu Íslendinga verði ákveðnar í ljósi ríkjandi efnahagsástands á hverjum tíma á meðan á framkvæmdinni stendur. Þar er beinlínis gefið undir fótinn með það að þegar illa árar hjá Íslendingum geti þeir létt á öðrum fætinum og þurfi þá ekki að stíga eins þungt fram í þessu máli og ella.

Annars vegar gætti ákveðins misskilnings okkar í milli í sambandi við röksemdir tengdar endanlegum byggingarkostnaði. Ég vil halda fram að hann sé nálægt því að vera 100% of hár. Eðlileg afleiðing af þeirri samfæringu, sem kemur einnig nokkurn veginn heim og saman við reynslu manna undanfarið ár í útboðum, hlýtur að vera sú að gangá ekki út frá þessari snarvitlausu kostnaðaráætlun í lánsfjáráætlun heldur gera ráð fyrir að taka einfaldlega lægri lán. Það er þá frekar hægt að bæta við ef á vantar, en vaxtakostnaður af þessum lánum er þungur og alveg ástæðulaust að vera að sligast undan honum ef ekki er þörf fyrir lánin.

Það getur vel verið að gjöld af vinnuvélum hafi verið felld niður til verktaka á Keflavíkurflugvelli áður en það réttlætir ekkert framhald slíkra vinnubragða. Ef slíkt er gert, að fella niður gjöld af vinnuvélum til verktaka einhvers staðar, á annaðhvort að gera það alls staðar eða hvergi. Hér er einfaldlega um það að ræða að það gildi sömu leikreglur fyrir landsmenn alla í hverju sem er.