12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þetta voru nú engin svör. Hæstv. félmrh. veit ekki hvort þetta er lán eða framlag. Hann ætlar að reyna að komast að niðurstöðu um það núna fyrir vikulokin. Og upphæðin sem er hér að velkjast í óvissu milli hæstv. félmrh. og fjmrh. er litlar 250 millj. kr. Ég mun fyrir mitt leyti ganga eftir því áður en fjárlög verða afgreidd og við frekari meðferð þessara mála hér í þinginu að það fáist skýr svör í þessu efni og ég skora á hæstv. félmrh. að tryggja að svo verði. Ég er viss um að brýnt er fyrir hann að fyrir liggi með hvaða hætti með þessa upphæð verður farið. Það er óþolandi fyrir félmrh. að það sé í lausu lofti hvort hér er verið að borga út lánsfé sem síðan á að skuldfæra á Byggingarsjóð ríkisins. Ég skora á hann að stuðla að því að þetta komist á hreint fyrir næstu helgi eða áður en fjárlög verða afgreidd frá Alþingi.