12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst taka undir þakkir hv. síðasta ræðumanns til hæstv. forseta og hæstv. ráðh. Jafnframt vil ég einnig taka undir það sem hæstv. sjútvrh. sagði áðan að eðlilegt hefði verið miðað við áherslu á mikilvægi mála að hefja þessa umr. strax kl. 2 í dag. En það var ekki gert. Þeir sem bera ábyrgð á því eru fyrst og fremst hæstv. ríkisstj. Vandi þessa máls er sá að hæstv. ríkisstj. sem leggur þetta mál fram telur það greinilega ekki vera svo mikilvægt að hún ákveði að gefa því þann forgang sem nauðsynlegt er, heldur heldur á málinu með þessum hætti. Ég vil þess vegna í ljósi reynslu undanfarinna ára beina því til forráðamann a hæstv. ríkisstj. því að ég veit að það er ekki í valdi hæstv. forseta, hann getur aldrei leyst þau mál ef hæstv. ríkisstj. hefur ekki gert það upp við sig hvaða forgangsröð hún vill hafa hér á afgreiðslu mála. Það er eiginlega óhjákvæmilegt að menn fái að vita það svo að þessi ruglandi birtist mönnum ekki með jafnskýrum hætti og gerst hefur í umr. hér í dag.

Að lokum, og það var nú meginástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hér hljóðs aftur: Ég vil segja það við hæstv. ráðh. að hann sagði áðan og það var hans meginniðurstaða í framsöguræðu, að þetta mál væri hafið yfir flokka. Það má vel vera að svo sé enda hefur komið í ljós að þeir einu fulltrúar Sjálfstfl. sem hafa talað hér í umr. hafa gagnrýnt frv. mjög rækilega. En það þýðir hæstv. ráðh., að gefa verður málinu eðlilegan umræðuvettvang þar sem allir þm. eiga möguleika á að taka þátt í þeirri umr. Þess vegna er ekki hægt að koma upp nú og láta í ljósi þá von í seinni ræðunni að menn láti þingnefndirnar sjá um málið. Það er í mótsögn við það sem hæstv. ráðh. sagði í sinni framsöguræðu. Ef ráðh. leggur málið fyrir á þeim grundvelli að þetta sé hafið yfir flokkadrátt verður meginumræðan um málið að fara fram á vettvangi þar sem allir einstakir þm. eru jafnréttháir.