13.12.1983
Sameinað þing: 31. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

1. mál, fjárlög 1984

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég sakna þess mjög að hæstv. forsrh. skuli ekki vera í salnum þessa stundina, því að það væri mjög æskilegt að fá að heyra hans álit á málflutningi hæstv. fjmrh. Ef forsrh. fyrir hönd ríkisstj. tekur undir þá röksemdafærslu sem við heyrðum hérna áðan tel ég það mikið alvörumál. Ég hef reyndar heyrt þetta fljúga fyrir hjá hæstv. fjmrh. áður og hlustaði kannske ekki mjög grannt eftir því þá, en legg öllu dýpri merkingu í það núna. Ef þessi fullyrðing hans stenst, — þ.e. við vissum ekkert hvað við vorum að segja í stjórnarmyndunarviðræðunum, við vissum ekkert hvað við vorum að segja þegar við mynduðum ríkisstj., við vissum nánast ekkert fyrr en liðið var fram á sumar, — þá er mér spurn: Hvaða vissu höfum við þá fyrir því að þessir háu herrar viti yfir höfuð hvað þeir eru að segja í dag?

Ég vil fara fram á að hæstv. ríkisstj. taki afstöðu til þessara fullyrðinga. Þetta eru mjög alvarlegar fullyrðingar. Þetta eru hreinar og beinar ásakanir á þá aðila sem hafa aflað upplýsinga fyrir ríkisstj., eins og Þjóðhagsstofnun, og hérna er hreint og beint fullyrt í ræðustól að allar þær upplýsingar, sem Sjálfstfl. og Framsfl. höfðu úr hendi þeirra aðila, og þar með sú ráðgjöf sem þar kom líka fram, hún kom þar mjög beint fram, hafi verið rangar og falskar og beinlínis fram lagðar til að villa um fyrir þessum háu herrum. Ég vil að það verði hér fært til bókar að ég tel brýna nauðsyn bera til að forsrh. taki afstöðu til þessara fullyrðinga hæstv. fjmrh.