14.12.1983
Sameinað þing: 32. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

Um þingsköp

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Mætti ég fá hjá hæstv. forseta lánað kver um þingsköp. 41. gr. þingskapa hljóðar svo í nafni hæstv. forseta:

„Frumvörp, hvort heldur eru frá stjórninni eða þingmönnum, svo og tillögur til þingsályktunar og breytingartillögur, má kalla aftur á hverju stigi umræðu sem vill. En heimilt er hverjum þingmanni að taka það jafnskjótt upp aftur á sama fundi. Fyrirspurn má og afturkalla.“

Þannig hljóðar 41. gr., en okkar formfasti forseti sagði sem svo að hann mundi beita því sem dygði. Nú hefur hann það fyrir sið til að mynda að gefa hæstv., eins og hann nefnir það, iðnrh. orðið og segja: Hæstv. iðnrh. tekur til máls. Þetta leiðir hugann að því hvað mundi duga. Ég er ekkert viss um nema það dygði að segja: Orðið er þitt, hunskastu upp í ræðustólinn mannherfa. Það er ómögulegt að segja til um hvað mundi duga. Hitt er svo annað mál, hvað þingsköp segja. Og þetta er eftir mínu viti afar laglegt orðalag, sem þarna er á, og bið nú hæstv. forseta minn, af því að ég veit að hann er allra manna reglufastastur og formfastastur, að taka þetta til athugunar, án þess að ég geri úr því stórágreining.