14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. um of, en ég þakka fjh.og viðskn. afgreiðslu þessa frv. og hv. þdm. undirtektir.

Ég skil vel þann ótta sem kemur fram í sambandi við kostnað vegna framkvæmdar á frv. Eins og fram kemur í aths. við þetta lagafrv. er hér fyrst og fremst um að ræða opnun innlendra gjaldeyrisreikninga og viðskipti við ferðamenn til að auka þjónustu við viðskiptamenn þessara stofnana, þ.e. sparisjóðanna. Á undanförnum árum hefur starfsemi sparisjóðanna verið að aukast og þeir tekið að sér alhliða bankastarfsemi, en hér hefur skort á í þessum efnum og hugsunin með þessu frv. að gera þar á leiðréttingu.

Hér var vikið að ábyrgðum sparisjóðanna. Þar var lögum breytt að mig minnir fyrir þremur árum, þannig að þeim var þá veitt heimild til að ganga í ábyrgð fyrir sína viðskiptamenn, sem þeir gátu ekki gert. Það liggur í augum uppi að það fer eftir stærð stofnunar hvernig hún getur sinnt sínum viðskiptaaðilum og hversu mikil lánastarfsemi getur þar orðið.

Vegna fsp. um frv. til l. um sparisjóði er það að segja að frv. hefur verið flutt í nokkur skipti á undanförnum árum og á síðasta þingi af þáv. hæstv. viðskrh. Það frv. endurskoðað liggur í viðskrn. og verður flutt ásamt frv. um viðskiptabanka og Seðlabanka þegar þing kemur saman að loknu jólaleyfi.

Ég er sammála þeim þm. sem hér hafa talað og það er stefnan, eins og hv. 4. þm. Austurl., fyrrv. viðskrh., réttilega vék að, að þessar breytingar er ætlað að gera með eins litlum tilkostnaði og mögulegt er. Mér finnst sjálfsagt að fjh.- og viðskn. þessarar deildar fái þær upplýsingar sem hún hefur beðið um til þess að menn geti gert sér grein fyrir því hvað það kostaði Búnaðarbankann að koma upp þeirri gjaldeyrisdeild sem hann kom upp á sínum tíma. (EgJ: Þeir segja ekki frá því.) Þeir segja frá því, hv. þm., ég hef nú ekki trú á öðru. Það liggur allt ljóst fyrir. Þingið hefur sína endurskoðendur og getur aflað sér vitneskju. Þingið kýs bankaráð og ef þinginu eru ekki veittar þær upplýsingar sem beðið er um liggur það í hlutarins eðli að þeir hinir þingkjörnu menn útvegi Alþingi þær upplýsingar sem á þarf að halda. Ég vek athygli á því að þá er þetta frv. var flutt, einmitt þann sama dag, opnuðu þrír bankar hér í Reykjavík og úti um land gjaldeyrisdeildir með sama hætti og gert er ráð fyrir í þessu frv. Þeir gerðu það, eftir því sem ég best veit, án þess að bæta við nokkrum starfsmanni, án þess að kaupa nokkurt nýtt húsnæði. Hér var um að ræða takmarkaða gjaldeyrisþjónustu og þeir gerðu það og gera það í sambandi við þá banka sem hafa haft gjaldeyrisverslun og eru með alhliða gjaldeyrisstarfsemi, þ.e. Landsbankinn og Útvegsbankinn. Ég held þess vegna að það sem hér er verið að gera sé rétt, að veita þessum stofnunum möguleika á þeirri alhliða þjónustu bankastarfsemi án þess að þar sé um að ræða aukinn tilkostnað, og ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Hefðu sparisjóðirnir t.d. haft þessa fyrirgreiðslu á undanförnum árum er ég sannfærður um að ekki hefðu öll þau útibú sem hafa verið stofnsett og sóst hefur verið eftir verið stofnsett.

Við getum svo rætt um kvóta og ekki kvóta og ég tel nú ástæðulaust þegar þetta frv. er til umr. að ræða um slíkt. Ég minni menn á að við höfum haft kvóta í loðnuveiði og við höfum haft kvóta í síldveiði. Það er og ekki alveg nýtt af nálinni þó að um slíkt sé rætt á Alþingi.