24.10.1983
Efri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki fara langt út í atriði þessa máls, en það voru þó fáein atriði sem hæstv. fjmrh. nefndi hér sem gerðu það að verkum að ég kvaddi mér hljóðs.

Ég verð að segja það alveg eins og er: Ef sú einfalda lausn er til á vandamálum sjávarútvegsins að slá striki yfir allar hans skuldir, eins og hæstv. fjmrh. sagði hér, af hverju hefur það þá ekki verið gert fyrr? Á maður að trúa því að hæstv. fjmrh. í ríkisstjórn Íslands komi í ræðustól á Alþingi og boði þar sem einfalda lausn á öllum þeim vanda sem við er að glíma í sjávarútvegi að slá striki yfir allar þær skuldir sem þar eru komnar á blað? Hvað meinar hann? Og hvað segir hæstv. sjútvrh. um þessa patentlausn? Er þá ekki rétt að fara að athuga að slá striki yfir skuldir á fleiri stöðum? Hvað með þá sem efnahagsaðgerðir þessarar hv. ríkisstj. hafa leitt í ógöngur, hvað með þau heimili? Hvað með þá sem skulda í húsnæðislánakerfinu? Er ekki rétt að slá bara striki yfir þær skuldir líka? Og mætti ekki fara svo að á einhverjum fleiri sviðum? Ég held að það séu takmörk fyrir því hvað er hægt að bjóða mönnum hér í málflutningi.

Landið og þjóðin eru að rísa úr rústum, sagði hæstv. ráðh. Mér gengur stundum illa að skilja hann og mér gekk óvenjulega illa að skilja hann núna — líka þegar hæstv. ráðh. sagði að við ættum að snúa baki í það sem væri verðmætaskapandi. Ég held að við ættum fyrst og fremst að horfa á það sem er verðmætaskapandi og verðmætasköpunina. Ég átti svolítið erfitt með að átta mig á þessu.

Það er kannske svolítið léttúðarfullur málflutningur, en í póstkössum hv. þm. í dag liggur fundarboð frá Maharishi Mahesh jóga, sem býður til fundar á Hótel Borg mánudaginn 24 okt., kl. 17.30 núna á eftir, og fundarefnið er nú ekki lítilvægt þar. Þar mun hann m.a. skýra hjálagt boð til ríkisstjórna um að leysa vandamál þeirra. Ég held að sá maður geti ekki haft verri lausnir en þær sem hæstv. fjmrh. hefur verið að bjóða upp á, vegna þess að svo einföld eru þessi mál ekki að það sé hægt að segja fullum fetum: Við skulum bara strika út allar skuldirnar.

Við vitum að að hluta til eiga vandamál í íslenskum sjávarútvegi sér margþættar orsakir og það er ekkert einfalt mál að ræða það eða skýra. Hluti vandans er vitlaus fjárfesting. Hluti vandans er fólginn í því, að við notum núna að ég hygg 15–20% stærri skipastól til að sækja um það bil 18% verðminni afla en var 1981. Þetta er einn þáttur vandans. Til þess að gera kannske flókið mál mjög einfalt, þá er staðreyndin orðin sú, að það kostar okkur of mikið að ná hverju kg af fiski úr sjó og koma því á markað þannig að við getum vel við unað. Það er orðið allt of dýrt. Við þurfum að auka ekki aðeins framleiðslu, sem er háð þeim náttúruskilyrðum sem við búum við, heldur þurfum við að auka framleiðni og gera þetta hagkvæmara.

Hv. 3. þm. Vesturl. vék að stefnu Alþfl. í sjávarútvegsmálum og sagði að Alþfl. hefði barist gegn öllum endurbótum í sjávarútvegi. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Þetta er alrangt. Alþfl. stöðvaði á sínum tíma, þegar hann átti sæti í ríkisstj., innflutning fiskiskipa, innflutning togara, en síðan voru þar allar gáttir opnaðar að nýju þangað til hæstv. núv. forsrh. og fyrrv. sjútvrh. sá að sér og sú ríkisstjórn sem hann sat í og stöðvaði þennan innflutning. Ég held að við stæðum ólíkt betur að vígi ef ekki hefði verið hleypt þeirri skriðu inn í landið sem þarna fór af stað. Auðvitað eru það þau skip og fyrirtækin sem fengu þau skip sem eiga í langmestum örðugleikum núna. Það gefur auga leið.

Hæstv. núv. sjútvrh. var ekki öfundsverður af að taka við því búi sem flokksformaður hans og fyrrv. sjútvrh. skilaði honum í hendur. Sennilega hefur hann fengið eitt erfiðasta hlutverkið í allri ríkisstj. og er ekki öfundsverður af því. — En það verður að gera þær kröfur til ráðh. í ríkisstjórn Íslands að þeir hafi ekki uppi málflutning af því tagi sem hæstv. fjmrh. hefur boðið okkur upp á hér í dag, og ég vona að hann taki þeirri ábendingu minni vinsamlega.