16.12.1983
Neðri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1996 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði. Hér var í marsmánuði haldinn fundur til kl. hálffimm. En sá fundur var haldinn í Sþ. og hann var einsdæmi í áraraðir. Lengsti fundur þar á undan var rúmum tveimur klukkutímum skemmri en sá fundur. Það er þess vegna alveg ljóst að þessi fundur, sem hér hefur staðið nú svo lengi, er þegar orðinn einsdæmi á undanförnum árum. Það hefur verið ýjað að því, bæði hér úti í sat og í hliðarsölum og jafnvel víðar, að þm. Alþb. væru með málþóf í þessari umr. (Gripið fram í: Það hefur engum dottið í hug.) Ég hef heyrt ýjað að því hér. Ég vildi því aðeins vekja athygli á þeirri staðreynd, að á s.l. 7 klst. hafa þm. Alþb. eingöngu talað í rúma 1 klst. í þessari umr. Það er dagsatt. (Gripið fram í: Hefur þú aldrei farið í ræðustól?) Í þessum umr. hafa þm. Alþb. eingöngu talað í rúma klukkustund. (Gripið fram í.) Það er hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Það er að vísu rétt að ég hef nokkrum sinnum komið hér í stólinn og rætt um þingsköp. Þær ræður hafa yfirleitt aðeins staðið í 2–3 mínútur hver þannig að það er mikill misskilningur. Menn geta gengið úr skugga um það hér í segulbandasafni þingsins hvað er hið rétta í þessum efnum.

Ég vildi beina þeirri spurningu til hæstv. forseta, sem eðlilega hefur lýst því hvað eftir annað að hann hefði mikinn áhuga á að koma þessu máli fram, hvort honum dugi nú ekki að koma þessu máli út úr deildinni á þessum sólarhring. Ég hefði nú haldið að það ætti að duga. Nú eru þegar liðnar rúmar 4 klst. af þeim sama sólarhring sem ég á hér við. Vill nú ekki hæstv. forseti kanna það, hvort ekki er hægt að leita samkomulags um það — (Gripið fram í.) Samkomulög sem gerð hafa verið hér milli þingflokka hafa ávallt verið haldin af hálfu Alþb. það ég veit. (GSig: Nei.) Vandinn við þetta mál er hins vegar sá, að hvorki hæstv. sjútvrh. né aðrir sem ábyrgð bera á þessum málum hafa látið svo lítið að ræða við stjórnarandstöðuna um það og þá aðra þm. sem hafa aðrar skoðanir en ráðh. á því hvernig málið næði fram að ganga. Engu að síður sagði hæstv. ráðh. í sinni inngangsræðu að þetta mál væri hafið yfir flokka. Ef ekki væri þessi sífelldi þjösnaskapur með þetta mál og menn aldrei reiðubúnir til eðlilegra manneskjulegra viðræðna um það við ráðh. og ráðh. við aðra hvernig á málinu yrði tekið og hvort ekki séu einhverjir möguleikar á að fá því breytt, en ráðh. hefur aldrei opnað á slíkar viðræður við þingheim. (GSig: Að fá hverju breytt?) Frumvarpinu.

Þess vegna vil ég nú beina því til hæstv. forseta að kannað verði hvort það dugir ekki hæstv. forseta og þeim sem reka á eftir þessu máli þó að þeir vilji ekki við það kannast að málið fari út úr deildinni á þessum sólarhring. (GSig: Óbreytt?) Það getur enginn samið um það, það ræðst í atkvgr. Það getur enginn maður samíð um það hvað gerist í atkvgr. En hvað umræðuhlutann snertir ætti að vera hægt að semja um það, eins og áður hefur verið gert í þinginu, að málið fari út úr deildinni á þessum sólarhring.

Ég hef ekki enn þá nýtt mér rétt minn til að tala í þessum umr. Ég hef eingöngu hér við 1. umr. talað í um það bil stundarfjórðung í þessu máli. En ég er engu að síður reiðubúinn til samkomulags um það að stuðla að því að dm. allir, eftir því sem ég get haft áhrif á menn, það er ekkert víst að það sé nema bara á sjálfan mig, en eftir því sem hægt er að stuðla að því að þetta mál verði afgreitt út úr deildinni á þessum sólarhring. Ég vildi mælast til þess við hæstv. forseta að það mál yrði kannað. (Forseti (Ingvar Gíslason): Út af þessum orðum vill forseti taka það fram að hann er fús til þess að ræða þennan möguleika.)

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. hefur lagt fyrir þetta þing tvö frv. um stefnumótun í sjávarútvegsmálum. Það hefur ekki fyrr verið á það minnst í þessum umr. að séu þessi tvö frv. skoðuð hlið við hlið, þá fela þau í sér kröfu um lagalegan rétt til óskoraðs valds ráðh. yfir sjávarútveginum öllum. (GSig: Það er nú misskilningur.) Það er enginn misskilningur, hv. þm. Garðar Sigurðsson, því að á þskj. 87, í 82. máti þessa þings, frv. til l. frá hæstv. sjútvrh. er í 17. gr. þess frv. kveðið á um það, að sjútvrh. fái vald til þess að skilyrða hvers konar framleiðstu á sjávarafurðum til útflutnings, því að leyfi séu veitt af sjútvrn. Í þessu frv. sem ég var hér að vitna til — (Gripið fram í.) er, hv. þm. Halldór Blöndal, fiskur skilgreindur í 1. gr. frv. Það vill svo vel til að frv. veitir þm. svar við því hvað sé fiskur í þessu samhengi.

1. gr. frv. segir: „Fiskur er samkv. lögum þessum öll sjávardýr, önnur en spendýr, og hlutar hinna fyrrnefndu, sem nýtt eru — “ (Gripið fram í: Ég held að þm. hafi tekið vitlaust frv. með sér í ræðustólinn.) Það er að vísu rétt, hv. þm., þetta er mjög vitlaust frv. Það var rætt hér meðan hv. þm. var fjarverandi og kom þá mjög rækilega fram að margir töldu þetta mjög vitlaust frv. M.a. vorum við hv. þm. Garðar Sigurðsson og ég alveg sammála um það, aldrei slíku vant, að þetta væri mjög vitlaust frv. (Gripið fram í.) Hv. þm. Pétur Sigurðsson var líka á þeirri skoðun að þetta væri mjög vitlaust frv. og jafnvel varamaður hv. þm. Halldórs Blöndals komst að þeirri niðurstöðu síðla í þeim umr. að hann yrði að taka undir það að ýmislegt væri skrýtið í þessu frv. (GSig: Það er nú margt fleira skrýtið í brtt. Ólafs Ragnars.) Ég hef ekki flutt neina brtt. við þetta frv., hv. þm. (GSig: Eða bara þrælar húsbóndans.) Það hefur enginn mér vitanlega flutt brtt. við þetta frv. enn sem komið er. Hins vegar er það rétt að ég boðaði það hér í ræðu í 1. umr. um þetta frv. að ef enginn þm. stjórnarliðsins hefði manndóm í sér til að fella niður þessa mgr. í 17. gr., sem skilyrti alla framleiðslu í sjávarútvegi því að sjútvrn. veitti henni leyfi til framleiðslu, þá væri ég alveg reiðubúinn að flytja þá brtt. (Gripið fram í.) Þetta er frv. um ríkismat sjávarafurða, hv. þm. Stefán Guðmundsson, það er alveg hárrétt. (Gripið fram í: Við höfum sent það til umsagnar.) Það er ánægjulegt að sjútvn. hefur sent það til umsagnar. Ég ætla bara að vona að hún hafi það sem lengst á því stigi í nefndinni. Vakin var athygli á því hér við 1. umr. um þetta frv. að það væri mjög sérkennilegt að inn í þetta frv. — og bið ég nú þm. Halldór Blöndal sérstaklega að hlusta — um ríkismat sjávarafurða væri settur sérstakur kafli um framleiðsluleyfi. (Gripið fram í.) Nei, nei. (StG: Finnst þér vera vanþörf á því?) Akkúrat. Enn og aftur gerist það eins og við 1. umr. um þetta frv. að hv. þm. Stefán Guðmundsson afhjúpar vel og rækilega hér í þingsalnum hver er hugsunin á bak við þetta frv. Hv. þm. sagði: Finnst ræðumanni vera vanþörf á því? Og þessi leyfis trú, þessi leyfa trú, þessi oftrú á að leysa vandamál með því að sjútvrn. fái blankó-heimild til að veita leyfi, leyfi hér og leyfi þar, er vanþörf á því? Er ekki þörf á því, segir hv. þm. Stefán Guðmundsson.

Ég spyr þá sem fengist hafa við sjávarútveg: Halda menn að það sé einhver sérstök nauðsyn á því að sérhver aðili, lítill eða stór, sem saltar fisk á Íslandi eða frystir fisk og framleiðir á annan hátt þurfi að sækja um leyfi til rn. (StG: Já.) Já, segir hv. þm. Stefán Guðmundsson. Þá liggur það fyrir hér að stefna Framsfl. er sú. (Gripið fram í: Stefna Framsfl.?) Jú, jú, því að auðvitað talar hv. þm. hér, sá maður sem Framsfl. hefur valið til þess ásamt sjútvrh. að vera í forsvari fyrir sjávarútvegsmálum í þessari hv. deild, auðvitað talar hann fyrir hönd síns flokks. (Gripið fram í: Þannig var það í gamla daga a.m.k.) Það hefur alltaf verið þannig í Framsfl., látið þið mig þekkja það.

Framsfl. vill binda alla starfsemi í sjávarútvegi í leyfisfjötra eins og þessi tvö frumvörp, 82. mál og 143. mál, staðfesta greinilega hvort á sinn hátt. Annað vill leyfisbinda alla framleiðslu úr sjávarafurðum, hitt vill leyfisbinda allar veiðar af hvaða tagi sem er. Framleiðslu af hvaða tagi sem er, veiðar af hvaða tagi sem er. Allt skal það vera háð leyfisbréfi frá kontóristanum í sjútvrn. Þetta liggur hér á borðunum. (Gripið fram í: Hefur þú eins mikið vit og framsóknarmenn hafa á sjávarútvegsmálum?) Ég skal ekkert um það deila, en hitt undrar mig, hv. þm. Halldór Blöndal, hvernig ríkisstj. sem Sjálfstfl. á meiri hlutann af ráðherrunum í og með innanborðs jafnvitra og skynsama menn í sjávarútvegsmálum eins og hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason og hæstv. ráðh. Sverri Hermannsson — (Gripið fram í.) Ég er að koma að því, hv. þm. En ég tel óhjákvæmilegt að vekja athygli á samhenginu, sem er í þessum tveimur meiri háttar frumvörpum, reyndar einu meiri háttar frumvörpunum sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt hér fram, að þegar þau eru tekin hlið við hlið fela þau í sér allsherjar leyfisbindingu á sjávarútveginum öllum.

Það sem undrar mig og ég hef enn ekki fengið svör við, hvorki við umr. um þetta mál, 82. mál, né umr. sem nú fer fram um 143. mál, er þetta: Hvernig stendur á því að Sjálfstfl. stendur að þessu? Ég vek athygli á því, að það hefur enginn einasti þm. Sjálfstfl. komið upp í þessari umr. til að verja þetta frv., 143. mál, ekki einn einasti. Það hafa tveir þm. talað af hálfu Sjálfstfl. í þessu máli sem þm. hans. Annar þeirra, Guðmundur H. Garðarsson, tætti frv. niður lið fyrir lið og sýndi fram á það, að frv. getur haft mjög afdrifaríkar afleiðingar í för með sér. Hinn þm., Halldór Blöndal, gerði hér við 1. umr. mjög alvarlegar aths. við frv. og síðan kom hann hér — í gær, verð ég nú víst að segja, en í sömu umr., og var mjög tregt tungu að hræra, las upp langa og ítarlega bókun, sem hann hafði gert á fundi sjútvn., þar sem á var helst að skilja að hann væri á móti frv. en fyrst hagsmunaaðilar hefðu að því er virtist hallast að því að þetta ætti að gera, þá væri kannske óhjákvæmilegt með tilliti til alls þessa að viðkomandi þm. skrifaði undir nái. Engin önnur rödd hefur heyrst í þessum umr. frá Sjálfstfl., engin önnur rödd. Og ég vek athygli á að í umr. um frv. um ríkismat sjávarafurða heyrðist heldur engin rödd frá Sjálfstfl. til stuðnings því frv. Þess vegna spyr maður eðlilega: Hvað er hér að gerast? Hefur Sjálfstfl. afhent Framsfl. algerlega forræðið yfir íslenskum sjávarútvegi? Svo gersamlega, að þm. Sjálfstfl. þora ekki hér upp í ræðustólinn af einhverjum ástæðum til að lýsa yfir stuðningi við þessi frv. og láta þá eina tala sem gagnrýna frv. Eina lífsmarkið sem sjálfstæðismenn utan þings heyra frá félögum sínum í þessum sal eru gagnrýnisraddir frá tveimur sjálfstæðismönnum í fyrri umr. um frv. til l. um ríkismat sjávarafurða og tveimur mönnum í þessum umr. Þess vegna er eðlilegt að við spyrjum: Hvað er hér að gerast?

Það er leitt að hv. þm. Halldór Blöndal skuli hafa gengið hér úr salnum, ég hefði gjarnan viljað lofa honum að heyra rödd annars Blöndals, sem í gær, föstudaginn 16. des., skrifaði grein um þetta frv. og lýsti því mjög rækilega þar hver væri kjarninn í þessu frv. Hv. þm. Halldór Blöndal hefur nú gengið úr salnum, sjálfsagt til að kanna það, hvað er að gerast innan Sjálfstfl.

Sjálfstfl., þessi flokkur einkaframtaks í sjávarútvegi, þessi flokkur frelsis í íslensku atvinnulífi stendur að því að leggja fram hér á Alþingi Íslendinga tvö stjfrv. um sjávarútvegsmál, sem bæði fela það í sér að binda hvern einasta mann, hvert einasta fyrirtæki, hvern einasta framleiðanda, hvern einasta veiðimann, hvort sem fyrirtækið er stórt eða lítið, hvort mennirnir sem vinna við það eru einn eða hundrað, binda alla þessa starfsemi á leyfaklafa ríkiskontórsins. Þetta er veruleikinn, þetta er atvinnustefna Sjálfstfl. í framkvæmdinni, í grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar, sem hefur verið uppspretta þess framtaks sem mestu hefur á orkað af hálfu einstaklinga í uppbyggingu íslensks þjóðfélags á þessari öld. (Gripið fram í: Er þetta hægt, Matthías?) Það er von að spurt sé: Er þetta hægt, Matthías? Það er atveg greinilegt að þetta er hægt. Og ég verð nú að segja eins og er að ég á bágt með að skilja hvaða grundvallaratriði móta nú efnahags- og atvinnumálastefnu Sjálfstfl., þegar ráðh. og meginhluti þingflokks Sjálfstfl. standa að þessum tveimur frv.

Ég vildi nú beina þeim orðum mínum til hæstv. forseta, að þótt það sé kannske í lagi að ræða um Sjálfstíl. án þess að hæstv. sjútvrh. sé hér í salnum, þá kynni ég betur við að ráðh., sem leggur þessa feikilegu áherslu á það að þessi umr. haldi hér áfram, sé hér í salnum.

Hæstv. sjútvrh. hefur lýst því yfir hér við þessa umr. að hann hafi ekki áhuga á að sækjast eftir valdi. Engu að síður hefur hann lagt hér fram tvö frv. sem fela honum algjört drottnunarvald í gegnum leyfisveitingar yfir bæði veiðum og framleiðslu í sjávarútvegi. Þegar þetta er gagnrýnt segir hæstv. ráðh.: Ég er ekki að sækjast eftir þessu valdi. En þegar boðið er upp á breytingar á þessum frv. segir hæstv. ráðh. alltaf nei. Þá vill hann hafa þetta vald. Þá vill hann ekki að neinn annar eigi hlutdeild að því, ekki einu sinni þingið. Þess vegna verður að draga þá ályktun af þessum umr. og þessum frv., sem ráðh. vill ekki breyta, að hann sé að sækjast eftir þessu valdi. Það liggur alveg ljóst fyrir, hvað sem liður því yfirskini sem hann flytur hér í umr., að hann er að sækjast eftir þessu valdi. Og hann sækist svo grimmt eftir því að hann er ekki reiðubúinn að ræða við þá þm. sem flutt hafa brtt. um að þingið eigi einhverja hlutdeild í þessu valdi. Nei, segir ráðh., ég vil ekki að þingið eigi neina hlutdeild í þessu valdi. Það er boðið upp á það í brtt. að almennar reglur fiskveiðistefnunnar og framkvæmdar hennar verði staðfestar hér á Alþingi. Nei, segir ráðh. Það er boðið upp á það að fastbundið sé í lögum með hvaða hætti samráðsaðilar hafi áhrif á málin. Nei, segir ráðh.

Hæstv. ráðh. er hvað eftir annað í þessum umr. búinn að vitna í ráðgjafahóp og hefur gefið til kynna að sá ráðgjafahópur væri skipaður fulltrúum hagsmunaaðila. Nú hefur það verið upplýst hér í umr. að ráðh. valdi sjálfur þessa fulltrúa. Það eru ekki hagsmunaaðilarnir, sem hafa tilnefnt þessa fulltrúa, heldur hefur ráðh. valið sína eigin ráðgjafa og vill nú túlka sjónarmið þeirra eins og þau endurspegli viðhorf hagsmunasamtakanna.

Þá er einnig með öllu óskiljanlegt atferli Sjálfstfl., sem hefur aðhyllst kenninguna um þrískiptingu ríkisvaldsins, og forustumenn hans, dr. Bjarni Benediktsson og dr. Gunnar Thoroddsen og Jón Þorláksson hafa skrifað lærðar ritgerðir um efnið. Ég er ansi hræddur um að þessir þrír forustumenn Sjálfstfl. um áratugi mundu ærið undrandi horfa á þau þskj., þar sem ráðh. Sjálfstfl. og þm. stæðu að því að gera ríkisvald í sjávarútvegi jafnafgerandi og hér er gert, að ég nefni nú ekki Ólaf Thors. Mér er sem ég sæi að Ólafur Thors hefði lagt Kveldúlf undir kontóristann í ráðuneytinu. En svo er greinilega komið fyrir Sjálfstfl. Það eru þó til menn í Sjálfstfl. sem enn vilja halda uppi hinu gamla merki. Einn þeirra, Haraldur Blöndal, ritar grein í Dagblaðið föstudaginn 16. des. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þannig er ekkert í frv., sem bannar ráðherra að setja t.d. pólitísk skilyrði fyrir leyfisveitingum. Hann getur ákveðið, að enginn útgerðarmaður á Stór-Reykjavíkursvæðinu fái veiðileyfi, og hann getur ákveðið að enginn stóru togaranna fái leyfi. Og það segir ekkert um það, hvort eigi að miða við afla skipa — aðeins, að það megi setja slíkt skilyrði. Og þá er ekkert sagt um, hvernig eigi að meta aflann.

Sigurður Líndal prófessor hefur nokkrum sinnum bent á í blaðagreinum, að Alþingi framselji stundum vald sitt fram úr hófi. Ég held, að þarna sé um slíkt valdaframsal að ræða. Og svo er skömmin kórónuð með því, að brot gegn hinum óskilgreindu geðþóttareglum ráðherrans verða gerð refsiverð með allt að 14 þús. gullkróna sekt.“

Hér er einmitt kjarni málsins, að það er ekkert í þessu frv. sem hindrar ráðh. í að setja hvaða reglur sem honum sýnist. Hér er m.ö.o. pólitískum fulltrúa, einum manni, veitt í eitt ár vald til þess að setja hvaða reglur sem honum sýnist varðandi þetta efni. Og þess vegna er ósköp eðlilegt að menn spyrji: Er hér á ferðinni grundvallarstefnubreyting í viðhorfum til lýðræðis, í viðhorfum til efnahagsskipulags og í viðhorfum til lausnar á vandamálum í þessu þjóðfélagi, að þegar vandamálin eru stór og því stærri sem þau eru, því fljótari eru menn einfaldlega að setja öll völdin yfir á einn ráðh., m.a. s. öll völdin yfir framleiðslukerfinu, öll völdin yfir markaðskerfinu, öll völdin yfir fjárfestingarmöguleikunum, öll völdin yfir veiðimöguleikunum, öll völdin yfir atvinnumöguleikunum? Síðan hvenær varð sú kenning góð og gild hjá Framsfl. og Sjálfstfl. að leiðin til að leysa hin stærstu vandamál sé að fela einum manni alræðisvald í málinu? Ég fullyrði að það finnast engin dæmi þess í íslenskri stjórnmálasögu að svo sé, engin dæmi.

Ég minni t.d. á að þegar Vestmannaeyjagosið varð var farin sú leið að Alþingi í sameiningu, stjórn og stjórnarandstaða, samdi um það með hvaða hætti skyldi brugðist við þeim mikla vanda sem að íslensku þjóðinni steðjaði þá. Síðan voru valdir fulltrúar allra afla til þess að fara með það mál og þegar þeir höfðu lokið störfum var það gert upp.

Þess vegna er ósköp eðlilegt að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og Hjörleifur Guttormsson spyrji hér: Er þess að vænta að farið verði eftir þessum aðferðum á fleiri sviðum? Og þær spurningar gera óhjákvæmilegt að fulltrúar Sjálfstfl. sérstaklega, vegna þess að ráðh. er úr Framsfl. og hefur mælt fyrir þessu frv. hér, að fulltrúar Sjálfstfl. sérstaklega leyfi okkur hinum þm. að hlýða á rökin fyrir því að þetta er gert, út frá stefnu og stjórnmálaáherslum Sjálfstfl. Þau hafa ekki heyrst í þessari umr.

Ég vakti athygli á því hér í stuttri ræðu, sem ég flutti við 1. umr. þessa máls, að við búum í heimi sem í æ ríkara mæli einkennist af takmörkuðum auðlindum, takmörkuðum möguleikum til atvinnustarfsemi og fjárfestingar, og að vandamál stjórnmálanna verða í æ ríkari mæli að fást við lausn viðfangsefna sem markast af hinum takmörkuðu auðtindum, hvort sem það eru auðlindir lands, sjávar, fallvatna eða á öðrum sviðum. Hér er boðuð sú kenning í þessu frv. að fara leið ríkisdrottnunar, að vísu eitt ár í senn, en engu að síður leið ríkisdrottnunar til að leysa þetta mál.

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur talað gegn þeirri brtt. sem hér hefur verið flutt með þeim rökum að það vinnist ekki tími til þess að láta Alþingi fjalla um málið. Ég spyr hæstv. ráðh.: Hvenær væntir hann þess að tillögugerð á grundvelli þess frv., sem hann nú krefst að fá samþykkt á þingi, liggi fyrir? Hann hefur gert mikið úr þeirri miklu sérfræðivinnu sem þurfi að vinna í þessum efnum. Hann hefur gert mikið úr því að þar komi mörg álitamál til greina. Hann hefur gert mikið úr því að málið sé flókið og viðkvæmt. Allt er þetta rétt. En eru þá ekki allar líkur á því að hæstv. ráðh. verði ekki búinn að fá niðurstöðu úr þessari miklu vinnu fyrr en upp úr miðjum janúar? Ég tel að engar líkur séu á því að hæstv. ráðh. verði kominn að niðurstöðu í málinu fyrr en þá.

Hér hefur verið lögð fram till. til þál. um að Alþingi komi saman fáeinum dögum seinna. Og þá spyr ég hæstv. ráðh. og óska svars við því hér: Hvað mælir þá svona ríkulega gegn því að Alþingi fái að fjalla um þá skiptingu áður en hún tekur endanlega gildi, ef þm. eru t.d. reiðubúnir til samkomulags um að tímasetja það að Alþingi skuti hafa lokið slíkri afgreiðslu t.d. fyrir 1. febr. og sjútvn. þingsins vinni að málinu í jólaleyfi? Það er fullkomlega framkvæmanleg leið. Það er leið sem gæti tryggt að þingið í heild sinni stæði á bak við það kerfi og þá niðurstöðu sem endanlega verður ofan á.

En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er hæstv. ráðh. ekki reiðubúinn til samstarfs við þingið að þessu leyti. Og það vekur óneitanlega grunsemdir hvers vegna ráðh. heldur svona fast í það að hann eigi einn að ráða þessu. Þegar við mæltumst til þess hér ýmsir að hæstv. sjútvn. þessarar deildar leitaði eftir viðræðum við tillögumenn, þá sem að brtt. standa, þá var það m.a. til þess að ræða það í sameiningu hvort menn gætu ekki komist að niðurstöðu sameiginlega í þessum efnum.

Og ég vil segja eitt í fullri alvöru við hæstv. ráðh., Halldór Ásgrímsson: Eitt er það markmið þeirra sem falið er að stjórna sérstaklega smárri þjóð: að efla ekki að nauðsynjalausu sundrung meðal þjóðarinnar þegar hin stærstu mál eiga í hlut. Það skildu þeir Eysteinn Jónsson og Ólafur Jóhannesson m.a. þegar Vestmannaeyjagosið bar að höndum. En það er merkilegt að þeir hæstv. ráðh. sem nú ráða ríkjum virðast kappkosta að halda þannig á hinum stærstu málum, að það leiði til sundrungar, það leiði til átaka, það leiði til deilna, ef menn eru ekki reiðubúnir að bukka sig og beygja fyrir valdinu og segja já og amen strax á fyrstu dögum. Hæstv. ráðh. hefur setið þykkjuþungur yfir því, að menn séu yfir höfuð að taka tíma í það að ræða þetta mál hér, og eru þó ekki, hæstv. ráðh., orðnar nema um það bil 10 klst. sem þetta mál hefur verið rætt hér samtals við 1. og 2. umr., og er það ekki langur tími þegar slíkt stórmál á í hlut. Þeir menn sem halda þannig á stærstu málum þessarar þjóðar, þegar mikinn vanda ber að höndum, að það leiði til sundrungar, það leiði til deilna meðal þjóðarinnar, bera mikla ábyrgð á því að baráttuþrek og innri styrkur Íslendinga bíði hnekki þegar á móti blæs.

Hæstv. ráðh. gerði mikið úr því hér fyrr að hann ætlaði að hafa samráð. Samt vill hann engin ákvæði um það í þetta frv. hvernig það samráð eigi að vera við aðila innan þings. Nei, það má ekki vera. Flokksbróðir minn ágætur, Garðar Sigurðsson, vitnaði hér í grg. með þessu frv. til rökstuðnings því, að þó væri eitthvað getið um það með hverjum hætti þetta samráð ætti að vera.

Ég hef staðið að því hér á Alþingi að samþykkja heimildir til ráðh. í lögum og setja í nál. og grg. ákveðin skilyrði, sem ráðh. ættu að fara eftir, — og upplifa það að viðkomandi ráðh. höfðu þau skilyrði að engu. Það kenndi mér það, að í greinargerðum og nefndarálitum er ekkert hald. Það er lagatextinn einn sem er traustur, því miður, en það er einu sinni þannig. Ég hélt í eina tíð að hægt væri að kveða á um slíkt í nái. og grg. og við gerðum það m.a. hér í ákveðnu stórmáli fyrir 2–3 árum, en í ljós kom að þáv. hæstv. ráðh. sem með það mál fór, taldi sér fullkomlega fært að hafa þau skilyrði að engu af því að ekki væri kveðið á um það í lagatexta. (Gripið fram í: Hver var það?) Það var hæstv. núv. forsrh. Steingrímur Hermannsson. (Gripið fram í.) Hvað sagði hæstv. sjútvrh.? (Sjútvrh.: En hvernig voru Ólafstög, voru þau alltaf haldin, ákvæðin um samráð í Ólafslögum?) Nei, þau voru ekki haldin. Það er alveg rétt, þau voru ekki haldin. (Gripið fram í: Var haldið þeim lagatexta?) Nei, það var kannske ekki haldið þeim lagatexta, en þó held ég að ef þar hefði verið haldið á málum með þeim hætti að útfæra þá reglugerð, sem átti að skýra þann lagatexta með þeim hætti að samtök vinnumarkaðarins gætu vel við unað, þá hefði öðruvísi farið.

Núv. hæstv. sjútvrh. hefur fyrr á þessu ári sett brbl., sem sviptu í burtu samningsrétti manna í landinu, sem tóku af fólkinu þann helga rétt sem felst í frjálsum samningum. Og ég spyr hæstv. ráðh.: Hvaða tryggingu hefur fólkið í landinu fyrir því, að ráðh. verði eitthvað samráðsfúsari nú við lok þessa árs heldur en var um mitt árið? Ég hef grun um það að núv. hæstv. sjútvrh. hafi verið meginhöfundur þeirrar efnahagsstefnu að rifta í sundur samningsréttinum, svipta fólkið í landinu þeim lýðræðislega rétti að semja um kaup og kjör og banna mönnum að nýta þann rétt á hinum atmenna vinnumarkaði í landinu. Hvers vegna ætti fólkið í landinu til sjávar og sveita endilega nú að geta treyst því, að sami hæstv. ráðh. hafi gengið í þá endurhæfingu að hann muni standa við eitthvert ákveðið samráð. Auðvitað ekki. Auðvitað er öll framganga ráðh. s.l. hálft ár með þeim hætti, að það getur enginn treyst því að ríkisstj. og ráðh., sem svipta í sundur samningum annarra manna í landinu með svo afgerandi hætti að rétturinn til samninga er af þeim tekinn, muni standa við það að byggja upp kerfi raunverulegs samráðs á þessu sviði.

Hv. þm. Stefán Guðmundsson sagði að sjútvn. gæti ekki fallist á neina af þeim brtt. sem fluttar hefðu verið. Fyrsta brtt. á þskj. 242 er á þessa leið með leyfi hæstv. forseta: „Fiskveiðilandhelgi Íslands og auðlindirnar innan hennar eru þjóðareign, sameign allra Íslendinga.“ Ég spyr hv. þm. Stefán Guðmundsson: Hvers vegna getur hæstv. sjútvn. ekki fallist á þetta? (HBI: Hvaða þörf er á að setja þetta?) Ja, það má oft spyrja hvaða þörf sé á að setja ýmsa hluti í lagatexta. (Gripið fram í: Hefur þetta verið eitthvað öðruvísi?) Það getur verið nauðsynlegt, þegar einum manni er falið allt vald yfir ráðstöfun þessara auðlinda, að kveða á um að það sé þjóðin sem sé hinn raunverulegi eigandi (StG: En ekki Halldór?) þessara auðtinda. (HBI: Það var heldur ekki takmarkað neitt vald í þessum brtt.) Hvaða vald? (HBl: Ráðherra. Útskýrðu fyrir okkur þörfina.) Ég skal gera það með ánægju, hv. þm.

Það er talin almenn grundvallarregla að kveða á um það í stjórnarskrá hvert sé hið æðsta eða fullræðisvald í viðkomandi samfélagi. Í Bretlandi t.d. gildir sú regla að þingið hefur það vald. Í okkar stjórnskipun gildir sú regla að það er þjóðin sem hefur það vald. (HBI: Erum við ekki búnir að helga okkur landgrunnið með gögnum þess og gæðum?) Um það má deila. (HBI: Má um það deila?) Já, vegna þess að það hafa heyrst, hv. þm., hvað eftir annað þau sjónarmið að auðæfi, ég bið hv. þm. að hlýða á það, að auðæfi sem eru undan ströndum tiltekinna landshluta séu eign íbúa þessara landshluta. Þannig hafa t.d. ýmsir Vestfirðingar haldið því fram að auðæfi sjávarins undan Vestfjarðaströndum og inni á vestfirskum fjörðum séu umfram aðra eign Vestfirðinga og þeir eigi þar fyrsta rétt á þeim auðlindum. Það eitt ættu að vera nægileg rök fyrir því að kveða á um það, að allar þessar auðlindir séu í reynd sameign þjóðarinnar allrar.

Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson kynnti hér sjónarmið Verslunarráðs Íslands. Hv. þm. Svavar Gestsson kynnti hér álit Alþýðusambands Íslands. Það er merkilegt að þessi tvö gagnrýnu álit frá jafnandstæðum samtökum eins og Alþýðusamband Íslands og Verslunarráð Íslands eru skuli ekki hafa verið kynnt af frsm. meiri hl. nefndarinnar hér í dag. Það eru sérkennileg vinnubrögð satt að segja og ærið óvenjuleg. (StG: Hvað áttu við?) Ég skal endurtaka það fyrir hv. þm. Ég vék að því að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, sem ekki á sæti í sjútvn., hefði kynnt þingheimi álit og erindi frá Verslunarráði Íslands til sjútvn. ((StG: Sjútvn. fékk það bara ekki.) Það hlýtur að vera. (StG: Nei.) Það getur ekki verið annað en að sjútvn. hafi fengið það. (Gripið fram í: Ekki fyrr en í gær.) Ekki fengið það fyrr en seint í gær? Það nægir — þm. talaði snemma í dag þannig að það hefði gefist ærið tilefni hjá þm. til að kynna þetta skjal þingheimi. Og kl. rúmlega eitt, fyrr á þessari nóttu, flutti þm. hér enn á ný grg. frá meiri hl. sjútvn. (StG: Þá var búið að kynna þetta.) Búið? (StG: Já.) Nei, nei, það var ekki búið. Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson talaði ekki fyrr en eftir það. Hv. þm. Stefán Guðmundsson getur þá bara einfaldlega flett því hér upp í skrá forseta og fundargerðarbók og kynnt sér á segulböndum hver atburðarásin var á þeim efnum.

Hv. þm. Svavar Gestsson kynnti hér álit frá Alþýðusambandi Íslands. Þetta eru tvö mjög gagnrýnin álit frá veigamiklum samtökum í landinu. (Gripið fram í.) Já, eftir að það hafði verið kynnt hér í umr. En það stendur engu að síður eftir að formaður sjútvn. og frsm. meiri hl. nefndarinnar kynnti deildinni ekki að þessi tvenn veigamiklu samtök í íslensku atvinnulífi hefðu sent sjútvn. gagnrýnar umsagnir heldur var látið að því liggja hér í ræðunni hvað eftir annað að allir hagsmunaaðilar styddu þetta frv. Það var reynt að búa til þá mynd, þá fölsku mynd hér í þingsalnum, að allir hagsmunaaðilar styddu þetta frv. Það er ekki fyrr en einstakir þm., sem ekki eiga sæti í sjútvn., koma hér og upplýsa að það er víðs fjarri að svo sé, sem það kemur í ljós að utan þings hafa núna síðasta sólarhringinn hver samtökin á fætur öðrum komið og sagt nei gagnvart þessu frv. (Gripið fram í: Það er bara rangt.) Bara rangt? (Gripið fram í: Þú skalt leita álits þeirra aftur, þessara samtaka.) Hv. þm. vefengir þetta, segir að þetta sé rangt. — Það er sérkennileg fullyrðing. Hét er ég þó með í höndunum erindi frá Verslunarráði Íslands og erindi frá Alþýðusambandi Íslands og sjálfsagt að lesa það upp fyrir hv. þm. sem enn heldur sér við þá sérkennilegu fullyrðingu. (StG: Ég er með þetta frá félaga þínum hérna.) Það er mjög gott, þá vænti ég að þm. lesi það.

Hér stendur m.a. í bréfi ASÍ með leyfi hæstv. forseta:

„Því beinir sambandsstjórn Alþýðusambands Íslands“ sem er reyndar æðsta vald í málefnum Alþýðusambandsins milli þinga sambandsins, sem haldin eru á fjögurra ára fresti, „því beinir sambandsstjórn ASÍ því til hv. Alþingis, að það beiti sér fyrir því,“ — og ég bið hv. þm. Stefán Guðmundsson að hlusta nú vel — „að skýrt komi fram í lögum að ráðh. sé skylt að hafa samráð við hagsmunaaðila í sjávarútvegi um framkvæmd laganna.“ Ég endurtek: „að skýrt komi fram í lögum að ráðh. sé skylt að hafa samráð við hagsmunaaðila í sjávarútvegi um framkvæmd laganna.“ (HBl: Nú sagði þm. áðan að það væri ekki hald í samráði nema um það væru skýr ákvæði í reglugerð. Hvernig fer þetta saman?) Við skulum ræða það hér síðar. Ég er eingöngu að svara hv. þm. Stefáni Guðmundssyni, að hér kemur skýrt fram sú krafa, sem studd hefur verið með brtt. sem við höfum ýmsir lýst yfir fylgi við, að þetta samráð sé bundið í lagatextanum. Því hefur verið hafnað af meiri hl. sjútvn. og af hæstv. ráðh.

Síðan segir í upphafi með leyfi hæstv. forseta:

„Í frv. til l. um breyting á lögum nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, er ráðh. gefið einræðisvald til að ákveða fiskveiðistefnu og stjórn veiða á ákveðnu tímabili.“

Í erindi Verslunarráðs Íslands er kveðið enn sterkar að orði. Þar kemur fram að verslunarráðið vill að síðustu ítreka andstöðu sína við þetta fyrirkomulag og óskar því eftir að afgreiðslu frv. verði frestað.

Það hefur einnig verið kynnt hér afstaða útgerðarráðs í einu stærsta útgerðarfyrirtæki landsins og jafnframt einu af þeim sem elst eru starfandi með svo blómlegum hætti, Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Útgerðarráð Bæjarútgerðar Reykjavíkur hefur einróma lýst algjörri andstöðu við þetta frv. og hefur skorað á þm. Reykvíkinga að beita sér gegn því. Ég spyr hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarsson, fyrrv. borgarstjóra, með hvaða rökum ætlar hann að hafna þessari áskorun frá útgerðarráði Reykjavíkurborgar? Með hvaða rökum ætlar hann að hafna áskorun sem flokksbróðir hans, Ragnar Júlíusson, var tillögumaður að á fundi útgerðarráðs Bæjarútgerðar Reykjavíkur? (HBl: Það er nú Björgvin sem skrifar undir.) Það er einfaldlega vegna þess að hann er á kontórnum enn þá. Þau rök hafa ekki heyrst, hvorki frá fyrrv. borgarstjóra, hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni, né hæstv. ráðh. Albert Guðmundssyni, fyrrv. forseta borgarstjórnar Reykjavíkur. Ætla þessir hv. þm. ekki að gera Reykvíkingum grein fyrir því með hvaða rökum þeir hafna þessari áskorun?

Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson kom hér upp í ræðustólinn í gær og gerði ítarlega grein fyrir afstöðu sinni til verðjöfnunargjalds, svo að Reykvíkingar og aðrir gætu áttað sig á því hvaða skoðanir hann hefur á því máli. Hann hefur verið þögull í þessu máli. Þó á hér í hlut eitt stærsta atvinnufyrirtækið í borginni, eitt elsta atvinnufyrirtækið í borginni og eitt mikilvægasta fyrirtækið í því að gera Reykjavíkurborg að útgerðarbæ. En borgarbúar fá ekkert svar, ekkert svar. Þorir hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og aðrir fulltrúar Sjálfstfl. í Reykjavík ekki að svara Reykvíkingum í þessum efnum? Það kemur væntanlega í ljós síðar í þessari umr. og við 3. umr., hvort sú er reyndin. Ég er viss um það að ef þjóðin fengi nokkra daga í viðbót til að kynnast þessu frv. mundi eflast fylgið við þau sjónarmið sem sett hafa verið fram af hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, hv. þm. Halldóri Blöndal, af þeim mönnum sem hafa flutt hér brtt. við þetta frv. Og það er kannske skýringin á því, hvers vegna forusta Framsfl. er að hamra þetta frv. hér í gegn, að hún vill koma í veg fyrir það að þjóðin fái í raun og veru að kynnast þessu frv. Þess vegna er formaður þingflokks Framsfl. vappandi hér um sali til að halda því að forsetum og öðrum að þessari umr. skuli haldið áfram. Því að Framsfl. þorir ekki að þjóðin fái nokkra daga til að kynnast þessu frv. Hann þorir ekki að útgerðarráðin allt í kringum landið fái að fjalla um mátið eins og útgerðarráðið í Reykjavík. (Gripið fram í: Þau hafa gert það á fundum sínum núna.) Hafa þau gert það á fundum sínum? Hvaða útgerðarráð hafa gert það á fundum sínum? (Gripið fram í: Þau hafa gert það hjá LÍÚ.) Já, það er út af fyrir sig alveg rétt að kontóristarnir hjá LÍÚ hafa sent frá sér ályktun. (Gripið fram í: Þú veist bara ekki hvernig þetta er byggt upp, þú þekkir ekki uppbyggingu þessara samtaka.) Þekki ég ekki uppbyggingu þessara samtaka?

Ég veit ekki betur en varaformaður LÍÚ sé á móti þessu frv. Er það ekki rétt? Er ekki varaformaður LÍÚ á móti frv.?(Gripið fram í.) Ekkert fyrir hvern, er hann bara ekki á móti frv., varaformaður LÍÚ? Bara já eða nei, er hann ekki á móti frv.? Já, einmitt, varaformaður LÍÚ er á móti frv. (Gripið fram í.) Já, já, ágætt, það er nokkuð ljóst. Formaðurinn er með, varaformaðurinn er á móti. (Gripið fram í: Þú veist ekkert hvernig LÍÚ er byggt upp.) Auðvitað veit ég hvernig LÍÚ er byggt upp.

En ef hv. þm. Stefán Guðmundsson er svona sannfærður um það að það sé dúndrandi fylgi allt í kringum landið við þetta frv., er hann þá reiðubúinn að gera samkomulag við okkur aðra hér á Alþingi um það að við skulum samþykkja að þetta frv. fái afgreiðslu hér fyrir jól, alveg sjálfsagt, aldrei annað staðið til en að það fengi afgreiðslu hér fyrir jól, en við viljum hins vegar tryggja það með þessum umr. og öðrum hér að fólkið í landinu fái þó þá daga sem eftir eru af þinghaldinu fram að jólum til þess að geta fjallað um málið? En það er það sem verið er að koma í veg fyrir með næturfundahöldum og með óhemjugangi í því að þrýsta á málið og að leggja það svona seint fram. Því það er auðvitað alveg rétt, sem hér hefur komið fram hjá fjölmörgum, að það hefði fyrir löngu verið hægt að hefja undirbúning að þessu frv.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur rakið það mjög rækilega hér í ræðu í dag hvernig hann ár eftir ár eftir ár hvatti formann Framsfl. til að hefja undirbúning að löggjöf um þessi vandamál. En formaður Framsfl. sagði nei. Hann sagði nei, hann sagði aftur nei. Og það hefur rækilega komið fram hér skjalfest í þessari umr. að ef einhver einn einstaklingur í þessu landi ber ábyrgð umfram aðra á því hvernig komið er, þá er það hæstv. núv. forsrh. Steingrímur Hermannsson með því að segja nei þegar vitrari menn vöruðu hann við á undanförnum árum við ríkisstjórnarborðið — segja nei, segja nei og aftur nei.

Svo þegar Framsfl. er búinn að setja þessi mál í algjöra hönk kemur hann til þingsins og segir: Fáið þið mér allt vald í málinu. Og Sjálfstfl. eins og aumingi segir já og amen. Það skal lengi í minnum haft að Sjálfstfl. sagði hér já og amen. Þeir skulu fá að heyra það fund eftir fund eftir fund að þeir voru flokkurinn sem skópu alræðisríkisvald í grundvallaratvinnuvegi Íslendinga. (HBl: Það verður þá einhver að koma á þessa fundi.) Það verður séð til þess. Fólkið í landinu mun koma á þessa fundi. Þegar fólkið verður farið að finna fyrir hinum alráða ráðherra, þegar búið verður að samþykkja frv. um ríkismat sjávarafurða og frv. sem hér er verið að ræða um, þá mun fólkið í landinu skilja það stjórnkerfi sem Sjálfstfl. hefur átt ríkan þátt í að koma hér á fót.

Reykvíkingar eiga örugglega eftir að krefja hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarsson svara við því hvers vegna hann samþykkti að gera ráðherra úr Framsfl. drottnara yfir Bæjarútgerð Reykjavíkur, drottnara yfir Ísbirninum, drottnara yfir Hraðfrystistöðinni, drottnara yfir því fólki sem lifir af sjávarútvegi hér í borginni.

Það er þess vegna ljóst, herra forseti, að þeim vinnubrögðum hefur verið beitt við þetta frv. að það er í fyrsta lagi lagt seint fram. Það er í öðru lagi við 1. umr. knúið á um það að umr. sé stytt vegna þess að málið þurfi að hafa hraðan framgang og því sé vísað til n. Það er í þriðja lagi knúið á um það að þær skoðanir sem fram eru settar í brtt. fái ekki eðlilega málsmeðferð. Og það er í fjórða lagi reynt að ljúka umr. hér með lengsta næturfundi í sögu þessa þings í áraraðir. Nú þegar klukkan er bráðum korter yfir fimm er ljóst að í áraraðir hefur hér á hv. Alþingi ekki verið haldinn fundur jafnlengi.

Ég vil minna hæstv. forseta á það að við 1. umr. þessa máls, þegar hann beindi þeim tilmælum til mín og annarra þm., sem þá voru á mælendaskrá en urðu við óskum hæstv. forseta um að greiða fyrir málinu, þá sagði ég: Við lok þessarar umr. vil ég aðeins árétta það sem hér var sagt áður, að hér hafa komið fram fjölmargar spurningar við umr. sem hæstv. ráðh. vegna takmarkaðs tíma svaraði ekki. Í trausti þess að þeim verði öllum svarað ítarlega og sómasamlega við 2. umr. er rétt að hagnýta sér ekki þann rétt sem mögulegur er skv. þingsköpum til að halda þessari umr. áfram. Treystum við því þá, hv. þm., að við upphaf 2. umr. um þetta mál muni hæstv. ráðh. gefa hv. þd. skýrslu sem í verða svör við þeim spurningum.

Þetta var grundvöllurinn að því samkomulagi sem þá var gert. Því miður hefur hæstv. sjútvrh. ekki orðið við þessum óskum, heldur eingöngu veitt hér mjög almennar upplýsingar. Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson lagði fyrir hann þessa spurningu fyrir mörgum dögum síðan: Hvað um rekstrargrundvöllinn í útgerðinni? Ekkert svar. Hv. þm. Svavar Gestsson spurði hér fyrr í þessum umr.: Hvað um rekstrargrundvöllinn í sjávarútveginum? Ekkert svar heldur. Þetta er aðeins ein af fjölmörgum spurningum sem hæstv. ráðh. hefur ekki svarað. Við hv. þm. stöndum í þeirri erfiðu stöðu, herra forseti, að þurfa hér, þegar komið er fram undir morgun, að standa í orðaskaki við ráðh. um það hvers vegna og hvort hann vill svara þessum spurningum. Því við viljum ekki sætta okkur við að hæstv. ráðh. komist upp með það að fá þetta alræðisvald í hendur án þess að gera tilraun til að svara. Hefði hæstv. ráðh. komið hér og rætt að nokkru þær upplýsingar sem liggja fyrir um rekstrargrundvöll útgerðarinnar þá hefði ég virt þá viðleitni og ekki gert neina slíka aths. Það hefur hann hins vegar ekki gert.

Ég hef hér í höndum skjal, dags. 22. nóv., frá Þjóðhagsstofnun um afkomu útgerðar og fiskvinnslu. Hér koma fram ýmsar upplýsingar sem væri mjög nauðsynlegt að fá afstöðu hæstv. ráðh. til. En hæstv. ráðh. virðir þingið ekki svars. Og ég spyr: Er sá ráðh., sem ekki gerir minnstu tilraun til þess hér að eiga eðlileg umræðusamskipti við þm., líktegur til þess að hafa ítarlegt samráð við aðra aðila um það hvernig hann framkvæmir þetta frv.? Það held ég ekki.

Ég vil nefna annað, hæstv. forseti, sem ég tel vera mjög mikið atriði í öllu þessu máli. Það er spurningin um það hvort eigi að heimila skipti á veiðileyfum eða ekki. Sumir einstakir þm. hafa rætt hér um sölu á veiðileyfum. Það má færa fyrir henni ýmis rök, mörg þeirra nokkuð sterk, að það geti á ákveðnum sviðum átt þátt í því að tryggja arðsemi í sjávarútvegi og hagkvæma nýtingu fjárfestingar. (Gripið fram í: Kannske í verslunarráði.) Já, það er margt til í því sjónarmiði, að það geti við ákveðnar kringumstæður verið nauðsynlegur þáttur, ég segi nauðsynlegur þáttur í því að tryggja hagstæða útkomu fyrir þjóðarheildina og sjávarútveginn. En hæstv. ráðh. hefur ekki fengist til þess hér í umr. að gera neina grein fyrir því að hve miklu leyti hann tetur að arðsemi fjárfestingar eigi að koma hér við sögu. Ég verð enn og aftur að lýsa undrun minni á því geðleysi Sjálfstfl. að sætta sig við það að þetta mál sé afgreitt hér úf úr þinginu án þess að nokkuð sé um það fjallað.

Hér hefur verið flutt brtt. sem heimilar skipti á veiðileyfum eftir ákveðnum reglum. Hæstv. ráðh. hefur ekki fengist til að fjalla um það mál hér. Og hv. þm. Friðrik Sophusson hristir höfuðið. Ég spyr: Eru það sómasamleg vinnubrögð að taka ekki þátt í umr. um það í þinginu hvort heimila eigi slík skipti eða ekki? Það hlýtur þó að vera mikilvægur þáttur í að tryggja það, ef ráðh. verður á varðandi þær reglur sem hann kýs að beita, að fólkið geti sjálft, sem sinnir fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækjunum, gripið til sinna ráða og komið sér upp ákveðnu skiptikerfi sín á milli í málinu. (Gripið fram í.) Ég þakka varaformanni þingflokks sjálfstfl. fyrir þá ábendingu. Það eru vissulega nokkur tímamót að kl. hálf-sex um morgun skuli varaformaður Sjálfstfl. birtast hér í salnum og hætta sér í námunda við ræðustólinn. Þó er það nokkuð ljóst að hann mun ekki hætta sér í ræðustólinn í þessari umr. (Gripið fram í: Við komumst nú ekki fyrir tveir.) Ég væri alveg reiðubúinn að gera hlé á ræðu minni ef hv. þm. Friðrik Sophusson vildi svara því sem ég spurði að hér og enginn sjálfstæðismaður hefur enn svarað: Með hvaða rökum eru þm. Sjálfstfl. reiðubúnir að fela ráðh. slíkt vald, annars vegar sem felst í frv. um ríkismat á sjávarafurðum yfir framleiðslukerfi sjávarútvegsins og hins vegar í því frv. sem hér er til umr. yfir veiðum í fiskveiðilandhelgi. Hvorki ráðh. Sjálfstfl. né þm. hafa gefið þingheimi eða þjóðinni eða kjósendum sínum eða flokksmönnum nokkurt svar við því með hvaða rökum þeir styðji slíkt, hvorki í málgögnum flokksins, blaðakosti sem hann á aðgang að, hér á Alþingi eða utan þings hefur nokkur einasti fulltrúi Sjálfstfl. veitt svar við þeirri spurningu. Hins vegar, eins og ég vakti athygli á áður en hv. þm. Friðrik Sophusson kom hér í salinn, hafa tveir þm. Sjálfstfl. mjög rækilega rökstutt gallana á þessu frv. og hvers vegna sé réttlætanlegt að vera á móti frv. — eða styðja það tregur og haltur eins og hv. þm. Halldór Blöndal.

En hitt stendur eftir, hv. þm. Friðrik Sophusson, að Sjálfstfl. hefur með aðild sinni að þessum tveimur frv. lagt hér til slíka ríkisdrottnun í grundvallaratvinnuvegi landsmanna að annað eins hefur ekki sést í íslenskri stjórnmálasögu í áratugi, og forustumenn Sjálfstfl., þeir dr. Bjarni Benediktsson, dr. Gunnar Thoroddsen og Jón Þorláksson, skrifuðu um það lærðar ritgerðir hvernig Sjálfstfl. bæri að tryggja aðgreiningu ríkisvaldsins og hvernig Sjálfstfl. bæri að tryggja það að í grundvallaratvinnuvegum væru fyrirtæki og athafnamenn óháðir afskiptum ríkisvaldsins, þannig að þið sem nú hafið verið kjörnir til að stjórna þessum flokki, þið skuldið þessum fyrirrennurum ykkar einnig svör við því hvers vegna þið hafið horfið frá þessari stefnu. (Gripið fram í: Ætlar þú að bera svörin til þeirra?) Það getur vel verið að þeir sjái um það sjálfir. En fólkið í flokknum mun örugglega kynna sér það. Og hv. þm. Friðrik Sophusson skuldar einnig Reykvíkingum svar við því hvers vegna hann ætlar að hunsa þau tilmæli sem hingað hafa borist inn í þingsalina frá útgerðarráði Bæjarútgerðar Reykjavíkur. (FrS: Hvers eiga Seltirningar að gjalda?) Seltirningar gjalda einskis í þessu efni, það er ómerkilegur útúrsnúningur, þegar útgerðarráð Bæjarútgerðar Reykjavíkur, eini aðilinn í Reykjavíkurborg sem hefur tjáð sig um þetta mál, stjórnendur eins stærsta fyrirtækisins hafa fyrir forgöngu flokksbróður hv. þm. Friðriks Sophussonar, formanns útgerðarráðsins, sent þinginu algera fordæmingu á þessu frv. Það er þó lágmarkskrafa að hv. þm. Friðrik Sophusson svari Reykvíkingum því hvers vegna hann styður frv.

Herra forseti. Ég hef hér nefnt nokkrar af þeim grundvallarspurningum varðandi rekstrarafkomu, varðandi arðsemi, varðandi skipti á veiðileyfum, sem hæstv. sjútvrh. hefur ekki fengist til að ræða í þessari umr. þótt þær spurningar hafi verið margítrekaðar. Hér hefur einnig verið spurt um siglingar fiskiskipa, með hvaða hætti eigi að taka tillit til þeirra í þessu kerfi. Við því hafa ekki heldur fengist nein svör. Það hefur verið spurt um það hvernig hæstv. ráðh. hyggist beita þessu valdi til að fyrirbyggja smáfiskadráp. Það hafa heldur ekki fengist nein svör við því. Það hefur verið spurt að því í þessum umr. hvernig eigi að skipta þessum verðmætum milli skuttogara annars vegar og minni fiskiskipa hins vegar. Hæstv. ráðh. hefur heldur í engu svarað því. Það hefur heyrst hér utan þingsala í dag að ýmsir af nánum ráðgjöfum ráðh., jafnvel hann sjálfur, séu að hugleiða að beita þessu kvótakerfi eingöngu á togarana. Og ég spyr hæstv. ráðh.: Er það rétt, sem hér hefur verið að heyrast í dag, að það sé til umr. að beita kvótanum eingöngu á togarana? Eða er það enn þá grundvallaratriði í þeirri gagnaöflun og undirbúningsvinnu sem hæstv. ráðh. stendur að að beita honum á öll fiskiskip? Ef hér er verið að gera till. um það í reynd að fela ráðh. vald til þess að ákveða kvóta eingöngu á togarana á næsta ári þá er hér verið að sigla upp í stórhættulegt kerfi. Ég spyr hv. þm. Sjálfstfl.: Hvaða tryggingu hafa þeir í hendi sér fyrir því að hæstv. ráðh. beiti ekki þessum kvóta eingöngu á togarana? Er nokkur slík trygging í þessu frv.? Hún er ekki til.

Þannig, herra forseti, má nefna ýmsar grundvallarspurningar sem snerta þetta stóra mál og hæstv. ráðh. hefur ekki gert minnstu tilraun til að svara. Ég hef lýst því áður hér í umr. að ég hef að mörgu leyti reynt hæstv. ráðh. að góðu samstarfi hér í þinginu áður. Ég verð að segja eins og er að mér kemur mjög á óvart þessi tregða ráðh. í umr. um þetta mál til að svara spurningum af þessu tagi. Ég spyr og hlýt að velta því fyrir mér: Hvað býr hér að baki? Auðvitað mundi maður virða hæstv. ráðh. ef hann kæmi hér og ræddi þessar spurningar og greindi frá því að varðandi sumar hefði hann ekki haft gögn í höndum, varðandi aðrar kæmi ýmislegt til álita og opnaði þannig nokkuð hug sinn gagnvart þinginu. Það hefur hann ekki gert. Þögnin ein er framlag hans til þessara umr. Og það er ekki leiðin til þess að fá þingið til að greiða fyrir og styðja raunhæfar lausnir á þessu mikla vandamáli.

Herra forseti. Hér hafa ýmsir á undan mér reifað mjög ýmsa grundvallarþætti varðandi höfuðatvinnuveg Íslendinga. Ég ætla ekki að endurtaka það sem þar hefur verið sagt. Hins vegar er það ljóst þegar klukkan er orðin hálf-sex að morgni að ríkisstj. hefur hafnað raunverulegum viðræðum við þingið um þetta mál.

Hæstv. ráðh. lagði málið þannig fyrir hér í upphafi að þetta mál væri hafið yfir flokkadrætti og hann vænti góðrar samvinnu við þm. alla um málið. Því hefur ítrekað verið beint til hæstv. ráðh. að hann hagaði störfum sínum með þeim hætti að þm. ættu kost á því að ræða við hann um málið og leita samkomulags um endanlega gerð þess. Nú er það ljóst að þetta samstarfstilboð var hjóm eitt. Ráðh. hefur með fulltingi meiri hl. sjútvn. og forseta þessarar hv. deildar haldið þannig á málum að ljóst er að um þetta mál hlýtur að verða mikill ágreiningur þegar það er afgreitt hér í þinginu. Sjálfsagt sýnir þessi umr. að það er uppgert mál í Sjálfstfl. að veita sjútvrh. þetta vald. Sjálfstfl. stendur á þeim tímamótum að hann hefur hafið til vegs mestu ríkisdrottnun sem þekkst hefur í íslensku efnahagskerfi. Ég sagði það hér fyrr í umr. um þetta mál að þeir menn sem fælu ráðh. slíkt vald gætu ekki, ef þeir vildu vera heiðarlegir, komið síðar og gagnrýnt ráðh. fyrir hvernig hann beitti því, vegna þess að sömu þm. hafa verið aðilar að því að veita ráðh. ótakmarkað umboð. Við hinir hér í þingsölum, sem erum ekki reiðubúnir að veita ráðh. slíkt umboð, vörum ríkisstj. og þá aðra sem með henni vilja standa í þessum efnum alvarlega við því að hér er verið að fara inn á hættulegar brautir, mjög hættulegar brautir.

Þessi ríkisstj. hóf feril sinn með því að slíta sundur friðinn við launafólkið í landinu. Þessi ríkisstj. stendur nú að því að slíta í sundur friðinn í þinginu varðandi stærsta hagsmunamál Íslendinga, fiskveiðar og fiskvinnsluna í landinu. Þeir menn sem þannig halda á málum og ganga fram með eindæma offorsi hér í þingstörfum taka á sig mikla ábyrgð. Þá blasir sú spurning við hvort hæstv. ríkisstj. hefur burði til að rísa undir þessari ábyrgð.

Herra forseti. Ég vil enn á ný við lok þessarar ræðu minnar ítreka þær spurningar sem bornar hafa verið fram til hæstv. sjútvrh. Ég vil enn fremur ítreka fsp. mínar til Sjálfstfl. og forustumanna hans, að þeir menn úr Sjálfstfl. sem styðja þetta frv. komi hér upp í ræðustólinn og geri þingheimi grein fyrir því hvers vegna þeir styðji frv. sérstaklega vil ég skora á þm. Sjálfstfl. úr Reykjavík að svara því, og þá einkum hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarsson, fyrrv. borgarstjóra, og hæstv. fjmrh., fyrrv. forseta borgarstjórnar Reykjavíkur, hvers vegna þeir hafna þeirri ósk, þeirri rökstuddu ósk sem þeim hefur borist frá einu stærsta útgerðarfélagi höfuðstaðarins.

Að lokum, herra forseti, hvernig stendur á því að þessir menn þora ekki í rökræður um þetta mál? Við höfum verið reiðubúnir til þess að skapa eðlilegan vettvang hér innan þings, jafnvel utan fundarstaða, herra forseti, til að tefja ekki störf deildarinnar, til að geta átt orðastað við þessa hv. þm. um mátið. Því hefur verið hafnað. Við höfum ekki átt þess kost að fá að hlýða á þeirra rök, hvorki innan eða utan þingsala. Af því er eingöngu hægt að draga tvær ályktanir. Annaðhvort hafa þessir menn ekki rök eða þá þeir þora ekki að birta þjóðinni og okkur þau rök. Hvor skýringin er rétt getur enginn ákveðið hér og nú, en þess væri óskandi að áður en þessi hv. deild hefur lokið umfjöllun sinni um málið hefðum við fengið að heyra svör hæstv. sjútvrh. og rök þessara hv. þm.