17.12.1983
Efri deild: 35. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2038 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Frsm. minni hl. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Mönnum hefur orðið nokkuð tíðrætt um ýmis atriði í máli mínu. Ég sé að flestir eru fjarstaddir núna, en mig langar samt til að víkja að þeim aftur fáeinum orðum.

Hv. þm. Eiður Guðnason taldi að ef þau rök mín stæðust að flugstöðin á Keflavíkurflugvelli væri liður í vígbúnaðarkeðju — ég tók reyndar fram að hér væri um lítinn lið að ræða — þá væri allur Keflavíkurflugvöllur það með sömu rökum. Þetta er vitaskuld alveg laukrétt hjá hv. þm. og ég tel nauðsynlegt að horfast í augu við þá staðreynd með tilliti til stöðu heimsmála í dag. Hins vegar tel ég, og ég hygg að hv. þm. sé mér einnig sammála í því efni, að hin ógnvænlega vopnastaða heimsins verði ekki leyst með því að við beitum orku okkar nú í að deila um aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu eða staðhætti á Keflavíkurflugvelli. Afvopnunarmál heimsins verða ekki leyst í því samhengi. Þessi flugstöð skiptir engum sköpum í þeim efnum, en hún er tengd þessum málum og það var það sem ég sagði.

Hv. þm. Árni Johnsen sakaði mig um eitthvað sem mig minnir að hann hafi kallað Alþýðubandalagsgarnagaui. Nú er verst að hann skuli vera fjarstaddur þannig að hann getur ekki borið hvort þetta er rétt munað hjá mér. Hvað sem hann á við þarna vil ég vísa því á bug einfaldlega með því að lesa fyrir hann kafla úr stefnuskrá Kvennalistans, með leyfi forseta:

„Við viljum draga úr umsvifum erlends hers á meðan hann er hér á landi því aukin hernaðarumsvif hvar sem eru í heiminum auka á vígbúnaðarkapphlaupið. Við viljum strangt eftirlit með starfsemi hersins. Við viljum að stjórnvöld skýri undanbragðalaust frá framkvæmdum og herbúnaði Bandaríkjahers hér. Við viljum minnka áhrif hersins í íslensku efnahagslífi svo að tryggt verði að afstaða til hans mótist ekki af efnahagshagsmunum. Við viljum að íslenskt atvinnulíf sé óháð veru hersins.“

Á þessari grein byggjum við Kvennalistakonur afstöðu okkar í þessu máli svo og því, eins og ég tiltók áðan, að við teljum þessa byggingu ekki vera forgangsverkefni eins og nú háttar í þjóðarbúskapnum.

Mig langar líka að víkja fáeinum orðum að þeim atriðum sem komu fram í máli hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar. Það var út af ákvæðum 2. gr. þessa frv. þar sem kveðið er á um að fella skuli niður ýmis gjöld af þeim búnaði og tækjum sem nota skal við þessa byggingu. Það er gott ef málum er þannig hagað að útboð eru í það litlum einingum að ekki sé mikil hætta á að samkeppnisaðstaða íslenskra aðila í þessi verk verði slæm. En mig langar aðeins til að minna á að þetta atriði gæti hins vegar hvatt til umframfjárfestingar innanlands þar sem nýir aðilar sjá sér þá hag í að fjárfesta í þeim búnaði sem hér um ræðir þar sem kjörin eru það góð. Slíkt mundi einfaldlega þýða slæma nýtingu á þeim fjárfestingum sem þegar eru gerðar á þessu sviði.

Hv. þm. taldi það auka á reisn þjóðarinnar að reisa glæsilega flugstöð. Ég tel svo sannarlega að glæsilegar og menningarlegar byggingar auki á reisn þjóðarinnar, en ég vil spyrja hv. þm.: Finnst honum það vera reisn að geta ekki staðið sjálfur fyrir sínum húsbyggingum?