17.12.1983
Efri deild: 36. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

50. mál, tímabundið vörugjald

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Mál það sem við erum að ræða nú hefur lengi verið hjá okkur í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar og er nú komið úr n. með þeim niðurstöðum sem hér hefur verið greint frá. Ég vil stuttlega gera grein fyrir afstöðu Kvennalistans í þessu máli.

Eins og menn vita voru þær hugmyndir á kreiki hjá okkur að æskilegt væri að lækka eitthvað það vörugjald sem hér um ræðir og lækka þar með neysluskatta ríkisins, en eins og hv. síðasti ræðumaður kom inn á mun nú hlutur ríkisins í smásöluverði þeirra vöruflokka sem hér um ræðir vera nærri 50%. Ég er út af fyrir sig hlynnt því að draga nokkuð úr þessari miklu neyslusköttun, einkum og, sér í lagi nú á tímum minnkandi kaupmáttar launa. Á hitt er þó einnig að líta, að þessi skattur er mikilvægur tekjustofn ríkisins og að nú þegar framlög ríkisins til mikilvægra atvinnu- og félagslegra mála eru skorin jafnmikið niður og fjárlög næsta árs kveða um orkar nokkuð tvímælis að lækka þennan skatt og skerða þar með enn frekar það fé sem til skiptanna er fyrir landsmenn alla.

Virðulegi forseti. Ég held að þetta vörugjaldsákvæði, sem við erum að fjalla um, sé ekki hægt að skoða eitt og sér, heldur verði það að endurskoðast í samhengi við fjármál ríkisins í heild. Á slíka endurskoðun tel ég rétt að setja viðráðanleg tímamörk til að tryggja að hún fari fram. Er ég því fylgjandi þeirri brtt. sem formaður n. flytur einn á þskj. 250 og kveður á um að umrætt vörugjald framlengist aðeins um fimm mánuði. Eins og nú háttar með stöðu ríkisfjármála og þær hugmyndir um nýja tekjustofna sem núv. ríkisstj. hefur uppi tel ég mikilvægt að rasa ekki um ráð fram og mun ég því ella greiða þessu frv. atkv. mitt.