25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

453. mál, dýpkunarskip

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær upplýsingar sem hér hafa komið fram varðandi kostnað við virkjun Blöndu og undirbúning þess máls. Varðandi þetta vil ég taka fram örfá atriði.

Í fyrsta lagi eru þær tölur sem hér hafa verið nefndar framreiknaðar til verðlags í sumar, þrátt fyrir að greiðsla hafi farið fram á eldra verðlagi. Ég tel rangt að tala um umframkostnað í þágu bænda sem nemi 237 millj. kr. Réttara væri að tala um umframkostnað vegna aðatsamnings, sem gerður hefur verið við hreppana sex, sem nemur samkvæmt framreiknuðu verðlagi 128.5 millj. kr. eða 4–5% af virkjunarkostnaði, svo sem áætlað var meðan samningar stóðu yfir. Sumt af því sem þar er tilgreint var þó óhjákvæmilegt að virkjunaraðili ynni þótt enginn samningur hefði verið gerður. Svo er til að mynda um færslu á gangnamannakofum, sem eru gerðir að umtalsefni í fsp. og færu annars undir vatn. Það segir sig sjálft að virkjunaraðili verður að færa þá og endurbyggja. Sama gildir um hluta af vegalögnum og vörslu, sem breytist vegna breytingar á vatnsvegum og lónstæði. Þar verður að endurbyggja mannvirki þótt enginn samningur hefði verið gerður. Þennan kostnað er því einnig óréttmætt að kalla að fullu í þágu bænda.

Af öðrum atriðum í sambandi við þennan svokallaða umframkostnað eru langveigamestir vegir að virkjunarsvæði, sem hér hefur verið skýrt frá og eru áætlaðir kosta 88.7 millj. kr., og raflína, sem er áætluð kosta 10.7 millj. kr. Þetta eru tæpar 100 millj. kr., eða mjög veigamikil hluti af þessum þætti, og verður ekki kallað í þágu bænda.

Fasteignakaup virkjunaraðila eru nauðsynleg til þess að hafa full eignarráð á því landi sem aðalframkvæmdir fara fram á og það er mál virkjunaraðila hvort samið er um tilteknar framkvæmdir á þeirri jörð sem hér hefur verið keypt, þ.e. Eiðsstaðir í Blöndudal.

Ég tel þakkarverðar þær upplýsingar sem gefnar hafa verið og mjög nauðsynlegt að málið sé túlkað þannig og liggi svo skýrt fyrir að ekki komi fram misskilningur, svo svo sem birtist í máli hv. fyrirspyrjanda og hætt er við að unnt sé með óvandaðri frásögn fréttamanna að læða inn hjá fjölda fólks í sambandi við slík mál.