17.12.1983
Neðri deild: 31. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (1790)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vil gera svofellda grein fyrir afstöðu minni til þessa máls:

Enginn dregur í efa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir í stjórn fiskveiða hér við land vegna minnkandi þorskafla. Það frv. sem hér er til afgreiðslu felur í sér eitt mesta valdaafsal frá Alþingi til framkvæmdavaldsins sem um getur í þingsögunni. Með samþykkt þessa frv. er sjútvrh. nánast fengið í hendur alræðisvald um stjórn fiskveiða hér við land á næsta ári. Slíkt valdaafsal úr höndum Alþingis í svo gífurlega stóru og mikilvægu máli, sem skipt getur sköpum um afkomumöguleika og lífsafkomu heilla byggðarlaga og landssvæða, er með öllu óeðlilegt. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa, að áður en valdaafsal eins og hér um ræðir fer fram sé Alþingi gerð grein fyrir með hvaða hætti sjútvrh. ætlar sér að nota svo gífurlegt vald sem honum er veitt, verði frv. samþykkt.

Ekkert liggur enn fyrir um hvernig ráðh. hyggst framkvæma stjórn fiskveiða á næsta ári. T.d. er ekkert um það vitað, hvort tekið verður tillit til þeirra sjávarplássa á Íslandi sem nær einvörðungu byggja lífsafkomu sína á fiskveiðum og fiskvinnslu. Ljóst má vera, verði það ekki gert eða aðrar ráðstafanir gerðar til tryggingar lífsafkomu þessara staða, að við blasir hrun í atvinnu og lífsafkomu þessa fólks.

Fjölda annarra spurninga er ósvarað og engar upplýsingar um þær hafa fengist. Meðan svo er að upplýsingar um grundvallaratriði og forsendur í stjórn fiskveiða næsta árs samkv. þessu frv. liggja ekki fyrir svo þm. viti í raun og veru til hvers samþykkt frv. kann að leiða er fásinna að standa að samþykkt þess. En frumskylda löggjafans er að gera sér grein fyrir því, til hvers sú löggjöf sem hér er sniðin kann að leiða fyrir einstakling og þjóðarheildina. (Forseti: Ekki ræðu.) Ég er að ljúka ræðu minni, herra forseti. Þetta er svo stórt og mikilvægt mál að ég tel fulla þörf á því að þm. fái að gera grein fyrir sinni afstöðu til þess.

Engar slíkar upplýsingar um hugsanlegar afleiðingar af samþykkt þessa frv. liggja fyrir. Þær upplýsingar verða að fást og þm. að fá þær í hendur áður en til þess er hægt að ættast að þeir samþykki frv. af því tagi sem hér um ræðir. Meðan upplýsingar um forsendur og nánari útfærslu á hugmyndum sjútvrh. varðandi stjórnun fiskveiða næsta ár ekki liggja fyrir er ógerlegt að veita honum slíkt vald sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Í ljósi þess segi ég nei.