17.12.1983
Neðri deild: 31. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2064 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Í þeirri atkvgr. sem nú fer fram er eingöngu verið að greiða atkv. um að skipuð skuli nefnd samkv. frv., skipuð fulltrúum fiskverkenda, útgerðarmanna, sjómanna og verkafólks, sem á að fjalla um framkvæmd fiskveiðistefnunnar. Það hefur þegar komið fram hjá tveimur hæstv. ráðherrum, Matthíasi Bjarnasyni og Matthíasi Á. Mathiesen, að þeir treystu sér eingöngu til að samþykkja 1. gr. frv. með því skilyrði að haft yrði samráð við hagsmunaaðila í sjávarútvegi. (Gripið fram í.) Því hefur verið lýst yfir af sjútvrh., en sá sami ráðh. hefur staðið að alls konar lagasetningum og aðgerðum án þess að hafa slíkt samráð. (Félmrh.: Er þetta ræða?) Það var frammíkall hjá hæstv. félmrh. sem rétt er að svara hér. Fyrst hann er að reyna að hafa áhrif á grg. mína fyrir mínu atkv. er rétt að ég fái að svara. — Hæstv. ráðh. hefur ekki leitað til samtaka sjávarútvegsins enn sem komið er, heldur eingöngu valið sjálfur þá einstaklinga sem hann hefur talið sér henta. Með þessari mgr. er verið að setja það skilyrði í lögin sem hæstv. tveir ráðherrar tilgreindu sérstaklega áðan að væri af þeirra hálfu alger forsenda fyrir því að frv. væri samþykkt. Þar með væri þingið að taka öll tvímæli af um að hæstv. sjútvrh. bæri lagaskylda til að hafa þetta samráð. Þess vegna segi ég já.