19.12.1983
Efri deild: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Núgildandi lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands eru númer 88 frá 31. maí 1976. Hafa verið gerðar á þeim þrjár minni háttar breytingar frá setningu þeirra með lögum nr. 42/1977, nr. 67/1979 og 38/1981. Frv. til laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands var lagt fram á Alþingi í febrúarmánuði 1976 eftir að hafa fengið ítarlega umfjöllun allt frá árslokum 1974 í nefnd sem skipuð var bæði fulltrúum hagsmunaaðila og alþm. Má segja að samþykkt frv. á Alþingi í maímánuði 1976 hafi verið veigamesti þátturinn í þeirri endurskoðun laga og reglugerðar um fiskveiðar sem gerð var um það leyti sem Íslendingar fengu full yfirráð yfir 200 sjómílna fiskveiðilandhelgi sinni.

Enda þótt vel hafi verið að þessum lögum staðið og í þeim fjölmörg nýmæli á þeim tíma hefur þróunin í fiskveiðum og stjórnun orðið að mörgu leyti önnur en menn hugðu þegar lögin voru samþykkt. Ástand fiskistofna, aukinn, stækkaður og bættur fiskveiðifloti og ný tækni hefur valdið því hér eins og annars staðar að gripið er til nýrra og virkari stjórnunaraðgerða í veiðum og vinnslu í því skyni að nýta nytjastofna okkar á sem skynsamlegastan hátt. Nú er svo komið að beitt er ýmsum aðgerðum við stjórnun veiða sem engum komu í hug fyrir nokkrum árum. Má sem dæmi nefna þær sóknartakmarkanir sem verið hafa á þorskveiðum undanfarin ár og skiptingu aflakvóta milli veiðarfæra og báta.

Þar sem lögin frá 1976 hafa að ýmsu leyti reynst ófullnægjandi sem lagastoð fyrir ýmsum ákvörðunum varðandi skipulag veiða hefur verið leitað halds í lögum nr. 44 frá 5. apríl 1948, en í þeim er víðtæk heimild til að setja reglur til verndar fiskimiðum í fiskveiðilandhelgi. Hins vegar hefur þetta skapað ýmis vandamál þar sem viðurlög við brotum á lögunum frá 1948 og lögunum frá 1976 eru mjög mismunandi. Enn fremur heimila lögin frá 1948 aðeins útgáfu reglna til verndunar fiskimiðum og hefur það skapað nokkra óvissu um lagagildi sumra reglna varðandi stjórnun fiskveiða sem nauðsynlegar hafa þótt og fyrirsjáanlegt er að þurfi að beita í framtíðinni.

Þá má og nefna að gildissvið laganna frá 1948 og 1976 er í mörgum tilvikum bundið við fisk og fiskveiðar, en nú eru stundaðar veiðar á ýmsum öðrum tegundum sjávardýra og er full ástæða til að setja heildarlög sem taka einnig til nýtingar þessara stofna.

Þann 4. maí 1982 skipaði þáv. sjútvrh. Steingrímur Hermannsson nefnd til að endurskoða lög nr. 81/1976, um veiðar í landhelginni. Fulltrúar hagsmunaaðila áttu sæti í þeirri nefnd. Í janúarlok 1983 skilaði nefndin frv. til l. um veiðar í fiskveiðilandhelginni til ráðh. Ekki tel ég ástæður til að tíunda hér þær breytingar sem nefndin lagði til að gerðar yrðu á gildandi lögum en vísa í þess stað til grg. með frv. Ýmissa orsaka vegna var þetta frv. ekki lagt fram á síðasta þingi. Þurfa ýmsir þættir þess frekari athugunar við. Nauðsynlegt er að halda þeirri vinnu áfram, m.a. er mjög mikilvægt að breyta reglum varðandi stærð skipa og ákvörðun um landhelgislínu. En rétt er að taka fram að nefndin lagði til varðandi landhelgislínur að ráðh. fengi heimild til að breyta þeim með reglugerð. Að mínu mati er mjög óheppilegt að gera það með þeim hætti og rétt að athuga betur hvort ekki sé hægt að komast hjá því því mjög mikilvægt er að reglur um landhelgislínurnar séu fast mótaðar. Það er mikill þrýstingur á það alla tíð að breyta þessum línum og þess vegna getur verið mjög varhugavert að hafa það ekki bundið algerlega með löggjöf.

Hins vegar ber brýna nauðsyn til að þær breytingar sem lagðar eru fram í þessu frv. nái fram að ganga og eru ákvæði frv. sem hér eru lögð fram í meginatriðum efnislega samhljóða tillögum þeirrar nefndar sem ég vitnaði til.

Meginrökin fyrir breytingum á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi í þá átt að veita sjútvrh. auknar heimildir frá því sem nú er til stjórnunar og takmörkunar á fiskveiðum í fiskveiðilandhelginni eru þessi: Vegna þess að ástand fiskistofna, einkum þorsks, hér við land er óvenjulega slæmt er brýn þörf á vísindalegri stjórnun á fiskveiðum landsmanna í enn ríkari mæli en nú á sér stað. Helstu hagsmunasamtök í sjávarútvegi og Fiskiþing hafa eindregið óskað eftir því að stjórnvöld auki verulega stjórn fiskveiðanna. Eigi að auka stjórn fiskveiðanna frá því sem nú er verður að umbylta núverandi fyrirkomulagi. Slíkt krefst rýmri heimilda til stjórnunar en nú eru í gildi. Skammt er liðið síðan Hafrannsóknastofnun setti fram skýrslu um alvarlegt ástand helstu fiskistofna og bregða verður skjótt við til þess að koma megi á aukinni stjórn og takmörkun á fiskveiðum á næsta ári í samræmi við þær tillögur um aflamörk sem þegar hafa verið settar fram og kynntar.

Vil ég þá víkja að einstökum greinum frv. Í 1. gr. er fyrst kveðið á um að ráðh. fái heimild til að ákveða hámark þess afla sem veiða má úr einstökum fiskistofnum og af sjávardýrum á ákveðnu tímabili að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar. Hér er gengið lengra en í lögum nr. 81/1976 þar sem slík heimild er bundin við að fiskistofn sé hættulega ofveiddur og viðkoma hans því í hættu.

Nauðsyn þess að auka vald ráðh. í þessu tilliti byggist fyrst og fremst á því að líta verður á alla fiskistofna og veiðar á þeim í heild sinni en ekki hvern og einn út af fyrir sig. Ef takmarka þarf verulega sókn í einn fiskistofn vegna þess að hann er í yfirvofandi hættu eykst sóknin óhjákvæmilega í aðra stofna með þeim afleiðingum að ofveiði getur átt sér stað á tegundum sem áður voru í jafnvægi. Af þessu höfum við bitra reynslu. Eitt nýjasta og gleggsta dæmið um þetta er þegar loðnuskipaflotinn sneri sér að þorskveiðum eftir að loðnuveiðar voru bannaðar. Sóknin í þorskstofninn jókst og hefur það átt sinn þátt í því hvernig nú er komið fyrir stofninum. Einnig má geta þess að sókn í karfa hefur verið mjög verulega aukin m.a. vegna takmarkana á þorskveiðum og hefur það orðið þess valdandi að karfinn er mjög mikið veiddur. Það liggur nokkuð ljóst fyrir að sú sókn sem hefur verið í karfann á undanförnum árum getur ekki haldið áfram í mjög mörg ár. Allt bendir til þess að stofninn sé í allverulegri hættu.

Vegna þessa samspils er ekki nægilegt að setja aflahámark einungis á þá fiskistofna sem eru hættulega ofveiddir heldur verður jafnframt að setja aflahámark á aðra helstu nytjastofna til að forða þeim frá ofveiði. Í fiskverndarmálum ber brýna nauðsyn til að grípa til aðgerða í tæka tíð áður en skaðinn er skeður. Því er nauðsynlegt að hægt sé að grípa inn í gang mála þegar m.a. vísindaleg rök mæla með því að svo sé gert.

Í 1. gr. er einnig gert ráð fyrir að ráðh. fái heimild til að skipta hámarksafla úr hverjum fiskistofni milti einstakra veiðarfæra, fiskiskipagerða og einstakra skipa. Gert er ráð fyrir að ráðh. geti ákveðið skiptingu hámarksaflans milli skipa m.a. með hliðsjón af fyrri veiðum skipanna, stærð og gerð þeirra, svo og heimilað flutning á úthlutuðum aflakvóta milti skipa. Heimild til þess sem hér hefur verið rakið er nauðsynleg þegar hámarksafli úr einstökum fiskitegundum er verulega takmarkaður eins og nú verður raunin með helstu fiskistofna okkar.

Heimild ráðh. til að skipta þeim afla sem til skiptanna er hverju sinni gerir kleift að tryggja öllum, sem nytjað hafa fiskimiðin, rétt til að gera það áfram og að jafna tímabundnum aflasamdrætti réttlátlega niður á öll skip í landinu. Slík niðurjöfnun er nauðsynleg þegar áföll eins og það sem við nú stöndum frammi fyrir ber svo skyndilega að garði. Stjórnvöld geta með engu móti dæmt skip fyrir fram úr leik. Tíminn einn verður að leiða í ljós hvort skip stöðvast eða ekki. Á þessari stundu er ekki hægt að segja til um með fullri vissu hvernig staðið verður að þessari skiptingu, þ.e. hvort aflakvóti verður settur á öll fiskiskip eða gengið eitthvað skemmra í þá átt.

Þá liggur ekki endanlega fyrir hvernig skipta megi réttlátlega á milli skipa, t.d. hvort eigi að miða við veiði þeirra undangengin þrjú ár eða hvort tillit skuli taka til annarra þátta, t.d. stærðar þeirra svo eitthvað sé nefnt. Ég vil taka fram í þessu sambandi að nú er unnið að því að reikna út aflakvóta skipa fyrir næsta ár miðað við reynslu undanfarinna ára og veiði skipanna undangengin þrjú ár. Það er margt sem mælir með því að sú veiði sé lögð til grundvallar því í flestum tilfellum gefur aflinn góða mynd af því hvernig viðkomandi skipum hefur gengið og ætti því að gefa allgóða vísbendingu um hver afli þessara skipa gæti orðið á næsta ári. Hitt er svo annað mál að ýmis vandamál koma upp, m.a. í þeim tilvikum að skip hafa ekki verið að veiðum nema t.d. í eitt ár eða alls ekki verið að veiðum, og á ég þar við ný skip. Einnig getur verið um það að ræða að skip hafi lent í sérstökum óhöppum og verið frá veiðum. Því er nauðsynlegt að taka upp hlutlæga reglu sem tekur einnig til þessara vandamála og að því er nú unnið í þeirri ráðgjafarnefnd um sjávarútvegsmál sem ég skipaði í nóv. s.l. Nefndin hefur þegar skilað af sér tillögum um aflahámark á næsta ári eftir að Hafrannsóknastofnunin lagði fram tillögur í þeim efnum og í framhaldi af því hefur verið ákveðið hvert skuli vera aflamagn fyrir næsta ár. Nefndin vinnur nú að því að semja tillögur um skiptingu aflans með aðstoð Fiskifélags Íslands, en Fiskifélagið hefur mjög nákvæmar upplýsingar um aflann á undanförnum árum bæði að því er varðar einstakar tegundir, veiðar einstakra skipa o.s.frv.

Þær aðferðir sem nefndar hafa verið og taldar eru koma til greina hafa að sjálfsögðu bæði kosti og galla sem þarf að vega og meta. Rétt er að taka fram að stjórnvöld hafa nú betri möguleika en áður til að vega og meta hinar ýmsu stjórnunarleiðir sem til greina koma við þessar takmarkanir þar sem nú er hægt að prófa þær í þar til gerðu sjávarútvegslíkani sem spáir um framvinduna sé hin eða þessi leið valin. Gerð þessa reiknilíkans til að vega og meta áhrif breytinga á fiskveiðistefnu á afla og afkomu hefur staðið yfir í fjögur ár. Verkið hefur verið unnið í samstarfi nokkurra stofnana, einkum Raunvísindastofnunar Háskólans og Hafrannsóknastofnunar að frumkvæði sjútvrn. Markmið starfsins var að gera reikningslegt líkan af sjávarútveginum byggt á reynslu margra undangenginna ára sem gæti spáð nokkur ár fram í tímann, m.a. um þorskafla og afkomu veiðanna, að gefnum ákveðnum forsendum, svo sem um stærð, gerð og samsetningu fiskiskipaflotans, fiskveiðistefnu og ástand fiskistofna. Þetta reikningslíkan er þegar komið í notkun til að meta hinar ýmsu stjórnunarleiðir samhliða því að sami starfshópur og var við gerð líkansins vinnur að endurbótum og útvíkkun á reikningsaðferðum við stofnstærðarmat og mælingu sóknar í fiskistofna. En þessi vinna kom að allmiklu gagni við ákvörðun aflamarks fyrir næsta ár.

Með öðrum heimildum í þessari grein eins og þeirri að ráðh. geti sett reglur um leyfilega sókn tiltekinna gerða fiskiskipa með tilteknum veiðarfærum í ákveðna nytjastofna er m.a. verið að veita afdráttarlausari heimild til sóknartakmarkana þeirra sem notaðar hafa verið við takmörkun á þorskveiðum undanfarin ár, þ.e. svokallað skrapdagakerfi og þær takmarkanir sem bátar hafa sætt, t.d. páskastopp, stytting vetrarvertíðar, takmörkun netafjölda og fleira.

2. gr. frv. fjallar um auknar heimildir til dragnótaveiða. Öllum er kunnugt um að orðið hefur alvarlegur samdráttur í sölu á saltfiski og skreið undanfarið. Vegna þessarar óvissu á markaði er vert að íhuga hvort við getum með einhverjum hætti breytt okkar veiðiaðferðum þannig að fiskurinn sé gjaldgengari í flestar vinnslurásir, auka þannig veiðar í þau veiðarfæri sem skila betri fisk á kostnað þeirra sem lakari fiskinn veiða.

Mín skoðun er sú að við verðum með einhverjum hætti að reyna að auka veiðar með dragnót. Ég held að dragnótin geti í mjög mörgum tilvikum leyst netin af hólmi og skapað okkur miklu betra hráefni. Dragnótin hefur þá kosti að einfalt er að stjórna kjörhæfni veiðarfærisins sem tryggir að í hana veiðist ekki smáfiskur. Veiðarfærið er ódýrt og útgerðarkostnaðurinn sáralítill miðað við flestar gerðir veiðarfæra. Í núgildandi lögum eru heimildir til dragnótaveiða bundnar við báta sem eru minni en 20 metrar og við veiðitímabilið 15. júní til 30. nóv. ár hvert. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að heimilt sé fyrir ráðh. að veita leyfi til dragnótaveiða líkt og til annarra veiða sem háðar eru leyfum. Í þessu sambandi má geta þess að Norðmenn hafa aukið heimildir til dragnótaveiða í stað netaveiða og á s.l. vertíð stunduðu 150 norsk skip dragnótaveiðar í stað netaveiða með góðum árangri.

Hitt er svo annað mál að það hentar ekki á öllum svæðum vegna þess að það þarf að vera góður botn en netaveiðar fara að sjálfsögðu einnig fram á ósléttum og slæmum botni og í þeim tilvikum er ekki hægt að koma við dragnótaveiði. Rétt er að það komi fram að margvíslegir fordómar hafa verið í garð þessa veiðarfæris og hefur það af mörgum verið talinn hinn mesti bölvaldur. Þetta eru eftirstöðvar frá því að fjöldi dragnótabáta stundaði afleitar veiðar með smáriðnum vörpum sem engu slepptu. Í þessum efnum verður að fara af varúð og gæta hófs eins og í öðru. Við þurfum að þróa veiðarfærið í okkar þágu og við megum t.d. ekki nota það eins og þorskanót. Þess vegna þarf eins og með aðrar leyfisbundnar veiðar að móta reglur um gerð og notkun veiðarfærisins.

3. gr. frv. fjallar um leyfisbindinguna, en leyfisbinding veiða hefur viðurgengist hér á landi um langt skeið. Munu rækjuveiðar vera fyrsti veiðiskapurinn sem stjórnað var með leyfafyrirkomulagi. Með auknum takmörkunum á veiðum hafa jafnframt aukist afskipti stjórnvalda af þeim og er nú svo komið að togveiðar, línuveiðar og handfæraveiðar eru nær einu veiðiaðferðirnar sem ekki eru háðar leyfum stjórnvalda. Eins og kunnugt er eru heimildir til að gera ákveðnar veiðar leyfisbundnar ákveðnar í lögum eða reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim. Í höfuðatriðum er tilgangur með leyfakerfi tvíþættur. Í fyrsta lagi gerir það stjórnvöldum kleift að hafa áhrif á hverjir og hve margir geti stundað tilteknar veiðar á tilteknum svæðum. Í sumum tilfellum fá aðeins þeir leyfi sem búsettir eru við veiðisvæðin eða hafa stundað veiðarnar áður. Eins er oft nauðsynlegt að binda útgáfu veiðileyfa við ákveðna stærð skipa. Reynast þessar takmarkanir oft nauðsynlegar ef margir aðilar sækja um leyfi til sömu veiða. Í öðru lagi eru skipstjórum skipa settar ákveðnar reglur í leyfisbréfum sem þeim ber að fara eftir við veiðarnar, t.d. hámarksaflamagn, veiðisvæði, veiðarfæri, reglur um meðferð afla o.s.frv. 5. gr. frv. fjallar um auknar heimildir til togveiða.

Þegar svo er komið að við verðum að takmarka veiðar á helstu nytjastofnum okkar eins og raun ber vitni verðum við að beina sókn hluta flota okkar í þær tegundir sem má vera að séu vannýttar. Það sem hér kemur helst til greina eru ýmsar kolategundir og steinbítur. Skv. núgildandi lögum eru togveiðar bannaðar á mörgum góðum kola- og steinbítssvæðum. Til að nýta megi þessa stofna er nauðsynlegt að hafa í lögum heimild fyrir rn. til að geta leyft takmarkaðar togveiðar á þessum svæðum. Með því móti er mögulegt að beina hluta flota frá þorskveiðum í kola- og steinbítsveiðar á ýmsum árstímum. Ég vil taka fram að það er einsýnt að þessari heimild verður að beita með varúð. Þegar þessi svæði eru ákveðin er nauðsynlegt að undirbúa það vel. Sömuleiðis þarf að fylgjast vel með veiðum, aflasamsetningu, stærð fisks o.s.frv.

Rétt er að taka fram að verði frv. þetta að lögum er óhjákvæmilegt, eins og ég hef áður vikið að, að endurskoða hinar almennu togveiðiheimildir skv. 3. gr. laganna. Verður slík athugun og endurskoðun þegar hafin og væri þá e.t.v. hægt að leggja frv. um þetta efni fram síðar í vetur. Endurskoðun þessi tæki þá einnig til réttinda einstakra skipa en mikið misræmi ríkir í þeim efnum og oft óeðlilegur vafi. Í þeirri endurskoðun má einnig taka til athugunar ýmislegt annað í lögum eftir að betur er ljóst hver verður niðurstaða um fiskveiðistefnu og stjórnun veiðanna næsta árið þegar niðurstaða hefur fengist.

Virðulegi forseti. Á mjög margan hátt ríkja óvenjulegar aðstæður í okkar fiskveiðum. Nauðsynlegt er að nýta þær miklu auðlindir sem eru við landið af fullri varúð og reyna að búa þannig um hnútana að þær geti nýst komandi kynslóðum sem allra best. Þessi fiskimið hafa alltaf verið grundvöllur búsetu í landinu, grundvöllur allra þeirra framfara sem hér hafa orðið og við sjáum í reynd enga aðra auðlind sem gæti komið í staðinn. Þegar til lengdar lætur leiðir óheft sókn í þessa auðlind til ofnýtingar á fiskistofnunum. Hver einstakur útgerðarmaður og sjómaður skeytir oft á tíðum ekki nægilega um áhrif eigin sóknar á afla og aflabrögð annarra. Þess vegna verður að skapa reglur sem tryggja að heildarhagsmunir þjóðarinnar séu fyrst og fremst hafðir í huga við nýtingu þessara auðæfa. Einnig er rétt að taka fram að sveiflur í tekjum sjávarútvegsins hafa mikil áhrif. Þessar tekjur eru uppistaðan í okkar útflutningstekjum og hafa ekki eingöngu áhrif á afkomuna í greininni sjálfri heldur hafa þær áhrif á allan þjóðarbúskapinn. Stuðla verður að sem mestu jafnvægi þannig að jafnar framfarir verði í hagkerfinu. Mikil veiði eitt árið sem getur orsakað mun minni veiði annað árið veldur því að okkar hagkerfi verður í stöðugum sveiflum.

Komið hefur fram í umr. um þetta mál að það hefði mátt standa með öðrum hætti að undirbúningi þess og það hefði þurft að koma mun fyrr fram. Það er út af fyrir sig alveg rétt að æskilegt hefði verið að mál þetta hefði komið fram mun fyrr svo að gefist hefði betri tími til að fjalla um það hér á Alþingi. Það er nú svo að miklar deilur hafa verið um það og skiptar skoðanir á undanförnum árum hvernig stjórnun veiðanna skuli vera háttað. Ég vil taka fram að sú nefnd sem skilaði af sér á s.l. vetri og var skipuð fulltrúum hagsmunaaðila lagði eindregið til að þær stjórnunaraðferðir eða möguleikar til þeirra stjórnunaraðferða sem hér er fjallað um væru fyrir hendi. Hins vegar hafa hin ýmsu hagsmunasamtök í sjávarútveginum ekki viljað ganga eins langt áður fyrr og þau eru tilbúin til að gera nú.

Að mínu mati var ekki hægt að undirbúa þetta mál með öðrum hætti en þeim að kynna sér sem best viðhorf hinna ýmsu aðila. Það hef ég gert m.a. með fundum með hagsmunaaðilum víðs vegar um landið, útvegsmönnum bæði á Norðurlandi, Vesturlandi, Suðurnesjum, Vestmannaeyjum og Austurlandi. Ég hef einnig sótt fundi samtaka í sjávarútveginum, svo sem þing Farmanna- og fiskimannasambandsins, aðalfund Landssambands ísi. útvegsmanna og Fiskiþing. Áður en Fiskiþing hófst kynnti ég fyrir nm. í sjútvn. þingsins drög að frv. um stjórnun veiðanna og einnig vissu fulltrúar á Fiskiþingi um þau drög. Strax að loknu Fiskiþingi var gengið frá frv. þar sem voru teknar upp heimildir sem gerðu kleift að beita þeim stjórnunaraðferðum sem Fiskiþing lagði til. Strax eftir þá helgi eða á mánudeginum var það sent þm. til þess að þeir gætu tekið það fyrir í sínum þingflokkum. Hygg ég að það hafi verið gert miðvikudaginn eftir að Fiskiþingi lauk. Á fimmtudeginum, ef ég man rétt, átti ég fund með sjútvnm. og fjölluðum við þá enn um frv. og hugsanlegar breytingar á því.

Almennt hefur komið fram að mönnum þykir helsti gallin við þetta frv. það mikla vald sem sjútvrn. fær ef það verður að lögum. Ég get fyllilega tekið undir það og á margan hátt er tekið tillit til þess í frv. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að lögin gildi aðeins til eins árs sem er ekki venjulegt um löggjöf sem þessa. Með því er verið að undirstrika að hér sé um tilraun að ræða sem þurfi að taka upp, en nauðsynlegt að endurskoða svo fljótt sem auðið er.

Í öðru lagi kemur skýrt fram í frv. að samráð verði haft við sjútvn. þingsins og einnig kemur skýrt fram í grg. að náið samráð verði haft við hagsmunaaðila. Það samráð verður með þeim hætti, eins og þegar hefur komið fram, að skipuð hefur verið ráðgjafarnefnd sem í eru fulltrúar frá þeim stofnunum sem helst vinna að málefnum sjávarútvegsins og frá fulltrúum hagsmunaaðila, þ.e. útgerðarmanna, fiskvinnslu og sjómanna. Þessi ráðgjafarnefnd mun leggja fram tillögur um stjórnun veiðanna á næsta ári. Þegar þær liggja fyrir verða þær bornar undir fulltrúa hagsmunaaðila í sjávarútveginum, en um langan tíma hefur þróast samráð við þessa aðila og eru þeir oft kallaðir saman í sjútvrn. Ég hef þegar rætt við þessa aðila á fundi í s.l. viku og tjáði þeim með hvaða hætti þessi samráð færu fram og voru þeir, eftir því sem ég best veit, ánægðir með með hvaða hætti það yrði gert.

Ég spurði hagsmunaaðila sérstaklega að því hvort þeir teldu ekki að samráð við þá hefði verið mjög styrkt með því að setja upp þá ráðgjafarnefnd í sjávarútvegsmálum sem skipuð var í lok nóvember og var einróma álit aðila að svo væri. Ég vænti þess að menn hafi fulla vissu fyrir því að samráð við þessa hagsmunaaðila verði mjög náið, enda er í reynd ekki hægt að taka upp breytta tilhögun stjórnunar nema í mjög nánu samráði við þessa aðila. Þeir hafa tekið á málum af mikilli ábyrgð að mínu mati og ráðgjafarnefndin hefur sent ábendingar um nauðsynlegar lagaheimildir vegna stjórnunar fiskveiða 1984. Í þeim ábendingum kemur m.a. eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Nefndin bendir á eftirfarandi aðferðir sem slík lög þyrftu að rúma.“ Er þá átt við breytta löggjöf um stjórnun veiða.

„1. Allar fiskveiðar í íslenskri fiskveiðilögsögu verði bundnar leyfi.

2. Heimilt sé að setja aflahámark á einstaka nytjastofna fyrir ákveðið tímabil innan árs, vertíðar eða árs.

3. Heimilt sé að skipta leyfilegum afla af hverri tegund milli skipa, m.a. með hliðsjón af afla á undanförnum árum, stærð þeirra og gerð.

4. Heimilt sé að flytja úthlutað aflamark á milli skipa að hluta til eða öllu leyti eftir því sem hlutaðeigendur koma sér saman um, en slíkur flutningur verði tilkynntur sjútvrn. þegar í stað.

5. Ef veiðum verður stjórnað með aflamörkum á skip í auknum mæli þarf að vera lagastoð til þess að rýmka veiðiheimildir, ekki síst til veiða á fisktegundum sem ætlað er að nýta betur en gert hefur verið. Í þessu fælist m.a. að rýmka þyrfti heimildir til dragnótaveiða verulega og leyfa togveiðar innan 12 mílna marka á kola- og steinbítsslóð. Einnig þarf að huga að því að endurskoða ákvæði um möskvastærð með tilliti til veiða á vannýttum fisktegundum. Almenn endurskoðun á togveiðiheimildum og mörkum á milli togveiðisvæða og annarra veiðistaða virðist einnig nauðsynleg við þessar breyttu aðstæður. Síðastnefnda málið þarfnast nánari athugunar og þarf að undirbúa betur en nú er kostur fyrir næstu vertíð.

6. Þörf er á skipulegu samráði við hagsmunaaðila til þess að ráða fram út álita- og ágreiningsmálum ef til þess kæmi að beita kvótakerfinu. Ekki þyrfti þó að lögfesta þetta, en tengja það lagasetningunni með yfirlýsingum ráðh.

7. Endurskoða þarf framkvæmd laga um upptöku ólögmæts sjávarafla með það fyrir augum að allur afli sem á skip kemur verði færður að landi. Leitað verði leiða til þess að veita nauðsynlega hvatningu í þessu skyni til þeirra sem hlut eiga að máli.“

Þessar ábendingar frá nefndinni sem eru undirskrifaðar af Óskari Vigfússyni, Kristján Ragnarssyni, Sigurði Markússyni, Þorsteini Gíslasyni, Jakob Jakobssyni, Jóni Arnalds og Jóni Sigurðssyni eru í reynd að mestu leyti efni þess frv. sem ég hef hér rakið.

Ég sé ekki ástæðu, virðulegi forseti, til að hafa lengra mál um þetta frv. Það hefur þegar orðið mikil umr. um það og er það mjög gott. Eðlilegt er að um það séu nokkuð skiptar skoðanir en málið verður samt að skoða í ljósi þess að við stöndum frammi fyrir mjög miklum erfiðleikum í sjávarútveginum og miklu skiptir fyrir ástand þjóðmála á næstu árum að tekið verði á þessum vandamálum af fullri einurð. Ég er ekki með þessu að segja að þetta frv. sem slíkt skipti þar algerlega sköpum, en það gerir okkur þó kleift að draga úr kostnaði við veiðarnar, það er enginn vafi á því. Það gerir okkur einnig kleift að koma málum þannig fyrir að aflaverðmæti aukist og meðferð aflans verði betri. Ef þær heimildir sem um getur í frv. eru ekki veittar er mín skoðun sú að mun minni líkur séu til þess að okkur takist að draga úr kostnaði við veiðarnar og auka verðmæti aflans.

Hér er vissulega um tilraun að ræða, en mikilvæga tilraun sem gæti varðað leiðina í framtíðinni. Aldrei verður tekið upp kerfi eða stjórnun veiða sem gilda mun um alla framtíð. Það verður að vera sveigjanleiki í stjórnuninni eftir aðstæðum á hverjum tíma, en nú eru þær aðstæður að ekki verður hjá því komist að auka afskipti af veiðunum til nokkurra muna.

Ég vil að lokinni þessari umr. leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn.