19.12.1983
Neðri deild: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2153 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

Um þingsköp

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það líður nú á þann tíma sem við höfðum hugsað okkur til fundar í fjh.- og viðskn. og ég vona nú að þessum þingskapaumr. gæti farið að ljúka.

Ég tel að það sé mjög óeðlilegt að ímynda sér að hægt sé að hespa af 1. umr. um mál eins og kjördæmamálið á fáum mínútum. Það er eftir mjög lítið af deildarfundartíma og það er samkomulag um nokkur mál sem verða að fá afgreiðslu áður en þingi er frestað. Ekki er við öðru að búast en ýmsir þurfi að tjá sig um þetta mál og ekki bara þeir sem tóku þátt í mótun þess í fyrravetur. Það eru hér margir nýir þm. Það eru hér tveir nýir stjórnmálaflokkar, sem ekki hafa tekið svo að ég viti endanlega afstöðu til þessa máls. Það er ekkert sem bendir til annars en að menn þurfi að taka sér nokkurn tíma til að ræða málið.

En hvað liggur á að þoka málinu áfram fyrir jól? Sú röksemd hefur komið fram að það sé nauðsynlegt að kjósa stjórnarskrárnefndir sem starfi í þinghléi og þeim sé heppilegt að starfa í þinghléi. Ég vil mótmæla þessu, því að með því að starfa í þinghléi er verið að útiloka utanbæjarþm. frá þátttöku í þessum nefndum. Ég vona að ekki sé meiningin að koma í veg fyrir að utanbæjarmenn, sem eru bundnir við störf í sínum kjördæmum og þurfa að fara þar um og halda fundi og eiga mjög óhægt með að sækja fundi hér til Reykjavíkur, taki þátt í mótun málsins.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson taldi fráleitt ef einhverjum sem hefði einhverjar efasemdir um þetta kosningalagafrv. ætti að haldast uppi að beita ræðuvaldi sínu, eins og hann orðaði það. Ég hélt satt að segja á laugardagsnóttina að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson væri mikill vinur málfrelsisins og vildi lofa mönnum að hafa tækifæri til að tjá sig úr ræðustól. Ég fullvissa hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson um að þessi ríkisstj. kemur til með að sitja lengi enn og hann verður bara að hafa biðlund og una sér við það að skrifa í Þjóðviljann, létta á sér þar, og koma svo hér sem varamaður og taka glæsilegan þátt í þingstörfum af og til. Það er ekki að kosningum komið og þess vegna liggur ekkert á að afgreiða þetta mál. Það getur vel beðið að taka það til 1. umr. þangað til eftir þinghlé og síðan höfum við allt vorþingið til þess að starfa að málinu.

En ég vil ítreka það við hæstv. forseta að reyna nú að hafa áhrif á að nefndir geti tekið til starfa. Annars verðum við að fá og er reyndar augljóst að við þurfum að fá lengra fundarhlé en til kl. 11.