19.12.1983
Neðri deild: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir það.

Hæstv. forsrh. upplýsti áðan að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu samið um þetta mál, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson. Þess vegna er rétt að það sé spurt að því innan Framsfl. fyrst, hvað sú ríkisstj. sem samdi um þetta mál hafi gert til að vinna að þeim efnisatriðum sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson var að vitna hér í, áður en komið er hér til stjórnarandstöðunnar og spurt hvað hún hefur gert. (Gripið fram í.) Þess vegna er það eingöngu heimilisvandamál í Framsfl. hvað hefur verið gert í þessu máli. Og það væri þá nær fyrir hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson að spyrja samþm. sinn af Vestfjörðum og flokksbróður, hæstv. forsrh., hvað hann hafi gert áður en hann fer að þenja sig hér í ræðustólnum í garð annarra manna. Það hefur verið upplýst hér að það er skilningur hæstv. forsrh.ríkisstj. hafi samið um þetta mál, þ.e. kjördæmamálið. Það voru orð hans hér. Ríkisstjórnarflokkarnir sömdu um þetta mál og það er þá væntanlega málið í heild sinni. Það er þess vegna eingöngu áður en að öðrum flokkum kemur spurning um hvað Sjálfstfl. og Framsfl. hafa gert hér. A.m.k. hafa þeir aldrei á þessum tíma komið til stjórnarandstöðuflokkanna til að vilja fá viðræður um þetta mál, sem þeir sömdu um samkv. yfirlýsingu hæstv. forsrh.

Ég er því ekki fylgjandi að tefja umr. um þetta mál. Menn geta fengið að tala hér eins og þeir vilja um málið og þá er hægt að halda næturfundi um málið, hv. þm. Karvel Pálmason, eins og voru haldnir hér á föstudag og laugardag, og það er alveg meinalaust af minni hálfu. (Gripið fram í: Þeir yrðu þá fleiri.) Já, já, það má halda jafnmarga næturfundi og menn vilja um málið, en eftir stendur eftir þessa umr., herra forseti, og það var mitt meginerindi hér að ítreka það, að Sjálfstfl. hefur lýst sig reiðubúinn að afgreiða málið til nefndar fyrir þinghlé og nú á eftir að koma í ljós á þessum sólarhring hvort Framsfl. tekst að kúga Sjálfstfl. enn á ný í þessu máli og koma í veg fyrir að málið verði rætt. (Forseti: Ég vildi nú biðja menn um að fara að stytta þessar umr. um þingsköp. En enn hafa menn verið að biðja um orðið og ég veiti það í trausti þess að ræður sem haldnar verða verði mjög stuttar.)