25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég held að það þurfi ekki að fara í grafgötur með það að þingheimur sé yfirleitt fylgjandi þeirri stefnu að hjartaskurðlækningar verði fluttar inn í landið. Skal ég ekki fara um það fleiri orðum. En í þessu efni sem öðru þegar um er að ræða þjónustu af hálfu þess opinbera þá fylgir því venjulega yfirleitt alltaf talsvert verulegur kostnaður þó að það borgi sig þegar til lengdar lætur að taka upp þessa þjónustu eins og í þessu tilfelli. Mér finnst ekki liggja nægilega skýrt fyrir enn þá sem kannske er varla von hve mikil fjárfesting er fólgin í því að taka upp rannsóknarstarfsemina sem hæstv. heilbr.- og trmrh. gerði að umtalsefni og heldur ekki hvað í raun og veru kostar að koma upp þessari starfsemi, bæði nauðsynlegum rannsóknum og sjálfum rekstrinum. Ég held að það væri mjög þýðingarmikið og nauðsynlegt fyrir þingheim að fá rækilega úttekt á hvað þetta allt saman kostar og þá verða menn að gera upp hug sinn um hversu fljótt menn vilja framkvæma þessa stefnu. Það er auðvitað hægt í sambandi við fjárfestingarkostnað að dreifa honum. Það er að vísu mikil gagnrýni á lántökum eins og kunnugt er, en auðvitað er hægt að dreifa fjárfestingarkostnaði ef hann leiðir til sparnaðar eins og hér hefur komið fram hjá sumum þm. sem þekkja þessi mál af eigin reynd, þannig að mér finnst að það þurfi að liggja fyrir og þurfi að afla upplýsinga um og koma þeim á framfæri hér á þingi áður en frekar er hafist handa í málinu, hvað þetta kostar, hvað fjárfestingin er mikil og hvað reksturinn kostar þegar við höfum flutt rannsóknir og hjartaskurðlækningar inn í landið.