24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2261 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

386. mál, útreikningur verðbóta

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á þskj. 56 flytur hv. 3. þm. Norðurl. v. þá fsp. sem hann hefur nú talað fyrir. Með því að þetta mál hefur verið nokkuð til skoðunar leyfi ég mér að víkja að því að í VII. kafla laga nr. 13/1979 um stjórn efnahagsmála o.fl., sem fjallar um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, er tekið fram að Seðlabankinn hefur umsjón með framkvæmd ákvæða þessa kafla eins og fram kom hér áðan. Í einu ákvæðanna, nánar tiltekið í 2. mgr. 41. gr. laganna, segir að um verðtryggð viðskipti utan innlánsstofnana fari eftir þeim reglum sem Seðlabankinn setur. Þó eru þau viðskipti undanskilin sem eru sambærileg þeim viðskiptum sem innlánsstofnanirnar stunda.

Um þessi síðasttöldu viðskipti gilda sömu reglur og um viðskipti innlánsstofnana, sbr. 1. mgr. 41. gr. Fsp. sem hér er til umr. beinist að verðtryggðum viðskiptum sem gerast utan innlánsstofnana. Viðskrn. óskaði því eftir greinargerð frá Seðlabankanum um framkvæmd á 2. mgr. 41. gr. laganna. Í grg. kemur fram að Seðlabankinn telji hvorki þetta ákvæði né önnur hefta rétt manna til að semja sín í millum um kaupverð t.d. fasteigna sem tengt sé vísitölu verðlags eða byggingarkostnaðar. Bankinn lítur m.ö.o. svo á að 2. mgr. 41. gr. nái ekki til viðskipta sem tengd séu vísitölu á þennan hátt. Þessa afstöðu rökstyður bankinn með vísan til 35. gr. laga nr. 13/1979, en í gr. segir að VII. kafli laganna gildi um skriflegar skuldbindingar þar sem skuldari lofar að greiða peninga fyrir verðmæti sem hafa verið seld eða afhent. Ég endurtek: sem hafa verið seld eða afhent. Þetta ákvæði segir bankinn að verði að túlka þannig að áðurnefndur kafli um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár gildi einungis um verðtryggingu hreinnar fjárkröfu eftir að myndun, verðákvörðun og afhending verðmæta er liðin hjá. Hins vegar gildi ákvæði kaflans ekki þegar kaupverð t.d. fasteignar er tengt vísitölu því að þá sé vísað til verðmyndunar fasteignarinnar.

Í lok greinargerðar sinnar segist Seðlabankinn hins vegar fúslega veita aðilum leiðbeiningar um hugsanleg samningskjör, sé um það beðið, enda þótt um viðskipti sé að ræða er falli utan gildissviðs VII. kafla laga nr. 13/1979 skv. túlkun bankans.

Með hliðsjón af þessari túlkun Seðlabankans og því að honum er falið að hafa umsjón með framkvæmd á ákvæðum VII. kafla umræddra laga verða reglur um útreikning verðbóta í viðskiptum þar sem kaupverð er tengt vísitölu verðlags eða byggingarkostnaðar aðeins settar með nýrri lagaheimild. Að vísu geta dómstólar hnekkt túlkun Seðlabankans en á það hefur ekki reynt.

Eins og þetta mál liggur fyrir í dag hefur ekki verið tekin ákvörðun um að afla lagaheimildar í því skyni að setja reglur af þessu tagi og er það svar við fsp. hv. þm. Hins vegar vil ég bæta við: Ástæða þess er einkum sú að fáar kvartanir hafa borist vegna skorts á slíkum reglum. Verði almenn vaxtalög sett, svo sem stefnt er að á þessu þingi, er eðlilegt að hafa þetta mál þá til athugunar og ákvörðunar um lagasetningu.