24.01.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2290 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

76. mál, orkusparnaður

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Í þessari tillögugerð Bandalagsmanna og í málflutningi hv. 4. landsk. þm. var margt rétt og skynsamlega athugað.

Ég minni á, sem hv. alþm. er kunnugt, að fljótlega eftir að núv. ríkisstj. settist á valdastóla var sett nefnd manna til að smíða frv. til laga um jöfnun húshitunarkostnaðar. Sú nefnd tók einnig með í sínar athuganir ýmsar aðgerðir til orkusparnaðar. Það þótti þó bera nauðsyn til þegar leið á starf hennar að fá til þess sérfróða menn að athuga sérstaklega um orkusparnað sem fælist í einangrun íbúðarhúsa sérstaklega og síðan annars íveruhúsnæðis og atvinnuhúsnæðis, og 7. okt. kallaði ég til menn til þeirrar ráðagerðar.

Ég hef lýst því yfir — gerði það á síðustu dögum fyrir þingfrestun í des. — að fljótlega eftir að þing kæmi saman nú mundi verða flutt þetta frv. um jöfnun húshitunarkostnaðar. Ég skal ekki fullyrða hvort það tekst — hvorum megin næstu mánaðamóta það tekst, en það er mjög á lokaundirbúningsstigi. Ég vænti þess að þar verði í ákvæði sem fullnægi að mestu leyti en ekki alveg öllu þeirri tillögugerð sem hér er á döfinni. Fyrir því get ég auðvitað lýst því yfir að ég er þessari tillögugerð í sjálfu sér samþykkur.

Margt hefur komið á óvart við þessa sérstöku athugun. Til að mynda eins og það, að hér skuli byggingareglugerðir vera vægari í kröfum vegna einangrunar en til að mynda í Svíþjóð. Endurskoðun hlýtur að verða gerð samhliða þessu á ákvæðum byggingareglugerða hérlendis.

Það er enn fremur í þessum till. að finna að greitt verði fyrir þeim með lánsfé og með öðrum aðgerðum sem vilja auka einangrun húsa sinna. Menn hafa enn fremur velt fyrir sér þeirri aðferð að hafa þak á niðurgreiðslum á húshitunarkostnaði. (Gripið fram í: Ekki orkuverðsnefndin.) Ekki orkuverðsnefndin nei, en það eru fleiri í landinu sem eru að velta þessum hlutum fyrir sér en hún. Ég er að segja frá þessu sérstaka atriði varðandi húseinangrunina, að hjá þeim sérfræðingum kom þessi hugmynd fram. Ég get líka upplýst til þess að draga úr ókyrrleik manna að þetta hefur ekki enn verið fellt inn í frv. En sú hugmynd hefur komið fram og ég nefndi það vegna þess að einn liðurinn í þessari tillögugerð er einmitt um að sett verði þak á slíkar niðurgreiðslur.

Eins og ég segi vænti ég þess að þetta mál skýrist alveg á næstunni og ég dreg ekki úr þeirri áherslu sem við hljótum að verða að leggja á sparnað í hvívetna á þessu sviði. Hitunarkostnaðurinn hvílir með ofurþunga á fólki og auðvitað er það yfirlýst stefna núv. ríkisstj. að lækka hann og jafna. Það er auðvitað meginatriði þess frv. sem orkuverðsnefndin hefur búið til, hefur gert tillögur um og eins og ég segi ég vænti að innan tíðar sjái dagsins ljós og menn geti þá hafið umræður um hvort því er eitthvað ábótavant. En ég vænti þess að þar verði stigið stórt skref í átt til jöfnunar rafmagns til heimilisnota og eins til þeirra nauðsynlegu framkvæmda, sem ég tel vera, að menn stórauki orkusparnað til að mynda með þeim hætti sem sérstaklega er gerð tillaga um í þessari þáltill.

Við eigum fleiri þáltill. sem frammi liggja og eru raunar á dagskrá í dag. Hér er ein, 104. mál á þskj. 125, um lækkun og jöfnun húshitunarkostnaðar og átak í orkusparnaði, upp á einar fimmtíu síður eða svo. Menn hafa hér sem betur fer ýmislegt til málanna að leggja. 1. flm. þar er hv. 5. þm. Austurl, og fer ég engum orðum um þá till. að honum fjarstöddum, en einhvers staðar hafa hans leiðir legið þannig að hann hefur uppgötvað að kannske bæri brýna nauðsyn til þess að hafa í frammi framkvæmdir og tillögugerð á þessu sviði einnegin.

En ég þarf ekki fleiru við þetta að bæta. Hér býst ég við að komið verði að fullu til móts við flest af því sem er meginatriði þeirrar tillögugerðar sem hérna liggur frammi.