26.01.1984
Sameinað þing: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2388 í B-deild Alþingistíðinda. (2113)

89. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Aðeins örstutt. Ég þakka þær undirtektir sem þessi till. okkar hefur fengið. Ég tek undir það með hv. þm. sem hér hafa talað, að auðvitað eru ekki aðstæður til þess nú eða ástæður að hefja almenna umr. um landbúnaðarmál. Sú umr. bíður betri tíma. Á dagskrá núna er m.a. till. frá okkur þm. Alþb. um landbúnaðarstefnuna í heild og hún kemur síðar til umr. og þá er hægt að koma þar ýmsu að sem full ástæða væri til í beinu framhaldi af því sem hér hefur verið sagt. Við leggjum þar m.a. áherslu á eitt atriði, sem aldrei verður of mikil áhersla á lögð, hinn mikla tekjumismun sem er hjá bændum og aðstöðumun þeirra einnig. Sá munur er gífurlegur og kom reyndar fram í máli hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar þegar hann talaði um smábændurna og aðstöðu þeirra áðan.

Innan bændastéttarinnar er ekki minni tekju- og aðstöðumismunur en hjá öðrum stéttum, það er óhætt að láta það koma glöggt í ljós, og þar má kannske mörgum um kenna, en kannske bændasamtökunum alveg eins mikið og stjórnvöldum.

Það er rétt, sem hv. 11. landsk. þm. kom inn á, að fyrri liðurinn í till. okkar leysir ekki vandamál þess sérstaka staðar, sem ég minnti á hér, sem er Breiðdalsvík. Því miður er Breiðdalsvík ekki eini staðurinn sem svo er ástatt um að sláturhúsið stendur mjög illa. Patreksfjörður er annað mjög glöggt dæmi og átakanlegt í því efni. Ég tók það einmitt fram í minni framsögu og við gerum það einnig í grg., við flm., að þarna er auðvitað um greinilegt Byggðasjóðsverkefni að ræða annars vegar og vitanlega verður svo samhliða því sá stofnlánasjóður sem þarna er aðalaðili að að koma inn í þessa mynd til hjálpar og aðstoðar og á það hef ég lagt áherslu.

Ég ætla ekki að fara út í það hvaða kröfur hafa verið gerðar hér á undanförnum árum og áratugum varðandi útflutning okkar, sem við höfum verið að stefna að að yrði sem allra minnstur. Ég hef litið svo á að viðmiðun við útflutning hlyti að geta bundist við þau fullkomnu sláturhús sem nú þegar eru fyrir hendi í landinu, afkastamikil og stór sláturhús, þannig að við þyrftum ekki að hyggja svo mikið að því verkefni varðandi framtíðina. Ég vil svo leggja áherslu á að meginatriðin þrjú, sem við flm. erum með í þessari tillögu, eru um frekari nýtingu, nýja möguleika og þá um leið í úrvinnslu okkar Landbúnaðarafurða, að það sé gætt hófs í öllum nýbyggingum og síðan síðast en ekki síst, sem er kannske það brýnasta alveg í augnablikinu, aðgerðir til aðstoðar þeim sláturfélögum sem hallast standa og eru nokkur á landinu. Ég veit um 3–4 a.m.k. sem standa höltum fæti.