30.01.1984
Neðri deild: 41. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2448 í B-deild Alþingistíðinda. (2140)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það er mikið í húfi þarna suður í Straumsvík. Það er hvorki meira né minna en sjálf hin markvissa efnahagsstefna ríkisstj., allur árangurinn sem náðst hefur í viðureigninni við verðbólguna frá því að ríkisstj. tók við völdum og til þessa dags. Þetta er kjarni þess máls sem hæstv. ráðh. hafa hér flutt. Hæstv. forsrh. spurði t.d. hv. þm. Guðmund Einarsson hvað hann héldi að af því leiddi ef starfsmenn í ÍSAL næðu 10, 15, 20, kannske 40% kauphækkun. Væri þá unnt, ef slíkt gerðist, að halda áfram að neita að bæta kjör hinna lægst launuðu? Hæstv. iðnrh. beindi hvössu augnaráði að hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni og spurði: Ætlar þú að taka í þennan strenginn, hv. þm., formaður Verkamannasambands, formaður Dagsbrúnar, á sama tíma og það liggur ljóst fyrir að það á ekkert að gera, það hvorki gengur né rekur í samningum á vinnumarkaðinum um kjör hinna lægst launuðu? Og svo spurði hæstv. iðnrh.: Hvenær hefur það gerst að efnt hafi verið til utandagskrárumr. um málefni þess fólks sem búið er að þrýsta niður á örbirgðarstigið og á nú ekki málungi matar og vart til hnífs og skeiðar? Það er kannske rétt að byrja með því að svara þeirri spurningu.

Það hefur ekki þurft að efna til utandagskrárumr. um það mál, hæstv. iðnrh. Hér hafa verið lagðar fram tillögur hvað eftir annað á Alþingi, þar sem hæstv. ráðh. hefur verið gefinn mjög auðveldlega kostur á því að styðja aðgerðir sem mönnum bar saman um að hefðu orðið til að bæta einmitt kjör þeirra sem nú hefur verið þrýst niður á örbirgðarstigið í formi afkomutryggingar, án þess að nokkur minnsta áhætta væri tekin um að það leiddi til einhverrar kjarasprengingar á vinnumarkaðinum og kollvarpa hinum mikla árangri sem náðst hefur í viðureigninni við verðbólguna. Þessar tillögur hafa Alþfl.-menn flutt hér á þingi hvað eftir annað. Þær hafa reyndar verið fluttar þing eftir þing, líka í tíð fyrrv. ríkisstj. og var þá hafnað af þáverandi stjórnarmeirihluta. Og þær voru fluttar nú. Þær voru fluttar í sambandi við afgreiðslu á brbl. ríkisstj. sem hétu því fagra nafni: Mildandi aðgerðir til að bæta hag þeirra sem verst eru settir. Þær voru fluttar aftur í sambandi við tekjuskattafrv. og að lokum við umr. um fjárlagafrv. Þegar þessar hugmyndir eru síðan nefndar í viðtali í dagblaði hér í Reykjavík, í viðtali við tvo verkalýðsforingja, kemur hæstv. forsrh. og segir: Þetta eru mjög athyglisverðar hugmyndir. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson lýsir því yfir í útvarps- og sjónvarpsþáttum að þetta séu mjög athyglisverðar hugmyndir. En engu að síður er það staðreyndin að búið er að fella þær tvisvar.

Ég nefni þetta vegna þess að hæstv. iðnrh. segir að afstaða manna til kjarasamninganna í ÍSAL byggist einfaldlega á þessu, að á sama tíma og ekkert hafi verið gert til að rétta hlut þeirra sem nú er búið að þrýsta niður á örbirgðarstig nái nánast ekki nokkurri átt svo mikið sem að hlusta á kjarakröfur starfsmanna í ÍSAL, vegna þess að þá sé allur hinn stórkostlegi ávinningur horfinn. Og síðan taka við hótanir um að þá muni það undur gerast að ríkisstj. muni segja af sér og þá væntanlega á þeirri forsendu að það verði mikill harmur kveðinn að þjóðinni ef til slíkra tíðinda dragi — eða hitt þó heldur. (SvG: Er ráðh. farinn úr salnum?) (Fjmrh.: Hvaða ráðh.?) (SvG: Iðnrh.) Það er alveg sýnilegt að hæstv. ráðh. er farinn úr salnum. En hvort vert er að spyrja um hvort það séu einhverjar skýringar á fjarveru hans, það veit ég ekki. Það er nú reyndar kominn í salinn hæstv. fjmrh., einn af hinum yfirlýsingaglöðu ráðherrum.

Það er ástæða til að spyrja einnar spurningar: Er sú fullyrðing rétt, að nái starfsmenn ÍSALs einhverjum árangri í sínum samningum, sem ekkert liggur fyrir um, liggi það þar með á borðinu að árangur ríkisstj. í viðureign við verðbólguna væri þar með fyrir bí? Það var sú spurning sem hæstv. forsrh. beindi til Guðmundar Einarssonar áðan. Ég skal svara því fyrir mitt leyti. Mér finnst engan veginn liggja á borðinu að svo sé. Má ég rifja upp að hingað til hafa menn oft í sambandi við samningamál nefnt að þau vinnubrögð sem tíðkast við kjarasamninga, bæði ÍSALs, ríkisverksmiðjanna og reyndar járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, séu til mikillar fyrirmyndar. Hvers vegna? Vegna þess að þar hafa farið fram vinnustaðasamningar, vegna þess að þar hafa menn sameinast þótt þeir séu í ýmsum félögum, samningagerðin hefur farið þannig fram að félögin hafa gengið sameiginlega að kjarasamningum og þeir hafa verið leystir á þeirri forsendu að þrátt fyrir ólíka aðstöðu manna á vinnustaðnum hafa þeir verið leystir þar í heild. Þetta hefur þótt til mikillar fyrirmyndar. Það er einhver eðlilegasta og sjálfsagðasta krafa í sambandi við kjaramál að miða kaupkröfur við raunverulegar staðreyndir um afkomu viðkomandi fyrirtækis eða atvinnuvegar. Gerum nú ráð fyrir að þær staðreyndir liggi fyrir og séu mjög jákvæðar. Við vitum að hlutdeild launa í veltu- eða framleiðslukostnaði ÍSALs er tiltölulega mjög lág. Ég þykist vita að auðvelt væri að færa sönnur á að launakostnaður þessa aðila í samanburði við launakostnað í ýmsum grannlöndum okkar, þar sem hann er til mikilla muna hærri, sé einnig mjög lágur. síðan vitum við að það hafa orðið umskipti á högum fyrirtækisins vegna þess að verð á álmarkaði hefur nú hækkað mjög verulega, birgðahald hefur mjög minnkað og aðstaða fyrirtækisins á allan annan máta batnað.

Hvers eðlis er þetta fyrirtæki? Þetta er útflutningsfyrirtæki, sem selur afurðir á erlendum markaði í erlendum gjaldeyri. Fyrsta spurning: Ef starfsfólkinu í ÍSAL yrði eitthvað ágengt í kjarasamningum, mundi þeim hækkunum þar með verða velt út í íslenskt verðlag til að auka íslenska verðbólgu? Ég fæ ekki séð það. Ég fæ engan veginn séð það. Það mun hafa nánar tiltekið svipuð áhrif og ef hæstv. iðnrh. yrði nú eitthvað frekar ágengt í samningum sínum við hinn erlenda aðila um hækkað orkuverð. Það yrði nettóhagnaður fyrir íslenskan þjóðarbúskap, án þess að verðbólguáhrif yrðu af þeim sökum nokkur. Síðan geta menn deilt um hvort fordæmisáhrifin yrðu til hins verra. Ef það er staðreynd að ríkisstj. ætlist til þess af atvinnurekendum að þeir semji, eins og hæstv. forsrh. sagði, innan ramma raunverulegrar afkomu og beri sjálfir ábyrgð á sínum kjarasamningum liggur ekkert fyrir um það. Aðstæður atvinnuvega geta verið mjög mismunandi. Og það er engan veginn sjálfgefið mál að þó að illa ári í sjávarútvegi, m.a. vegna þess að þar er fullkomin óvissa ríkjandi um nær alla þætti þess rekstrar, vegna þess að allan tímann frá því að ríkisstj. tók við völdum hefur hún ekki getað gert upp hug sinn eða mótað afstöðu sína um grundvallaratriði fiskveiðistefnu eða fjárhagslega endurskipulagningu þessa skuldum hlaðna atvinnuvegar, að kaupgjald megi ekki hreyfast í betur stæðum greinum. Það er mál sem ríkisstj. verður að eiga við sjálfa sig og þýðir ekki að varpa sökinni af því yfir á aðra. Það liggur ekkert ljóst fyrir og er engan veginn sannað að kauphækkun, jafnvel þótt samningar næðust um slíkt í ÍSAL, mundi kollvarpa einu eða neinu eða hleypa af stað neinu verðbólguhjóli í íslensku atvinnulífi. Það orsakasamhengi er allt annað en ef við lítum á fyrirtæki sem starfa á innlendum markaði eða selja afurðir sínar á innlendum markaði. Því er slegið föstu af hálfu ráðh. að þetta séu yfirgengilegar kröfur, þær séu reyndar svo yfirgengilegar að þær eigi ekki að ræða. Menn eiga jafnvel ekkert að hlusta á þær. Það er ósköp eðlilegt að menn byrji sína samningsstöðu með því að setja fram kröfur um að þeim verði bætt upp það sem þeir hafa misst í kjörum á þeim tíma sem liðinn er frá seinustu samningum, þegar fyrir liggur að um leið hafa orðið alger umskipti til hins betra hjá viðkomandi fyrirtæki. En auðvitað fullyrðir enginn neitt um hver niðurstaða kjarasamninga yrði, nema þá hæstv. ráðherrar sem byrja á því fyrir fram að lýsa því yfir að þarna eigi ekki einu sinni að hlusta á slíkt.

Það vill svo til að í Dagblaðinu í dag er opið bréf frá starfsmanni í Straumsvík til hæstv. iðnrh. Starfsmaðurinn segir að hann hafi lagt sitt litla lóð á þær pólitísku metaskálar sem hófu iðnrh. upp í stöðu alþm. fyrir Austurlandskjördæmi á sínum tíma. Hann gerir nokkra grein fyrir aðstæðum á sínum vinnustað og segir svo, með leyfi forseta:

„Nú er sem betur fer komin önnur tíð. Álverðið hefur sjaldan eða aldrei verið hærra, birgðir í lágmarki og hvert metið á fætur öðru er slegið hér suður í Straumsvík bæði hvað snertir straumnýtingu, magn framleiðslunnar og gæði. Og enn er gengið til samninga og starfsfólkið fer fram á það að fá að halda óbreyttum launum, en er þá sagt af óviðkomandi aðilum að það sé svo mikil óáran í sjávarútveginum, hringormur í þorski, togarar alltof dýrir, frystihúsin undir hamrinum og Nígeríumennirnir borga ekki skreiðina, og þess vegna megi ekki hækka launin. Nei, kæri vinur, svoleiðis röksemdir eru ekki gjaldgengar fyrir sunnan Hafnarfjörð. Við svoleiðis röksemdum segja launamenn pass.“

Það er ákveðin þversögn í því að segja við atvinnurekendur: Ríkisstj. hefur að vísu mótað sína stefnu almennt um hver sé greiðslugeta þjóðarbúsins, en það er hins vegar á ykkar valdi að bera sjálfir ábyrgð á kjarasamningum innan marka afkomu þessa atvinnuvegar. En áður en nokkuð er farið að láta á það reyna hverju menn fá áorkað í samningum er rokið upp til handa og fóta og gefnar yfirlýsingar út og suður í allar áttir með algerum fordæmingum á því að vera yfirleitt að hreyfa samningum. Allt er þetta síðan réttlætt með því að þetta sé óhæfa vegna þess að á hinum almenna markaði hefur ekkert gengið eða rekið í að bæta kjör hinna verst settu.

Hin raunverulega spurning er þá þessi: Hvað er það sem er líklegast til að kollvarpa þeim árangri sem ríkisstj. hefur náð í viðureign sinni við verðbólguna? Eru það þessir stórháskalegu hugsanlegu samningar í Straumsvík? Ég held ekki. Ég held að það sem væri líklegast til að kollvarpa ekki aðeins stefnu þessarar ríkisstj. heldur ríkisstj. sjálfri væri það ef þessi vetur á að líða allur þannig að ríkisstj. horfi á það aðgerðarlaust með öllu að umtalsverður hluti fólks á íslenskum vinnumarkaði og reyndar einnig fólk sem byggir afkomu sína á greiðslum almannatrygginga á að halda áfram að búa við kjör sem ofbjóða sómatilfinningu allrar þjóðarinnar. Og þetta eru tvö aðskilin mál. Ég vitnaði til þess áðan að hér á þingi hafa verið lagðar fram tillögur um lausn á því máli. Þær hafa verið lagðar fram ítrekað. Það hafa verið lagðar fram tillögur um lögbundin lágmarkslaun, 15 þús. kr. á mánuði, og það hafa verið lagðar fram mjög ítarlegar tillögur um afkomutryggingu eins og þm. kannast við.

Það var vitnað hér í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. af hæstv. forsrh. Það er rétt að vitna hér í annan kafla, um verndun kaupmáttar á bls. 5. Þar segir:

Ríkisstj. hefur ákveðið að bæta hag þeirra, sem verst eru settir, með eftirgreindum kjarabótum.“ Síðan er það upp talið eins og menn kannast við.

Staðreyndin í því máli er sú, að eina fólkið sem ekki naut neins hags af þessum svokölluðu kjarabótum var það fólk á vinnumarkaðinum sem verður að sjá sér farborða af lágmarkstekjunum, kauptryggingunni, þessum rúmlega 10 900 kr., sem og bótaþegar almannatrygginga. Þetta voru einu aðilarnir sem ekki nutu á nokkurn máta neins af þessu og reyndar er þeirra afkoma verri en hún var fyrir. Um þetta hafa verið tíunduð mörg dæmi og um það að afnema þetta hróplega misrétti voru tillögur okkar á sínum tíma.

Ráðherrar skáka í því skjóli að ekkert hafi verið gert til að bæta hag þessa fólks og á meðan megi ekkert gera á almennum launamarkaði. Til hvers leiða þær röksemdir að lokum? Þeir eru raunverulega að segja að enginn aðili í íslensku þjóðfélagi, enginn hópur launþega, hversu góð sem afkoma viðkomandi atvinnuvegar eða fyrirtækis kann að vera, megi hreyfa sig. Á sama tíma er upplýst og liggur fyrir staðfest og skjallega að sjálfir hafa þessir ráðherrar og þingmeirihluti þeirra ítrekað, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, fellt það að gera sjálfsagðar ráðstafanir gegnum trygginga- og skattakerfi til að bæta hag þessa fólks, m.ö.o. til að koma á þessari lágmarkskauptryggingu, 15 þús. kr. með óbeinum hætti með því að hækka útborganlegan persónuafslátt gagnvart sköttum, sem kæmi þessum aðilum beint að haldi, án þess að hafa nokkur minnstu áhrif á verðbólgustig eða kaupsprengingu upp allan launaskalann. Þetta tvennt fer hvergi saman. Ég held að þessir ráðherrar ættu þess vegna að fara gætilega í því að bera fyrir sig samúð sína í garð þeirra sem verst eru settir meðan það liggur fyrir að þeir eru ófáanlegir til þess, eða hafa reynst það hingað til a.m.k., að gera það sem gera þarf þrátt fyrir stefnuyfirlýsingu í málefnasamningi ríkisstj., þrátt fyrir landsfundasamþykktir t.d. sjálfstæðismanna um að beita skuli skattakerfinu með þessum hætti og þrátt fyrir ítrekaðan tillöguflutning á Alþingi.

Ég verð að segja það eins og er að áhrif þessarar gífuryrtu yfirlýsingar ráðherranna eru fyrst og fremst þau að hleypa illu blóði í samninga sem voru á viðkæmu stigi. Þau þjónuðu engum tilgangi öðrum en þeim að gera ólíklegra en ella að samkomulag gæti tekist. Það var með öllu óþarfi að gefa slíkar yfirlýsingar með þeim hætti líka sem þær voru gefnar á þessum tíma. Og sú aðgerð að ríkisstj. beiti sér fyrir því að ÍSAL gerist aðili að samtökum íslenskra atvinnurekenda á þessum tíma verður vægast sagt að teljast í meira lagi hæpin. Meginröksemdin er síðan sú, að hvaða breyting sem verði til batnaðar á kjörum þessa starfshóps verði til þess að brjóta niður þau markmið sem ríkisstj. hefur sett sér í efnahagsmálum. Ég hef enga trú á að það sé staðreynd. Ég held að um þeirra mál sé sérstaðan slík að þessu verði ekki haldið fram með fullum rökum. Niðurstöður mínar eru því þær, að framferði ríkisstj. að þessu leyti hafi verið málunum yfirleitt til bölvunar og yfirlýsingar þeirra um að launþegar á Íslandi megi undir engum kringumstæðum hreyfa sig neitt í kjaramálum fyrr en eitthvað væri að gert til bóta fyrir hina lægst launuðu fá fyrst einhvern verulegan þunga og einhvern verulegan sannfæringarkraft ef það lægi fyrir að ríkisstj. hefði gert það sem í hennar valdi stendur til að rétta hlut hinna verr settu og það meira að segja með aðferðum sem ekki þyrftu að tefla í tvísýnu þeim árangri sem vissulega hefur náðst í verðbólgunni.