31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2485 í B-deild Alþingistíðinda. (2170)

415. mál, símamál í Sandgerði

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Varðandi það sem hv. fyrirspyrjandi sagði, að það hefði verið leitað til Póst- og símamálastofnunar um svör en þau ekki fengist, þá harma ég að slíkt skuli eiga sér stað, því að opinberar stofnanir eiga að svara slíkum fsp. sem þessum og á ekki að þurfa að koma til frekari orðaskipta út af því, því að slík svör eiga alltaf að liggja fyrir. En ef ég sný mér að því að svara þessari spurningu þá hefur ástandið í símamálum í Keflavík, Garði og Sandgerði að undanförnu verið óviðunandi. Það hefur leitt til þess að á síðasta ári var pöntuð starfræn rafeindastöð til stækkunar í Keflavík og ný stöð í Garðinum af sömu gerð.

Það er stefnt að því að taka þennan símabúnað í notkun um mánaðamótin mars/apríl n.k. Í framhaldi af þessu verður línum milli Keflavíkur og Reykjavíkur fjölgað úr 70 í 90 og línum milli Keflavíkur og Sandgerðis verður einnig fjölgað úr 20 í 30. Afkastageta símstöðvarinnar í Keflavík eykst verulega og þar með á afgreiðsla bæði í og frá Sandgerði að batna til mikilla muna. Símasvæðisumsjónarmaðurinn í Keflavík fylgist reglulega með símabúnaði stöðvanna sem hér um ræðir. Hann fer á 1–2 vikna fresti á allar stöðvarnar sem vinna undir símstöðinni í Keflavík. Vegna hinnar miklu símaafgreiðslu getur svo farið að skipta verði út símstöðvunum í Sandgerði og Vogum áður en langt um líður og þegar því er lokið verður símkerfið þarna í fullkomnu lagi fyrir þá miklu símaafgreiðslu sem fer fram á þessu svæði að dómi Póst- og símamálastofnunar.