01.02.1984
Neðri deild: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2512 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Guðmundur Bjarnason:

Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Austurl. spurði eftir því áðan hvort ráðherrar Framsfl. gætu hlaupið í skarðið fyrir þm. Guðmund Bjarnason ef hann treysti sér ekki hér í ræðustól. Ég vil nú ógjarnan láta um mig spyrjast að ég geri það ekki og tel að ég geti gjarnan svarað hér fyrir mig sjálfur. En hitt er líka fram komið að hæstv. forsrh. hefur nú þegar lýst afstöðu okkar framsóknarmanna til þessa máls svo að ég þarf ekki að endurtaka það.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spurði einnig hvort ég og hvernig ég gerði mínum kjósendum grein fyrir þessari afstöðu. Það hef ég auðvitað þegar gert, bæði á framboðsfundum og almennum stjórnmálafundum og félagsfundum í mínu kjördæmi og mun að sjálfsögðu halda því áfram eftir því sem ástæða er til eða þarf. En mál þetta er ekki nýtt, þetta mál er búið að vera lengi í undirbúningi. Ég hygg að það hafi verið á árunum 1974–1975 sem það var fyrst í undirbúningi, þá af hálfu þáv. hæstv. utanrrh., Einars Ágústssonar, svo að þetta er búið að vera á döfinni alllengi.

Við framsóknarmenn höfum lýst yfir að við teljum nauðsynlegt að byggja þessa flugstöð og að það sé liður í þeirri stefnu okkar, sem við höfum haldið fram, að aðskilja eigi þá starfsemi sem þar fer fram á vegum Bandaríkjamanna frá okkar íslensku innlendu starfsemi. Þau rök eru efst í huga mér þegar ég geng til atkvgr. um það mál sem hér liggur fyrir.

Þó er auðvitað ljóst að okkur greinir ævinlega á um það hvernig á að raða verkefnum í forgang, hvort einstök verkefni eru of stór eða of dýr o.s.frv. Um þetta verða eilíflega deilur. Ég get persónulega lýst því yfir að mig hefur undrað hvað þessi bygging þarf að vera og er áætluð stór og hversu ótrúlega dýr hún er. Ég hef hins vegar ekki neitt tæknilegt mat á því og verð auðvitað að treysta því að sú vinna sem unnin hefur verið af til þess fengnum mönnum sé gerð skv. bestu vitund, bestu samvisku og þetta sé sú aðferð sem við verðum að telja réttasta og eðlilegasta.

Fyrst ég er hins vegar kominn upp í ræðustól langar mig að beina einni spurningu til hæstv. fjmrh. varðandi ákvæði í 1. gr. frv. þar sem fjallað er um niðurgreiðslur, um heimild ráðh. til að fella niður eða endurgreiða gjöld af vinnuvélum sem notaðar verða við þessar byggingarframkvæmdir, hvernig menn hugsi sér það þegar þær vélar verða síðan trúlega aftur notaðar við ýmis önnur verkefni en beinlínis hér er verið að efna til. Ég hygg að ekki sé eingöngu ætlað að það séu Íslenskir aðalverktakar sem vinni þetta verkefni heldur geti þar að auki ýmsir aðrir verktakar komið til greina og þá líka með vélum sem þeir geta síðan notað við ýmis önnur verkefni. Þetta gæti skapað verulegt misrétti á milli hinna einstöku verktaka, t.d. við útboð og framkvæmdir við ýmis önnur verkefni sem ríkið lætur framkvæma — ég nefni t.d. vegagerð svo eitthvað sé tekið til — og gæti þá skapað verulegt misrétti eða misræmi milli stöðu þeirra verktaka sem bjóða í slík verk. Fyrir þessu hefur sjálfsagt verið hugsað. Hér er líka fjallað um það að ráðh. setji nánari reglur um fyrningar og annað á þessum vinnuvélum en það væri samt fróðlegt að fá að heyra örlítið frá ráðh. um þetta atriði.