01.02.1984
Neðri deild: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2528 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Jón Baldvin Hannibalsson:

Virðulegi forseti. Mér þykir fyrir því að þurfa að draga úr spennunni í þessum dramatísku umræðum um gæfu Íslands og framtíð þjóðar með lítilfjörlegum spurningum um efnisatriði þessa máls. En ástæðan fyrir því að ég kem hér upp aftur er einfaldlega sú, að hæstv. ráðh. virðist hafa misskilið mínar spurningar. Ég tel hins vegar að það skipti máli að fá þessar upplýsingar fram fyrir þá sem þurfa að taka afstöðu til málsins.

Ég spurði nefnilega ekki um kostnaðarskiptingu milli Íslendinga og Bandaríkjamanna í þessu efni, að því er varðar þessa framkvæmd. Þær upplýsingar eru gefnar í grg. með frv. á bls. 2, þar sem segir:

„Heildarkostnaður við byggingu flugstöðvarinnar, þar með taldar svæðislagnir, er áætlaður 42 millj. Bandaríkjadala og munu Bandaríkin greiða 20 millj. dala af þeirri upphæð. Hlutur Íslendinga, 22 millj. dala,“ o.s.frv.

Af þessu virðist mega vera augljóst að eitthvað hefur hæstv. ráðh. misskilið þetta þegar hann segir, að þessi kostnaðarskipting sé 20% í hlut Íslendinga en 80% í hlut Bandaríkjamanna. (Gripið fram í.) Hér segir: „Þar með taldar svæðislagnir“ í þessari heildarupphæð. En hvað sem því líður gjarnan mættu þessar upplýsingar hafa komið fram í heild sinni í grg., en það var nú allavega ekki mín spurning. Mín spurning var þessi: Hver er skiptingin að því er varðar kostnað hér innanlands í íslenskum krónum og hins vegar erlendan kostnað, þegar við ræðum eingöngu um hlut Íslendinga við þessar framkvæmdir? Það finnst mér skipta máli að komi fram, þegar lagt er fram frv. þar sem óskað er heimildar til lántöku fyrir öllum hinum íslenska kostnaðarhlut. Að vísu nær sú lántökuheimild fimm ár fram í tímann, þ.e. hún spannar yfir árin í heild, 1983-1987 á ári hverju: 3 millj. dollara tæpar 1984, 4.5 millj. dollara 1985, 9.5 millj. dollara 1986, 4.7 millj. dollara 1987.

Ég endurtek: Spurningin er sú, er ástæða til þess fyrir okkur Íslendinga, þegar við erum að fjalla um hlut okkar sjálfra, hina innlendu kostnaðarhlutdeild, að ætla sér fjögur ár fram í tímann að fjármagna það eingöngu með erlendum lánum? Fjmrh. segir: Við eigum engra annarra kosta völ á þessu ári vegna þess að innlent fjármagn er ekki til, hvorki væntanlega í formi skatta né heldur þá í formi lántöku á innlendum markaði. En þó svo kunni að vera á þessu ári, þá er ekki endilega þar með gefið að þær aðstæður verði óbreyttar á árunum 1985, 1986 og 1987. Eða er verið að slá því föstu að það efnahagslega kreppuástand sem nokkuð hefur dregist inn í þessar umr. og hæstv. fjmrh. að verulegu leyti réttilega kennir um forverum sínum í ríkisstj. — og má gjarnan bæta við enn einu sinni, hverra guðfaðir hann var, það er að vísu aukaatriði málsins, gerir hann virkilega ekki ráð fyrir því að einhver efnahagsbati kunni nú að nást á næstu þremur árum? Er ástæða til þess að slá því föstu nú þegar að enginn efnahagsbati verði á næstu þremur árum, sem gæti orðið til þess að við gætum fjármagnað a.m.k. verulegan hluta af okkar kostnaðarframlagi á inniendum lánsfjármarkaði? Væri það ekki fremur í samræmi við stefnu ríkisstj. um að snúa baki við stefnu fyrrv. ríkisstj., setja ströng takmörk á erlendar lántökur umfram þarfir og reyna að beina lánsfjáröflun opinberra aðila fremur að innlendum markaði?

Ég spyr sérstaklega vegna þess að að verulegu leyti hlýtur kostnaður Íslendinga við þessar framkvæmdir, við þessa mannvirkjagerð, að vera í formi kostnaðar innlendra verktaka vegna innlendrar vinnuaflsnotkunar, og væntanlega að verulegu leyti innlends byggingarefnis. Ef menn meina eitthvað með því og vilja snúa við blaðinu að því er varðar óhóflegar erlendar lántökur, þá ber aftur að reyna að taka upp þá reglu, þegar aðstæður í þjóðarbúskapnum leyfa, að sá hluti meiri háttar framkvæmda sem er í eðli sínu inniendur kostnaður verði fjármagnaður innanlands. Þetta var raunverulega mín spurning. Ég endurtek þessa spurningu: Liggja fyrir einhverjar upplýsingar um það, sleppum hinu erlenda kostnaðarframlagi, hvernig þessi hlutföll eru? Hvað af þessum mannvirkjakostnaði, kostnaði við þessa mannvirkjagerð er innlendur kostnaður og hvað er í eðli sínu erlendur kostnaður? Og í framhaldi af því, væri þá ekki eðlilegra, gerandi ráð fyrir einhverjum efnahagsbata á næstu árum, að takmarka hina erlendu lánsfjáröflun við kostnað okkar í erlendum gjaldeyri á næstu árum? Um það var spurningin.