02.02.1984
Sameinað þing: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2535 í B-deild Alþingistíðinda. (2214)

104. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði í sinni framsögu að jöfnun og lækkun húshitunar er eitt meginmálið í dag ef ekki á verr að fara en þegar er orðið og ef ekki á að stefna beinlínis að eyðingu byggða víðs vegar í kringum landið. En þetta er mál sem ekki er að koma upp í dag. Við höfðum ríkisstj. á undan þessari sem sat í 31/2 ár og lítt miðaði í þá átt til jöfnunar eða lækkunar húshitunar á þeim tíma sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sat í iðnrn., því miður. (Gripið fram í: Hann sat þar miklu lengur.) Og sat þar lengur, já, við gætum farið aftur — (SkA: Við hvað á hv. ræðumaður?) En nóg eru þessi 31/2 ár sem lítið gerðist á, hv. þm. Skúli Alexandersson.

En ég tek heils hugar undir það að þetta er eitt meginmálið og kannske eitt meginkjaramálið í dag í þeirri stöðu sem við erum nú. En stjórnvöld hafa daufheyrst við þessu, bæði núverandi og fyrrverandi ekkert síður. Það er engu líkara en þeir sem ferðinni ráða hverju sinni séu svo blindir á það ástand sem ríkir í þessum efnum á hinum svokölluðu köldu svæðum, að engu tali tekur. Það er undarlegt að kjósendur þessara einstaklinga, þessara flokka, sem með völdin hafa farið skuli ekki ýta betur við þessum herrum en gert hefur verið til þess að fá menn til að skilja vandamálið eins og það í raun og veru er.

Þeir sem ráðið hafa ferðinni í þessum mátum undangengin ár, bæði núv. ríkisstj. og fyrrv. ekki síður, hafa svikið marggefin fyrirheit í þessu máli, tekið peninga ófrjálsri hendi sem áttu að fara í þetta en nýtt þá til annarra hluta. Þar var fyrrv. ríkisstj. engin undantekning nema síður væri. Þessi hefur þó verið heldur skárri í þeim efnum, tekið heldur minna ófrjálsri hendi en fyrrv. ríkisstj.

Ég veit ekki hvort menn gera sér grein fyrir því almennt að t.d. núna í janúarmánuði þarf íbúðareigandi á stað eins og í Bolungarvík, verkamaður með lágmarkslaunin í kringum 11–12 þús., að borga 9 þús. kr. í upphitun á sinni íbúð þar í janúarmánuði. (EJ: Fyrir tvo mánuði?) Nei, fyrir einn mánuð. Ég heyri greinilega að meira að segja gleggstu menn hér inni í þessum málum eins og hv. þm. Egill Jónsson eru orðnir ruglaðir í ríminu í því hvað hlutirnir kosta í raun og veru og hvaða bagga fólk þarf að bera á köldu svæðunum.

Þess vegna segi ég það: Ég er undrandi á því að augu ráðandi manna í þjóðfélaginu skuli ekki opnast fyrir þessu gífurlega vandamáli, fyrir þessu gífurlega óréttlæti sem hér er um að ræða. Þetta á vissulega við um alla kjaramálaumræðu í þjóðfélaginu í dag. Besta og raunhæfasta kjarabótin þessu fólki til handa væri að lækka stórlega þann gífurlega bagga sem þarna er um að ræða hjá því fólki sem við þetta þarf að búa.

Varðandi efnisatriði þessarar þáltill. skal ég ekki mikið ræða. Hún er góðra gjalda verð út af fyrir sig en teljist innihald hennar gott núna hefði verið hægt í ráðherratíð fyrrv. iðnrh. að gera betur, ganga götuna í anda þess sem nú er lagt til, stíga miklu stærra skref til réttlætis en gert hefur verið. En eigi að síður tek ég undir allt sem hann sagði um það að hér er svo brýnt mál á ferðinni að úrbóta er þörf og það strax. Þess vegna segi ég að þáltill. þó góð væri gagnar ekki vegna þess að hér verður að gera hlutina strax. Það verður ekki beðið eftir því að þáltill., hversu góð sem hún er, fari sinn gang í gegnum þingið. Ég á ekki von á því. Það hafa þá breyst viðhorf hjá stjórnendum hverju sinni, meiri hl. Ég á ekki von á því að fyrir slíkri till. verði sérstaklega greið gatan, hvað þá heldur samþykkt ef lík viðhorf eru ríkjandi hjá núv. meiri hl. til stjórnarandstöðumála eins og oftast eru í þinginu. En þó svo væri tæki það of langan tíma. Fólk getur ekki beðið lengur eftir úrbótum í þessu máli, þær verða að koma strax.

Ég sakna þess að hæstv. iðnrh. skuli ekki vera hér til staðar vegna þess að vissulega var ég að vona að í þeirri yfirlýsingu sem hæstv. iðnrh. gaf hér rétt fyrir jól gæti maður eygt von til þess að augu manna væru að opnast fyrir því hversu þetta vandamál er gífurlega stórt og mikið. En enn bótar ekki á að það loforð hæstv. iðnrh. standist að frv. í þessa átt sjái dagsins ljós á þinginu. Ég tek undir vonbrigði hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um að forsrh. skuli ekki einu sinni vera staddur hér við þessa umr., sá ráðh. sem er fulltrúi fyrir það fólk sem þyngstar byrðar ber í þessum efnum, þ.e. Vestfjarðakjördæmi. (EgJ: Það er ekkert þyngra þar en annars staðar.) Ef hv. þm. Egill Jónsson hefur orðið undrandi við þessar tötur þá er það rétt. Það er ekkert vafamál. Undan því er ekki hægt að víkjast. En það væri full ástæða til að hæstv. forsrh. yrði kallaður í salinn til að hægt væri að fá um það upplýsingar frá honum hvort og með hvaða hætti er verið að vinna að þessu máli.

Ég sé að hv. 3. þm. Reykv., fyrrv. félmrh. í þeirri ríkisstj. sem lítið gerði í átt til réttlætingar, bendir nú á hæstv. samgrh. (Gripið fram í: Hann er af Vestfjörðum.) Það er rétt, hann er af Vestfjörðum. Spurningin er hvort það dugar. Það var líka Vestfjarðaþm., hv. þm. Svavar Gestsson, í fyrrv. ríkisstj. sem lítið sem ekkert gerði, hæstv. núv. forsrh. Ekki væri síst ástæða til þess að hann gæti svarað fyrir það sem gert hefur verið í þessum málum á undanförnum árum af því að hann bar ábyrgð á því líka í fyrrv. ríkisstj. ásamt hv. þm. Svavari Gestssyni, ekki síst, sem í flestum tilfellum var kannske látinn ráða ferðinni. Ekki er að sjá að hæstv. forsrh. verði hér viðstaddur. (GJG: Hver réði?) Hver réði hvað? Er nú hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson genginn í salinn? Ja, það var tími til kominn eftir langvarandi fjarveru. (GJG: Hver réði ferðinni?) Já, hver réði ferðinni? Það er ekki eðlilegt að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sé með á því hver réði ferðinni þá eða a.m.k. hann vill ekki við það kannast. Verkin eru það slæm eins og þau voru framkvæmd þá. Alþb. var talið ráða ferðinni í meginþáttum þess stjórnarsamstarfs sem var í fyrrv. ríkisstj. A.m.k. hældu þeir sér oft af því Alþb.-menn hvað þeir hefðu komið góðu til leiðar í tíð þess stjórnarsamstarfs. (Gripið fram í: Það var mikið til í því líka.) Já, það má vera en það er þeirra eigin sögn. Ekki hafa aðrir sagt að það hafi verið góðæri. Það er þeirra eigin sögn.

En þetta mál snýr auðvitað að allri ríkisstj. en ekki bara forsrh. eða einhverjum tilteknum ráðh. Þetta snýr að allri ríkisstj., þetta snýr ekki síst að meiri hl. hér á Alþingi, hvað hann vill gera í mátinu. Í raun og veru snýr þetta að Alþingi öllu hvort það ætlar áfram að láta slíkt herfilegt óréttlæti viðgangast eins og hér er um að ræða. Ég trúi ekki öðru en að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambandsins, formaður samtaka lítilmagnans í þjóðfélaginu, þeirra sem verst eru settir, minnst bera úr býtum, taki undir það að hér þurfi róttækra aðgerða við og aðgerða strax þó að honum hafi ekki auðnast það að hafa áhrif til þess að það væri gert í tíð fyrrv. ríkisstj. því miður.

Ég vil að lokum, herra forseti, beina því til þeirra hæstv. ráðh. sem hér eru inni úr hvorum stjórnarflokknum sem það er að þeir íhugi nú gaumgæfilega hvort ekki sé nógu langt gengið í álögum á það fólk sem við þetta býr þegar farið er að borga allt upp í 9000 kr. á mánuði fyrir að kynda íbúðarhúsnæði á köldu svæðunum. (EJ: Allt upp í?) Ég sagði það. Hv. þm. Egill Jónsson hefur bara ekki tekið betur eftir og þó hélt ég að ég talaði það hátt að menn gætu heyrt það. En það virðist ekki vera um suma. Það er lokað fyrir augu og eyru ef menn vilja svo við hafa. (EJ: Það er annað orðalag.)

Ég held nefnilega að það hljóti að líða að því, kannske á næstu dögum, næstu vikum, tala nú ekki um á næstu mánuðum, ef fram heldur sem horfir í þessu efni, að þessi svæði tæmist raunverulega af íbúum. Þau tæmast og fólkið fer hingað í gósenlandið á Reykjavíkursvæðinu. Ekki er það þjóðfélaginu til hins betra. (GJG: Það eru lægri laun í Reykjavík en í Bolungarvík.) Ég held nú að hv. þm., formaður Verkamannasambandsins, ætti að líta í kringum sig í þjóðfélaginu, kynna sér launakjörin hvernig þau eru vítt og breitt um landið þegar hann talar um launamál. Eru lágmarkslaunin eitthvað hærri úti á landi en hér í Reykjavík? Ég er ekki eins hátt settur í hreyfingunni eins og þú. Eru lágmarkslaunin eitthvað hærri úti á landi en í Reykjavík? Skiptir það engu máli hvort viðkomandi einstaklingur sem er með sambærileg laun þarf að borga 8–9 þús. kr. á hverjum mánuði af sínum launum bara í þennan eina þátt heimilishaldsins eða hvort hann þarf að borga eins og hér í Reykjavík kannske upp undir 1000 kr. á tveggja mánaða fresti. En ég veit að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hefur verið dragbítur á þetta innan Verkamannasambandsins að þarna yrði leiðrétting gerð og því talar hann nú sem hann gerir. Hann hefur verið dragbítur á það að þarna fengist leiðrétting, kjarajöfnun, með þessum hætti milli launþega enda er hv. þm. nú þagnaður.

Ég tek að síðustu, hæstv. forseti, undir það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að margir bíða ábyggilega spenntir eftir því að sjá þær tillögur eða það frv. í hvaða formi það kann að vera sem hæstv. iðnrh. lofaði hér fyrir jól að fram skyldi koma á fyrstu dögum þings eftir áramót. Sama hvar í pólitískum flokki menn eru, hvaða stjórnmálaskoðun sem menn hafa, trúi ég því ekki að þeir geti horft upp á að slíkt óréttlæti haldi áfram í þjóðfélaginu eins og það sem hér um ræðir að því er varðar hitunarkostnaðinn hjá launafólki og raunar öllum. Þannig að hver dagur sem liður verður til þess að æ fleiri flosna upp á þessum svæðum og flytja til þeirra svæða þar sem þessi kostnaður er ekki nema brot af því sem hann er á þeim stöðum sem ég hef hér verið að tala um.