06.02.1984
Neðri deild: 43. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2589 í B-deild Alþingistíðinda. (2260)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að ræða stjórnarskrármálið. Ríkisstj. Gunnars Thoroddsens setti sér það markmið að leggja fyrir Alþingi frv. að nýrri stjórnarskrá. Það fór þó á annan veg. Stjórnarskrármálið var brotið upp og aðeins hluti þess kom til atkvæða á Alþingi áður en gengið var til nýrra alþingiskosninga. Sá hluti þess sem afgreiddur var snerist aðeins um kosningar til Alþingis og ímyndaða jöfnun á því sviði.

Þess skal þó getið að á bls. 3 í grg. með frv. því til stjórnskipunarlaga sem lagt var fram á 105. löggjafarþinginu, 206. máli, var svohljóðandi yfirlýsing gefin:

„Þingflokkar Alþb., Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl., sem að frv. þessu standa, hafa auk þess orðið ásáttir um eftirfarandi:

1. Að leggja fram með frv. þessu sem sérprentað fskj. „Skýrslu stjórnarskrárnefndar um endurskoðun stjórnarskrárinnar“. Þetta er gert í því skyni að almennar umræður fari fram um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Ætti almenningi þá að gefast kostur á að tjá sig um þá endurskoðun, þannig að afgreiðsla nýrrar stjórnarskrár geti orðið með vönduðum hætti að lokinni rækilegri umfjöllun.

2. Að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðstu nýrrar stjórnarskrár. M.a. fái sveitarfélög meira sjálfsforræði og þannig verði völd og áhrif landsmanna allra í eigin mátum aukin, óháð búsetu þeirra. Jafnframt munu þingflokkarnir beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismununar vegna búsetu gætir helst.“

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. Steingríms Hermannssonar var hvergi vikið að stjórnarskrármálinu og má segja að það sé rökrétt miðað við þá yfirlýsingu sem formenn flokkanna höfðu gefið. Nú hefur það aftur á móti gerst að mishratt eru trippin rekin. Flutt hefur verið aftur frv. til stjórnskipunarlaga um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Það bólar aftur á móti ekki á neinum frv. þar sem þingflokkarnir beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna, þar sem mismununar vegna búsetu gætir helst.

Nú er það spurning mín til hæstv. forsrh. og þeirra sem mátið varðar hvort þess sé að vænta að staðið verði við hina sameiginlegu yfirlýsingu og þá hvenær. Með því að kljúfa stjórnarskrármálið og halda því einu til haga er höfuðborgarsvæði telur sér henta voru kveiktir þeir eldar úti á landi er óvíst er að verði jafn auðslökktir eins og auðvelt var að kveikja þá.

„Þú skalt ekki hafa tvo mæla í húsi þínu“ er sú verslunarsiðfræði sem Biblían boðar. Opinberir aðilar hika þó ekki við að brjóta þessa grundvallarreglu. Misjafn framfærslukostnaður eftir landshlutum hefur leitt til þess að á s.l. ári fjölgaði aðeins um 13 manns í fimm kjördæmum á Íslandi af átta. Fari svo sem horfir verður valdahlutföllum innan lýðveldisins Íslands þann veg komið fyrir aldamót að stór-Reykjavíkursvæðið ræður öllu landinu. Segja má að borgríkið Reykjavík hafi þá tekið við því hlutverki sem lýðveldinu var áður ætlað. Jafnframt virðist þjóðfélagið sem heild stefna til aukinnar miðstýringar.

Þess vegna er sá hópur Íslendinga allstór sem vill fá hrein svör við því í nýrri stjórnarskrá hvaða mál verði sérmál hvers byggðartags eða landsvæðis. Þess vegna vil ég einnig leyfa mér að óska svars við því hvort núv. ríkisstj. hyggst á sínum starfstíma leggja fyrir Alþingi frv. til nýrra stjórnskipunarlaga um niðurstöðu af heildarendurskoðun á stjórnarskránni.