07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2617 í B-deild Alþingistíðinda. (2294)

146. mál, umhverfismál

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Búið er að tala hér fyrir hönd hringormsins og síðasti ræðumaður talaði fyrir einhverju öðru. Ætli það sé ekki mál að reyna að mæla ofurlítið fyrir seli?

Ég hafna þeirri réttarfarsfræði sem síðasti hv. ræðumaður talaði hér fyrir að menn skyldu kallast sekir þangað til annað hefði sannast. Ég held að eðlitegra hljóti að vera að fara hina leiðina og afla sér upplýsinga um hvort selurinn einn sé hér virkilega höfuðsökudólgur og láta hann þá gjalda þess í einhverju en þó sem mannúðlegast ef svo er.

Ég kem því ekki heim og saman sem fram kom í máli hv. þm. Páls Péturssonar að hið náttúrlega jafnvægi hefði raskast vegna þess að menn hættu veiðum. Ég mundi ekki orða það svo. Að sjálfsögðu hefur hið náttúrlega jafnvægi verið einhvern veginn öðruvísi hér í fyrndinni. Veiðarnar á síðari árum og áratugum hafa síðan haft þar veruleg áhrif á en það eru einnig fleiri hlutir sem hafa raskast. T.d. má skoða það hvort fjöldi hringorma í hverjum fiski hafi ekki vaxið svo mjög sem raun ber vitni vegna þess að fiskunum hefur fækkað og þar með sé plássið minna fyrir hvern hringorm og þeir verða að leita fleiri saman í einn fisk. Úr því að menn eru komnir svo langt í hinum líffræðilegum hugleiðingum hér á hv. þingi á að vera allt í lagi að varpa þessu fram til umhugsunar, það er, held ég, ekki vitlausara en umræður um máva og annað slíkt sem borið hefur á góma.

En ég kom aðallega hingað til þess að hafna þeim orðum sem féllu í garð Náttúruverndarráðs. Ég tel að það hafi haft uppi og flutt þann eina rétta málstað að rannsaka beri náttúruna, læra að þekkja hans og nýta hana síðan út frá því. Að dæma sel fyrirfram til dauða að lítt rannsökuðu máli eru ekki þau vinnubrögð sem vísindamönnum sæmir. Ég held að við Íslendingar ættum því að vinda okkur í að rannsaka þessi mál og verja til þess einhverju fé. Reyndar er lítt sæmandi fyrir fiskveiðiþjóð að þekkja ekki betur til þessara hluta en raun ber vitni. Kemur þar til bæði lífshlaup hringormsins, eða selormsins eins og hann hefur nú heyrst kallaður í seinni tíð, og samspil hans við aðrar tegundir, við fisk, sel og lífríkið allt í sjónum. Þetta leiðir enn hugann að því hversu skammarlega litlu við Íslendingar verjum til hafrannsókna almennt. Þar þarf vissulega að verða bragarbót á og er hér enn eitt talandi dæmið um það.