07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2624 í B-deild Alþingistíðinda. (2302)

168. mál, Kvikmyndasafn Íslands

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil svara fsp. hv. 10. landsk. þm. með sama hætti og fyrirrennari minn gerði fyrir þremur árum: Það verður lagt fram og innan tíðar.

Þetta frv. hefur verið til umfjöllunar í menntmrn. í tíð fyrirrennara míns í embætti, eins og sagt var hér í frumræðu, og sent ýmsum aðilum til umsagnar. Að því búnu var frv. svo prentað sem handrit með nokkrum breytingum í ljósi þeirrar umfjöllunar og umsagna. Þannig stóðu mál í fyrra, en frv. var hins vegar aldrei lagt fram. Hvort það hefur stafað af því að ekki náðist samstaða um það í ríkisstj. eða stjórnarflokkum eða af öðrum ástæðum, það hef ég ekki vitneskju um. En frv. hefur verið til framhaldsathugunar í menntmrn. eftir að ég tók við embætti eftir minni beiðni, bæði í tengslum við almenna athugun, sem gerð er á frv. og ég mun greina frá af hverju var hafist handa við aftur, og svo athugun sem fer fram á vegum rn. á stuðningi við listamenn almennt. Sérstaklega fer þetta starf fram hjá þeim starfsmönnum sem fara með kvikmyndamál í rn. og hjá stjórn Kvikmyndasjóðs og er stefnt að því að frv. verði lagt fram þegar þeirri, athugun er lokið. Ég get ekki ímyndað mér annað en það verði mjög fljótlega.

Þá skal ég greina frá því hvers vegna ég bað um frekari athugun á þessu frv. Það var í þeim tilgangi að gera frv. einfaldara í framkvæmd. Mér þótti ekki nauðsynlegt að hafa þrjár stjórnir sem með þessi mál færu, eins og gert var ráð fyrir í frv., og búa til sérstaka stofnun, Kvikmyndastofnun. Mér þótti heldur skynsamlegra að standa svo að verki að Kvikmyndasjóður væri efldur og hlutverk hans fært út, verksvið hans væri víkkað. Þetta er ástæðan fyrir þeim breytingum sem er verið að vinna að núna í rn. og verða væntanlega tilbúnar innan skamms. Ég á ekki von á öðru en samstaða geti náðst um það í ríkisstj.

Ég hygg að það dyljist ekki neinum að íslensk kvikmyndagerð er fjarri því að vera nokkur niðursetningur. Við sjáum um það dæmi bæði nú og oft áður að íslenskir kvikmyndagerðarmenn eru margir hverjir mjög góðir listamerin og dugandi í sínu fagi.