26.10.1983
Efri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Þær umr. sem hér fara fram eru af því sprottnar að miklir erfiðleikar eru nú í útgerð. Ástæður þeirra erfiðleika eru öllum kunnar. Það hefur orðið samdráttur í afla, einkum og sér í lagi hefur þorskafli brugðist og einnig bætist það við að hvorki er nú veidd loðna né síld. Ég held hins vegar að menn megi ekki ræða þessi mál í neinum örvæntingartón. Við skulum alveg gera okkur grein fyrir því, að í útgerð á Íslandi hafa löngum verið miklar sveiflur. Það hefur gengið upp og niður í útgerð hér á landi og stundum hefur verið talað um að útgerðin stæði illa og gera yrði ráðstafanir henni til styrktar og menn hafa haft þungar áhyggjur um skeið. En svo líða nokkur misseri og þá er útgerðin allvel stæð og stendur vel fyrir sínu. Afli við Íslandsstrendur er breytilegur. Það er gamalkunn staðreynd. Þar af leiðandi er rekstrarafkoman breytileg. Og ég vil alveg sérstaklega vara við hvers konar örvæntingarfullum hugmyndum eða ákvörðunum vegna þess að í svipinn er staðan erfið, sem við getum þó öll verið sammála um.

Útgerðin hefur verið rekin með tapi löngum samkvæmt skýrslum Þjóðhagsstofnunar. Ég hygg að á seinustu tíu til fimmtán árum sé varla finnanlegt það ár að útgerð hafi ekki verið talin rekin með tapi samkvæmt skýrslum Þjóðhagsstofnunar. Þó er staðreyndin sú, að allan þennan tíma, og það m.a.s. ár frá ári, hefur átt sér stað aukning eigin fjár í útgerð. Það á sér ýmsar skýringar, bæði bókhaldslegar og efnahagslegar, að sú hefur raunin orðið á.

Ég held að við vanda útgerðar á Íslandi verði fyrst og fremst að bregðast með því að endurskipuleggja veiðar og vinnslu á sjávarafurðum, gera útgerðarmönnum kleift að fá þá rekstrarlánafyrirgreiðslu sem nauðsynleg er á hverjum tíma. Ég hef hins vegar sjálfur alltaf verið andvígur því að ríkið kæmi og greiddi í einu eða öðru formi rekstrarkostnað þessa atvinnuvegar. Raunar er ég sömu skoðunar hvað alla aðra atvinnuvegi snertir. Það verður að ganga út frá því sem meginstefnu að atvinnuvegirnir standi undir sínum rekstri og ekki sé komið til ríkisins og óskað eftir styrkjum eða annarri fyrirgreiðslu til að halda undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar gangandi.

Þess vegna hef ég, t.d. þegar ég hafði með fjármál ríkissjóðs að gera, alltaf verið andvígur því að ríkissjóður tæki á sig greiðslu ógreiddra reikninga útgerðar. Það komu vissulega upp hugmyndir í þá átt í tíð seinustu ríkisstj., t.d. að ríkissjóður greiddi olíukostnað útgerðarinnar að hluta til ellegar að mismunur á því sem loðnuseljendur og loðnukaupendur gætu annars vegar selt sína vöru á og keypt sína vöru á væri greiddur úr ríkissjóði með einum eða öðrum hætti. Ég hef verið andvígur hugmyndum af þessu tagi og tel að svo stórfelld millifærsla í þjóðfélaginu gagnvart undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar geti ekki staðist. Hitt er annað mál, að ég hef oft og tíðum verið opinn fyrir því að millifærsla gæti átt sér stað í einstökum undantekningartilvikum og þá fyrst og fremst ef þannig hefur staðið á að lítill hluti atvinnulífsins hefur hrópað á gengisbreytingu meðan aðrir þættir efnahagslífsins hafa ekki þurft á henni að halda. Til þess að koma í veg fyrir þá kollsteypu og þá verðbólgu sem fylgdi í kjölfar gengisbreytingar hef ég oft verið talsmaður þess, t.d. við stjórnarmyndanir, að einhvers konar lítilfjörleg millifærsla gæti átt sér stað, og þá yrði að sjálfsögðu að afla tekna til þess, fyrst og fremst þá í þeim tilgangi að halda niðri verðbólgu. En að ríkið taki að sér að greiða verulegan hluta af rekstrarkostnaði undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar, það tel ég að geti ekki komið til greina. Slík byrði verður auðvitað ekki lögð á skattgreiðendur.

Í þessum umr. hefur vandi útgerðarfyrirtækisins Þormóðs ramma verið dreginn inn í umr. og ég var satt að segja ekki mjög hrifinn af innleggi hv. 5. landsk. þm. Eiðs Guðnasonar hér áðan um það efni, því mér heyrðist að þar væru bornar á borð heldur villandi upplýsingar um það mál. Hver er fyrst og fremst vandi útgerðarfélagsins Þormóðs ramma á Siglufirði? Vandinn er auðvitað númer eitt sá, — og það er ágætt að hv. þm. Eiður Guðnason kemur nú í salinn af því að hann var greinilega að tala um mál sem hann hafði ekki hugmynd um hér áðan varðandi Þormóð ramma, — að aðatviðskiptabanki fyrirtækisins, Landsbankinn, hefur neitað áframhaldandi viðskiptum við fyrirtækið. Það er ekki, eins og gefið er í skyn í Morgunblaðinu í morgun, vegna þess að fyrirtækið hafi reynst svo miklu verri viðskiptavinur en önnur fyrirtæki sem Landsbankinn hefur viðskipti við, heldur einfaldlega vegna þess að Landsbankinn telur að þegar hann tók við viðskiptum ýmissa fyrirtækja sem voru hjá Útvegsbanka Íslands hafi það verið partur af þeim samningum að Útvegsbankinn tæki við þessu fyrirtæki og hefur þá flutt þau rök að það er útibú frá Útvegsbankanum á Siglufirði, en ekkert útibú frá Landsbankanum nema á Akureyri og á Skagaströnd og það væru því bankamálaleg rök fyrir því að Útvegsbankinn ætti að að hafa þetta fyrirtæki í viðskiptum en ekki Landsbankinn og að þetta væri partur af uppstokkun þessara tveggja banka. Útvegsbankinn hefur aftur á móti sett mjög ströng skilyrði fyrir því að taka fyrirtækið í viðskipti. Það fór svo að lokum að Landsbankinn sagði: Nú bíð ég ekki öllu lengur. — Ég held það hafi verið í júlímánuði s.l. að hann tilkynnti að nú væri fyrirtækið hætt viðskiptum hjá Landsbankanum og nú yrði Útvegsbankinn að taka við. En Útvegsbankinn tók alls ekki við viðskiptunum. Þannig hefur málið staðið fram á þennan dag og verið vandræði frá mánuði til mánaðar vegna þess að núna hefur hvorugur bankinn þessi viðskipti við fyrirtækið, sem öll önnur fyrirtæki landsins njóta.

Þetta er fyrsti vandi þessa fyrirtækis. Svo verður auðvitað að viðurkennast að fyrirtækið er, eins og mörg önnur fyrirtæki í landinu, í töluverðum rekstrarvanda, stendur frammi fyrir uppsöfnuðum rekstrarvanda. Þó vil ég leyfa mér að segja að sá vandi er í sjálfu sér ekkert annar og meiri en fjöldamörg önnur fyrirtæki standa frammi fyrir um þessar mundir. Fyrirtækið skortir bersýnilega aukið rekstrarfé, en ef farið er ofan í saumana á eignastöðu leynir sér ekki að þarna er um miklar eignir að ræða umfram skuldir. Þetta fyrirtæki er ekki á hausnum, eins og kallað er, það er ekki gjaldþrota í eignalegum skilningi, en það er hins vegar í verulegum fjárhagslegum erfiðleikum vegna lausaskuldastöðu sinnar.

Ein leiðin til að auðvelda þessu fyrirtæki rekstur er að það fái unnið úr meiri afla en það gerir í dag. Það er viðurkennd staðreynd að frystihúsið gæti tekið við afla úr þriðja togaranum og að aukin umsvif frystihússins á staðnum, sem er nýtt og fullbúið tækjum, mundu auka tekjur fyrirtækisins langt umfram þann kostnað sem mundi fylgja því að nýtt skip væri fengið. Þar af leiðandi hefur sú hugmynd komið upp að fyrirtækið kaupi nýtt skip, t.d. Hafþór sem hefur verið á söluskrá. Auðvitað er ekkert óeðlilegt að stjórnendur fyrirtækisins velti fyrir sér þeim möguleikum að bæta rekstrarafkomu frystihússins á staðnum með því að auka aflann og hafa meira úr að vinna. Það eru eðlileg og heilbrigð viðbrögð. Ég er því mjög undrandi á þeirri vandtætingu sem kom fram í orðum hv. þm. Eiðs Guðnasonar vegna þessara áforma.

Eitt af því sem vissulega kemur líka til greina í sambandi við þetta fyrirtæki, sem er að 70% í eigu ríkissjóðs, er að eigendurnir leggi fram meira eigið fé í fyrirtækið en gert hefur verið. Þarna hefur verið reist stórt og mikið frystihús og ég hygg að það hljóti að verða að hugleiða hvort sú mikla fjárfesting, sem þarna hefur átt sér stað, kalli ekki á aukið eiginfjárframlag eigendanna, þ. á m. heimamanna sem eiga 30% í fyrirtækinu. Það er ekki annað en það sem hlýtur að eiga sér stað í öllum rekstri því að það verður að vera ákveðið eðlilegt hlutfall milli eigin fjár fyrirtækis og þeirra skulda sem á fyrirtækinu hvíla.

Það eru umr. uppi um þetta mál fyrst og fremst í framhaldi af yfirlýsingu hæstv. fjmrh., sem var hér til umr. á seinasta fundi hv. Ed. Ég verð að taka undir það með öðrum, sem hér hafa rætt málið að yfirlýsing hæstv. fjmrh. var ákaflega athyglisverð og þar var varpað fram mjög nýstárlegri hugmynd. Hann varpaði fram hugmynd um að það ætti að aflétta skuldum útgerðarinnar með því einfaldlega að strika yfir þær, og átti þá að sjálfsögðu fyrst og fremst við þær skuldir sem við hér á Alþingi höfum vald á, en það eru þær skuldir sem eru hjá opinberum lánasjóðum og ríkissjóður er væntanlega ábyrgur fyrir. Hitt verð ég að taka undir líka með hv. þm. Ólafi Jóhannessyni 9. þm. Reykv., að ummæli þessi þarfnast nánari skýringa og hæstv. fjmrh. mundi gera okkur öllum nokkurn greiða ef hann gerði nánari grein fyrir því hvernig hann telur að unnt væri að framkvæma hugmynd af þessu tagi.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Ólafur Jóhannesson segir, að auðvitað verðum við að velta því fyrir okkur hver á að borga brúsann ef þetta væri gert. Hver mundi þá borga brúsann? Ef Fiskveiðasjóður slægi striki yfir sína reikninga féllu þessar skuldir á ríkissjóð. Svarið blasir því auðvitað við okkur öllum, að það er enginn vafi á að það væri hinn almenni skattgreiðandi í landinu sem yrði látinn borga brúsann. Ég hygg að þessi athyglisverða hugmynd, sem fram kom hjá hæstv. fjmrh., sé hugmynd um stærstu millifærslu í sögu þjóðarinnar. Ég hygg að ef þetta yrði gert væri þetta stærri færsla á fjármunum frá skattgreiðendum til atvinnurekstrar en nokkurt dæmi væri til um í allri sögu íslensku þjóðarinnar.

Ég tók það fram hér fyrr í ræðu minni, að ég hefði stundum gerst talsmaður millifærsluráðstafana, en þá einungis í undantekningartilvikum, vegna þess að ég tel að það eigi að vera meginreglan að atvinnuvegirnir standi undir sínum rekstri. Ég tel að það þurfi að vera þá fyrst og fremst við þær aðstæður að allur þorri atvinnurekstrar geti gengið með því gengi sem er í gildi á líðandi stund, en ef einhver einn atvinnurekstur standi óvenjulega illa geti sem sagt verið þörf á sérstökum ráðstöfunum ríkisins. En ekki þarf að taka það fram frekar að ég mundi að sjálfsögðu telja fráleita svo stórfellda millifærslu sem hæstv. fjmrh. var þarna að varpa fram sem hugmynd. Við erum kannske ekki að öllu leyti sammála um þetta atriði, en ég tel að hugmynd hans sé engu að síður athyglisverð, þó.að við séum ekki sammála, og að hann þurfi að gera nánari grein fyrir því hvernig hann hugsar að slíkt geti átt sér stað.

Hann var spurður um það af hv. 9. þm. Reykv. Ólafi Jóhannessyni hér áðan, hvað hann ætti við með þessari yfirlýsingu, og við hlýddum hér á svar hans áðan. En ég hygg að ég mæli kannske fyrir munn fleiri en mín þegar ég segi að ég hafi ekki fyllilega áttað mig á hvað fólst í hugmyndum hans eftir að hafa hlýtt á hans ræðu. Hann sagði m.a. að hann væri ekki beinlínis að verja þessa leið, þetta væri einn möguleikinn sem til greina kæmi í vandamátum útgerðarinnar, en hann sagði líka, og ég skrifaði það hér niður, að hugmyndin yrði til þess að menn hugleiddu hvernig þessi hugmynd yrði gerð að veruleika og að hugmyndin yrði til þess að menn reyndu að finna lausn sem væri eitthvað í þessa áttina. Í síðari ræðu sinni tók hann svo mjög skýrt fram, að gefnu tilefni hv. þm. Eiðs Guðnasonar hér áðan, að hann hefði ekki dregið eitt hænufet í land með þessar hugmyndir sínar. Þar af leiðandi tek ég undir það, sem kom fram hjá hv. þm. Ólafi Jóhannessyni, að ég tel að hæstv. fjmrh. þurfi að gera okkur örlítið skýrari grein fyrir því í hverju hugmynd hans er fótgin, hvort við kunnum kannske að hafa misskilið orð hans eða hvort það er ekki rétt, sem ég skil á því sem hann hefur sagt um þessi efni, að það sé verið að tala um að slá striki yfir skuldir útgerðarinnar hjá opinberum sjóðum. Getur hann þá ekki verið sammála mér um þá túlkun á þeirri aðgerð, að ef þetta væri gert væri um að ræða einhverja stórfelldustu millifærslu sem átt hefði sér stað í íslensku efnahagslífi fyrr og síðar?