07.02.1984
Sameinað þing: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2639 í B-deild Alþingistíðinda. (2320)

121. mál, stjórnsýslulöggjöf

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég fagna því að þessu máli er hreyft hér á Alþingi. Það er mikil þörf á setningu almennra stjórnsýslulaga til að auka réttaröryggi einstaklinga.

Eins og hv. 2. þm. Reykn. sagði flutti ég till. til þál. um þetta á þinginu 1980 og hún hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta hið fyrsta kanna, hvort tímabært sé að sett séu hér á landi almenn stjórnsýslulög.

Í því skyni sé skipuð nefnd til að fjalla um mál þetta og semja um það frv., ef ástæða þykir til.

Skýrsla og tillögur nefndarinnar verði lagðar fyrir Alþingi eigi síðar en tveim árum eftir samþykkt ályktunar þessarar.“

Ég vil geta þess, herra forseti, að niðurlag textans í till. þessari gerir ráð fyrir alllöngum undirbúningstíma. Ég geri mér grein fyrir því að þetta mál er mjög flókið og það þarf mikla nákvæmni að hafa við til að slík lög komi að því gagni sem þarf fyrir einstaklingana, sérstaklega í skiptum þeirra við hið opinbera.

Um þessa till. var fjallað í allshn. Sþ. og hinn 17. mars 1981 var gefið út svohljóðandi nál., með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur leitað umsagna frá Dómarafélagi Íslands, lagadeild Háskóla Íslands, réttarfarsnefnd og Lögmannafélagi Ísands. Nefndin mælir með samþykkt till.“ Að þessu nál. kynntu hér í hv. Alþingi var till. samþ. og samkv. upplýsingum þáv. dómsmrh., hv. 1. þm. Vesturl. sem hér situr í salnum, veit ég ekki betur en að unnið hafi verið að þessu máli í dómsmrn., a.m.k. að einhverju leyti þótt svo kunni að hafa verið að því hafi ekki verið lokið þegar stjórnarskipti urðu. Ég vil hvetja til þess að því starfi verði lokið hið fyrsta.

Ég vil vekja athygli hv. n., sem fær till. til meðferðar, á atriðum sem fram koma í grg. með till. minni frá árinu 1980, hún var 117. mál þess þings, svo og í umr. um hana. Þar koma fram upplýsingar um norsku og sænsku stjórnsýslulögin og er rakið hver nauðsyn er á slíkri löggjöf, jafnvel þótt til væri að dreifa embætti umboðsmanns eða stjórnsýsludómstól. Ingibjörg Rafnar lögfræðingur vann grg. þessa og undirbjó málið að því er sérfræðilega hlið þess varðaði. Grg. og ýmislegt í umr. byggðist á hennar vinnu, sem ég tel að sé mjög vönduð og heppileg til að renna stoðum undir þetta mál. Einmitt ári áður hafði Lögfræðingafélag Íslands haft málþing um réttaröryggi í stjórnsýslunni, ef ég man rétt heiti umræðuefnisins, og þar flutti höfundur grg. með þáltill., Ingibjörg Rafnar, erindi um andmælaregluna, þ.e. þá reglu sem er mikið grundvallaratriði, þann rétt sem einstaklingar þurfa að hafa og geta notið til að koma sjálfir við athugasemdum um niðurstöður hins opinbera valds. Ýmsir aðrir lögfræðingar fjölluðu um þetta efni. Ég vil aðeins draga þessi atriði fram.

Á þessu málþingi komu einnig fram fleiri atriði sem styðja þetta mál, en ég hygg að í okkar þjóðfélagi, þótt lítið sé, sé mikil þörf á slíkum reglum, sem styðja einstaklinga í viðleitni þeirra til að gæta réttar síns gagnvart hinu opinbera valdi. Þótt því eigi vissulega í flestum tilfellum að beita til þess að vernda og hafa umsjón með einstaklingum er það oft svo að menn vita betur sjálfir hvað þeim er fyrir bestu og vilja a.m.k. geta tjáð sig um það og komið sínum rökum við. Það á einnig að geta einfaldað stjórnsýslukerfið að slíkar reglur séu til.